18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2596 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

241. mál, innkaup á innlendum iðnaðarvörum

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda ber hann fram fsp. á þskj. 470, svohljóðandi:

„Til hvaða aðgerða hefur ríkisstj. gripið til að stuðla að opinberum innkaupum á innlendum iðnaðarvörum eftir að samstarfsnefnd um opinber innkaup var lögð niður haustið 1983?"

Svar mitt er: Hinn 1. júní 1982 voru samþykkt í ríkisstj. fyrirmæli til stofnana og fyrirtækja ríkisins varðandi opinber innkaup. Samkvæmt samþykktinni var skipuð sérstök samráðsnefnd um opinber innkaup. Hins vegar var framkvæmd fyrirætlana falin hverju ráðuneyti fyrir sig gagnvart þeim fyrirtækjum og stofnunum er undir þau heyra. Með vísan til þess að framkvæmdin heyrði undir einstök ráðuneyti og málefni þetta var komið á framkvæmdastig þótti ekki ástæða til að halda starfi samráðsnefndarinnar áfram og var hún lögð niður haustið 1983.

Á fundi ríkisstj. hinn 11. jan. 1984 var samþykkt ný tillaga frá iðnrh., svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

"Ríkisstj. samþykkir að beina eftirfarandi fyrirmælum til allra stofnana og fyrirtækja ríkisins í því skyni að efla innlenda atvinnustarfsemi:

1. Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skulu leitast við að kaupa íslenskar vörur til opinberra nota.

2. Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skulu leitast við að haga útboðum og hönnun á verksamningum þannig að þeir miðist eins og frekast er kostur við íslenskar vörur og atvinnustarfsemi.

3. Hvert ráðuneyti skal sjá um framkvæmd þessara fyrirmæla gagnvart þeim fyrirtækjum og stofnunum sem undir það heyra.“

Í framhaldi af þessari samþykkt sendi iðnrh. bréf, dags. 18. jan. 1984, til allra stofnana og fyrirtækja er heyrðu undir starfssvið iðnrn. þar sem lögð var áhersla á það að stjórnendur þessara stofnana og fyrirtækja hefðu þessa ríkisstjórnarsamþykkt til hliðsjónar við öll innkaup. Jafnframt var óskað eftir reglubundnu yfirliti um gang þessara mála hjá viðkomandi aðila.

Viðbrögð fyrirtækja og stofnana gagnvart þessum óskum ráðuneytisins voru almennt mjög jákvæð. Fram kom í svörum þeirra að góð reynsla hefði verið af því að beita útboðum varðandi opinber innkaup þar sem mögulegt var að koma því við og höfðu hagstæðir samningar tekist yfirleitt. Leituðust fyrirtæki jafnframt markvisst við að kaupa íslenska framleiðslu fremur en erlenda, jafnvel þótt íslenska framleiðslan væri eitthvað dýrari miðað við sömu gæði. Ráðuneytið óskaði síðan eftir því hinn 8. mars 1985 í ljósi áður fenginna upplýsinga um málið að fyrirtæki og stofnanir sem undir það heyrðu sendu árlega inn yfirlit til ráðuneytisins um opinber innkaup viðkomandi aðila. Hefur verið reynt að stuðla að óformlegu eftirliti með að ríkisstjórnarsamþykktinni verði framfylgt. Svarið mótast af aðgerðum þeim er iðnrn. hefur gripið til til að stuðla að opinberum innkaupum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um framkvæmd samþykktarinnar hjá öðrum ráðuneytum.

Í framhaldi af þessari fsp. má segja að ég hafi farið að kynna mér betur hvernig þessi mál stóðu og standa, og þann 12. þ.m. var svohljóðandi bréf sent til stofnana og fyrirtækja er heyra undir iðnrn.:

„Með bréfi ráðuneytisins dags. 18. jan. 1984 var öllum stofnunum og fyrirtækjum er heyra undir iðnrn. kynnt eftirfarandi ríkisstjórnarsamþykkt frá 11. jan. 1984 um opinber innkaup:

Ríkisstj. samþykkir að beina eftirfarandi fyrirmælum til allra stofnana og fyrirtækja ríkisins í því skyni að efla innlenda atvinnustarfsemi:

1. Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skulu leitast við að kaupa íslenskar vörur til opinberra nota.

2. Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skulu leitast við að haga útboðum og hönnun á verksamningum þannig að þeir miðist eins og frekast er kostur við íslenskar vörur og atvinnustarfsemi.

3. Hvert ráðuneyti skal sjá um framkvæmd þessara fyrirmæla gagnvart þeim fyrirtækjum og stofnunum sem undir það heyra.

Ráðuneytið lagði á það áherslu í bréfinu að stjórnendur stofnana og fyrirtækja er undir það heyra hefðu þessa samþykkt framvegis til hliðsjónar við öll innkaup. Voru viðbrögð viðkomandi jákvæð gagnvart þessum tilmælum.

Með bréfi frá 8. mars 1985 var óskað eftir því við þessa sömu aðila að ráðuneytinu yrðu send yfirlit um opinber innkaup þeirra og skyldi yfirlitið sent í janúarmánuði fyrir hvert nýliðið ár. Óskaði ráðuneytið jafnframt eftir því að í yfirlitinu kæmi fram eftirfarandi:

1. Hlutfall í prósentum innlendrar framleiðslu af heildarinnkaupum fyrirtækisins.

2. Sundurliðun innkaupa skv. helstu vöruflokkum og skiptingu í prósentum þeirra vöruflokka í innlend og erlend kaup.

3. Stefna fyrirtækisins í innkaupamálum og hvernig tekist hafi að framfylgja henni.

Þá eru fyrirtæki hvött til að láta þá aðila sem beint gætu vörukaupum erlendis frá til innlendra aðila, svo sem nýiðnaðardeild Iðntæknistofnunar Íslands, Félag ísl. iðnrekenda og ráðuneytið, vita um vöruflokka sem hugsanlega mætti framleiða hér á landi þannig að stuðla mætti að því að efla innlendan iðnað.

Ráðuneytið ítrekar þessi fyrirmæli um árlegt yfirlit yfir opinber innkaup yðar og er þess óskað að það berist ráðuneytinu eigi síðar en í lok mars 1986.“ Albert Guðmundsson og Páll Flygenring skrifuðu undir.

Þetta er mitt svar við þeirri fsp. sem hv. fyrirspyrjandi hefur sent mér.