18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

249. mál, afurðalán skreiðarframleiðenda

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í samráði við samtök skreiðarframleiðenda og bankana, svo og nokkra sparisjóði, var ákveðið að nýta heimild í 29. gr. lánsfjárlaga ársins 1985 þannig að ríkissjóður greiddi vexti af hluta afurðalána sem veitt höfðu verið út á skreiðarbirgðir í árslok 1984. Á tímabilinu frá okt. til des. á síðasta ári tókust samningar milli ríkissjóðs og 11 bankastofnana um að ríkissjóður greiði mánaðarlega frá 1. júní 1985 til 31. des. 1988 afurðalánavexti af hluta þeirra afurðalána sem veitt höfðu verið skreiðarframleiðendum. Það er þess vegna rangt, sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, að ekkert hefði verið gert í þessu máli á síðasta ári. Öllum samningum um þetta atriði við viðskiptabanka og sparisjóði var lokið fyrir árslok 1985. En það er rétt að samningsgerðin tók langan tíma vegna þess að hver einstakur skreiðarframleiðandi þurfti að undirrita yfirlýsingu um að hann þekkti efni samningsins og væri honum samþykkur og fyrst og fremst vegna þessara formsatriða dróst af hálfu bankanna að leggja málin þannig fyrir að unnt væri að ganga fyrr frá samningum við þá. En hlutur ríkissjóðs í afurðalánum skv. þessum samningum er um 237 millj. kr. og í framhaldi af þessari samningsgerð hefur ríkissjóður greitt um 29,5 millj. kr. í afurðalánavexti miðað við 10. febr. s.l.

Þess er einnig rétt að geta í þessu sambandi að á fundi ríkisstj. í morgun var samþykkt í fyrsta lagi að ekki verði innheimtur gengismunur af skreið sem framleidd hefur verið fyrir 1. júní 1983 en greidd er eftir 1. jan. 1986, og í öðru lagi að felld verði niður útflutningsgjöld af skreið sem framleidd hefur verið fyrir árslok 1984 en greidd eftir 1. jan. 1986. Jafnframt var samþykkt að frekari afstaða til þeirra tillagna sem skreiðarframleiðendur hafa lagt fram verði tekin þegar skreiðin hefur verið seld og greidd og í ljós er komið hver fjárhagsstaða skreiðarframleiðenda verður. Þetta þýðir að tekin verður afstaða til þess þegar skreiðin hefur verið seld að hve miklu leyti um verður að ræða yfirtöku ríkissjóðs á þessum allt að 250 millj. kr. lánum sem samið hefur verið um. Fyrr en niðurstaða er fengin í þessu máli verður ekki unnt að ákveða á hvern veg þetta fer, en hér er um að ræða áhættulán og það verður að koma í ljós hver skaði skreiðarframleiðenda verður þegar skreiðin hefur verið seld og þá verður metið að hve miklu leyti um verður að ræða yfirtöku á þessum lánum.