18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2601 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

252. mál, starfsmaður Veiðimálastofnunar

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 482 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. landbrh.:

„Hvað líður ráðningu starfsmanns við útibú Veiðimálastofnunar á Egilsstöðum?"

Þessari fsp. er eðlilega hreyft nú þegar komið er á annað ár frá því að starfsmaður útibúsins sem þá var lét af því starfi og flutti hingað suður. Það var býsna erfið barátta og þungur róður að fá þetta útibú viðurkennt á sínum tíma, en Austurland hafði óneitanlega um allt of langan tíma legið eftir í sambandi við veiðimál, rannsóknir sem aðgerðir í þeim efnum, nema það sem áhugamenn höfðu unnið að þessum málum heima fyrir og skal það síst lastað. Austfirðingar leggja því eðlilega mikla áherslu á það að fastur starfsmaður sé við útibúið og leggi lið og stýri þeim mörgu verkefnum víða í fjórðungnum sem við er að fást.

Til að allrar sanngirni sé gætt er rétt að taka það fram að sá maður sem síðast gegndi þarna starfi, Árni Helgason, hefur áfram unnið að verkefni í Vopnafirði sérstaklega og eins hefur Jón Kristjánsson unnið að svokölluðu silungaverkefni á þessum tíma sem liðinn er frá því að starfsmaðurinn hvarf frá Egilsstöðum, en fastan starfsmann þarf að fá sem fyrst og á það er knúið af heimamönnum og því er um þetta spurt.