18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2602 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

252. mál, starfsmaður Veiðimálastofnunar

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum sem komið hafa frá veiðimálastjóra sem svar við fsp. hv. 2. þm. Austurl. um ráðningu starfsmanns að Egilsstöðum vil ég lesa eftirfarandi bréf frá veiðimálastjóra, með leyfi forseta:

„Í bréfi hins háa ráðuneytis, dags. 12. þ.m., er óskað umsagnar um fsp. frá Helga Seljan alþm. á þskj. nr. 482, um hvað líði ráðningu starfsmanns við útibú Veiðimálastofnunar á Egilsstöðum.

Ráðinn hefur verið maður í nefnt starf. Hann lýkur líffræðiprófi frá Háskóla Íslands á komandi vori og mun hefja störf í maí. Að fenginni kynningu á starfinu í Reykjavík og víðar mun hann flytjast austur til Egilsstaða í júlíbyrjun. Maðurinn heitir Steingrímur Benediktsson.,

Árni H. Helgason fiskifræðingur, sem áður var á Egilsstöðum, hóf störf í Reykjavík í janúar 1985 sem sérfræðingur í fiskeldismálum, en hann hafði við framhaldsnám lagt sérstaka stund á fiskeldi. Síðan til kom að Árni flyttist til hefur verið reynt að fá hæfan mann til starfa á Austurlandi en það hefur ekki tekist fyrr en nú nýverið. Þeim fiskifræðingum, sem komið hafa til greina síðan, hefur verið boðið starfið, en þeir hafa ekki viljað fara austur.

Nauðsynlegt er að fá til starfsins mann sem getur sinnt því sómasamlega, enda er það fjölbreytilegt þar sem ekki er nægjanlegt að sinna fiskifræðilegum málum eingöngu heldur einnig að veita ráðgjöf og leiðbeiningar og vinna að félagsmálum á sviði veiðimála, þ.e. í sambandi við veiðifélög, stangaveiðifélög og önnur samtök. Von mín er að hæfur maður sé nú fundinn til starfsins.“

Það skal tekið fram að þótt Árni Helgason hafi fiskeldismálin nú sem aðalverkefni þá hefur hann að hluta sinnt veiðimálum á Austurlandi á árinu 1985. Þetta kom einnig fram í máli hv. fyrirspyrjanda og einnig að það hefur verið unnið að svokölluðu silungaverkefni á Austurlandi síðustu árin sem er mjög merkilegt starf og gefur vonir um að þar geti bændur nýtt sér silunginn í veiðivötnunum miklu meira en þeir haf gert og verið til styrktar byggðarlögunum þar sem slíka aðstöðu er að hafa.