18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2602 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

252. mál, starfsmaður Veiðimálastofnunar

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin og fagna því sem þar kom fram að væntanlega kæmi nú innan tíðar starfsmaður að þessu útibúi Veiðimálastofnunarinnar. Það er full þörf á því að sinna margþættum verkefnum sem þar bíða og í raun og veru mjög bagalegt að hér skuli hafa fallið að mestu úr rúmt ár - það verður u.þ.b. hálft annað ár sem fellur úr - að undanskildum þeim tveim verkefnum sem ég minnti á hérna áðan, silungaverkefnið svokallaða, og hins vegar þau verkefni sem eru sérstaklega bundin Vopnafirði.

En ég fagna því að við Austfirðingar skulum fá þarna hæfan og vel menntaðan mann til starfa eystra og óska þeim nýja væntanlega starfsmanni alls góðs og vænti þess að hann uni sér vel eystra og geri þar það mikla gagn sem maður með þekkingu og hæfileika af þessu tagi getur vissulega gert í fjórðungnum.