18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2603 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

266. mál, stálbræðsla

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á fundi forustumanna Stálfélagsins með forsrh. og iðnrh. hinn 15. nóv. s.l. komu fram eftirfarandi upplýsingar meðal annarra:

Í fyrsta lagi var á það bent að Alþingi Íslendinga hefði hvatt til stofnunar Stálfélagsins með setningu laga um stálbræðslu 25. maí 1981.

Í öðru lagi var bent á það að í kjölfar þessarar lagasetningar hefði félagið verið stofnað og þegar á stofnfundi hefði komið fram mikill og almennur áhugi einstaklinga og fyrirtækja og væru hluthafar nú orðnir yfir 1000 talsins.

Í þriðja lagi var á það bent að á grundvelli þessa ákvæðis laganna, um að ríkissjóður legði fram allt að 40% hlutafjár, hefðu farið fram viðræður við þáv. iðnrh., Sverri Hermannsson, í lok ársins 1983.

Í grein frá forráðamönnum Stálfélagsins í Morgunblaðinu 28. desember s.l. eru þessu máli gerð ítarlegri skil og m.a. á það bent að stjórnin hafi rætt við iðnrh., og eins og segir í greininni, með leyfi forseta:

„Ráðherra hvatti forráðamenn eindregið til þess að halda áfram af fullum krafti uppbyggingu stálbræðslu. Ráðherra kvaðst þurfa janúarmánuð næstkomandi til að útvega ríkisábyrgð og hlutafjárframlag ríkisins samkvæmt lögum frá 1981.“

Í þessari sömu grein er á það bent að hinn 18. júlí 1984 hafði Morgunblaðið það eftir þáv. fjmrh. að hann hafi ákveðið að veita Stálfélaginu ríkisábyrgð vegna lánsumsóknarinnar til Norræna fjárfestingarbankans í samræmi við lögin frá 1981.

Það er hins vegar skemmst af að segja að mikill dráttur hefur orðið á afgreiðslu stjórnvalda á málum þessa félags. Þetta hefur haft það í för með sér að áhugamenn um verulega þátttöku í félaginu hafa hætt við og ríkisbankar ekki fengist til viðskipta við félagið. Eins og segir í plaggi frá fundi félagsins og forráðamanna þess með forsrh. og iðnrh., frá 15. nóv. 1985, sem ég var að enda við að vitna í, þá er vegna alls þessa svo komið að við blasir gjaldþrot ef ekki verður að gert. Athuganir sem stjórn félagsins hefur látið gera benda eindregið til þess að grundvöllur sé fyrir rekstri stálbræðslu hér á landi, einkum vegna þess að framleiðslan notar innlent hráefni, innlenda orku og hefur fjarlægðarvernd.

Í þessu plaggi frá Stálfélaginu segir einnig:

„Á grundvelli laga og gefinna fyrirheita fer Stálfélagið hf. hér með fram á það við ríkisstjórnina að hún sjái til þess að núverandi vandi félagsins verði leystur þannig að hægt verði að halda áfram uppbyggingu stálbræðslu hér á landi.“

Ég hygg að þessar ábendingar Stálfélagsins hf., sem ég hef hér vitnað til, skýri í meginatriðum eðli þessa máls, og skýri hvers vegna við höfum, þrír þingmenn, hv. þm. Geir Gunnarsson, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og ég, borið fram þessa fsp., en hún er svohljóðandi:

„Hvernig hyggst ríkisstjórnin koma til móts við Stálfélagið hf. í viðleitni þess til að koma á fót stálbræðslu hér á landi?"