18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2604 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

266. mál, stálbræðsla

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Norðurl. v., er beint til mín fsp. á þskj. 499 frá honum sem 1. flm., Geir Gunnarssyni og Hjörleifi Guttormssyni, svohljóðandi:

„Hvernig hyggst ríkisstjórnin koma til móts við Stálfélagið hf. í viðleitni þess til að koma á fót stálbræðslu hér á landi?"

Svar mitt er svohljóðandi:

Lög um stálbræðslu voru samþykkt á Alþingi árið 1981. Lög þessi eru heimildarlög þar sem þátttaka ríkisins er m.a. skilyrt því að hlutur ríkisins verði ekki yfir 40% af hlutafé félagsins, og hlutafé félagsins verði minnst 30% af stofnkostnaði stálbræðslunnar.

Í 2. gr. laganna segir að ríkisstjórninni sé heimilt að leggja fram allt að 12 millj. kr. miðað við lánskjaravísitölu 1. apríl 1981. Enn fremur að veita ríkisábyrgð fyrir lánum eða taka lán, er hlutafélaginu verði veitt til byggingar verksmiðjunnar, að fjárhæð samtals 17,5 millj. kr., eða jafnvirði þess í erlendri mynt enda hafi verið tryggð öflun annars nauðsynlegs lánsfjár vegna stofnkostnaðar. Fjmrh. fer með framkvæmd þessarar greinar.

Þá er í lögunum frá 1981 ákvæði til brb. þar sem segir að ekki sé heimilt að leggja fram hlutafé eða ábyrgjast lán fyrr en tryggð hafi verið hlutafjárframlög annarra aðila fyrir 60% hlutafjár.

Á s.l. ári gekkst ég fyrir því, þá sem fjmrh., að samþykkt voru lög nr. 82 1. júlí 1985, um heimild gegn þeim tryggingum sem fjmrh. metur gildar að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán að fjárhæð allt að 1,55 millj. bandaríkjadala eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskri mynt.

Auk skilyrða laganna nr. 37/1961 um ríkisábyrgðir verði þess gætt að hlutafé fyrirtækisins sé a.m.k. 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar, að samningar séu fyrir hendi við banka er tryggi rekstrarfé til fyrirtækisins og að gætt verði náttúruverndarsjónarmiða.

Eins og rakið hefur verið hér að framan hafa stjórnvöld komið til móts við þá aðila sem staðið hafa fyrir stofnun stálbræðslufyrirtækisins eins og kostur er. Stálfélagið hf. hefur aftur á móti ekki getað uppfyllt þau skilyrði sem sett hafa verið vegna þátttöku ríkissjóðs. Þannig eru t.d. engir samningar enn fyrir hendi við banka um að tryggja rekstrarfé til fyrirtækisins. Standa málin í dag því þannig að það er ekki á valdi ríkisstjórnarinnar að koma frekar til móts við Stálfélagið hf. fyrr en að uppfylltum settum skilyrðum.

Vegna þess sem fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., þegar hann fylgdi þessari fsp. úr hlaði, vil ég ekki taka undir það að Alþingi sem slíkt hafi beint hvatt til stofnunar fyrirtækisins þó Alþingi hafi að beiðni áhugamanna samþykkt umrædd lög sem síðan urðu kannske til þess að fyrirtækið var stofnað.

Ég get ekki rætt um þær viðræður sem hafa átt sér stað við forvera minn í starfi, né heldur greinar sem birst hafa í Morgunblaðinu, né heldur tekið undir það, né heldur hafnað að hann hafi hvatt eða latt til áframhaldandi starfa í sambandi við stofnunina. Fjmrh. ákveður að sjálfsögðu að veita ríkisábyrgðina þegar hann álítur að skilyrðum samkvæmt lögum sé fullnægt. Ef nú blasir við gjaldþrot stofnaðila, þá er það ekki ríkisstj. að kenna í einu eða neinu, heldur því að því miður hafa stofnaðilar - þótt þeir séu þúsund - ekki getað fullnægt þeim skilyrðum sem gert er ráð fyrir að félagið geri samkvæmt lögum. Því get ég ekki séð að það sé réttmæt krafa, sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, 1. flm. þessarar fsp. á þskj. 499, að nú sé það ríkisstjórnarinnar að sjá um að vandinn verði leystur.