18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2606 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

266. mál, stálbræðsla

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég skil það á ummælum og áherslum hv. 3. þm. Norðurl. v. að hann er ekki ánægður með það svar sem ég gaf. Lái ég honum það ekki en það verður að vera hans vandamál. En ég vil ítreka að það hefur ekki verið af ríkisstjórnarinnar eða stjórnvalda hálfu neitt neikvætt í meðhöndlun þessa máls. Það voru samþykkt lög - mér skilst, miðað við það sem hér stendur, að þau hafi verið samin árið 1961 - áður en forveri minn kom í embætti og viðhorf stjórnvalda hefur verið jákvætt. Stjórnvöld hafa verið reiðubúin til þess að veita ríkisábyrgð, þau hafa verið tilbúin til þess að taka þátt í stofnun félagsins, en að ákveðnum skilmálum og skilyrðum fullnægðum.

Það hefur enginn ætlast til þess að stjórnvöld tækju forustuna af frumkvöðlunum. Stjórnvöld koma inn í og hjálpa til ef það er gerlegt. Alþingi hefur samþykkt lög og eftir þeim lögum verður ríkisstjórnin að fara sem framkvæmdarvald. Og það hefur ríkisstjórnin verið reiðubúin að gera. Ég undirstrika aftur það sem kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. að þrátt fyrir það að hluthafar séu um 1000 eins og hann gat um, þá er hlutafé og hlutafjárframlög og innborgað hlutafé ekki nægjanlegt til þess að fullnægja þeim skilyrðum sem gera ríkisstjórninni kleift að koma inn í fyrirtækið á sama hátt og þar segir.

Ég vil upplýsa það hér að fyrrverandi stjórn fyrirtækisins kom á minn fund og óskaði eftir ríkisábyrgð, ekki bara fyrir þeim peningum sem þeir áttu að leggja fram sem hlutafé, heldur rekstrarfé líka. Ríkisábyrgð fyrir erlendum lánum upp á 800 millj. kr. Ég hafnaði því. Síðan fór stjórnin að athuga með notaðar verksmiðjur og kom til baka og óskaði eftir 200 millj. kr. ríkisábyrgð og þá var ekki talað um að á ríkisábyrgð þyrfti að halda fyrir lánum til þeirra eigin hlutafjárframlaga. Þetta var gangur málsins þá.

Ég ætla ekki að mæla því á móti að þetta geti verið nauðsynlegt fyrirtæki, enda hafa undirtektir mínar aldrei verið neikvæðar og sést það best á því að þann tíma sem ég var fjmrh. lagði ég til að ríkisábyrgð yrði veitt þessu fyrirtæki - að sjálfsögðu með ákveðnum tryggingum og skilyrðum sem Alþingi samþykkti.