18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2606 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

266. mál, stálbræðsla

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þessari ríkisstjórn hafa verið mislagðar hendur með margt. Þetta er eitt dæmi af slíku og varðar atvinnumál. Það hefur komið fram varðandi þetta mál af hálfu talsmanna Stálfélagsins, og ekki verið vefengt af hæstv. ráðh., að þeir hafi á vissum tímum hvatt fyrirtækið til að hefja framkvæmdir út á úrlausnir sem ráðherrar töldu sig hafa í hendi. Þá á ég fyrst og fremst við fyrrv. hæstv. iðnrh. og samræður hans við forráðamenn Stálfélagsins í árslok 1983. Það liggur líka fyrir frá hæstv. núv. iðnrh. að hann sem fjmrh. var jákvæður um skeið gagnvart fyrirtækinu. Og hæstv. forsrh. landsins orðar það svo samkvæmt bréfi frá Stálfélaginu, þegar það boðaði þm. til að mæta á aðalfund sem haldinn var seint í síðasta mánuði að hann teldi að ríkisstjórnin væri siðferðilega skuldbundin í þessu máli. Því miður er hæstv. forsrh. ekki hér viðstaddur til að staðfesta þessi ummæli. En er að furða þó menn spyrji: Hvað veldur vinnubrögðum af þessu tagi af hálfu ríkisstjórnarinnar? Það var upplýst af hálfu talsmanna Stálfélagsins að sá mikli dráttur, sem varð á eðlilegum svörum frá stjórnvöldum í þessu máli, varð til þess að fjársterkir aðilar, sem höfðu lofað hlutafjárframlagi, drógu það loforð til baka, ráðstöfuðu fjármagni sínu í annað. Og þannig er um fleira. Nei, þetta er mál þar sem hæstv. ríkisstj. hefur staðið sannarlega illa í ístaðinu, ráðherrar verið ósamstiga og það er eðlilegt að þeir 1000 hluthafar, sem hafa gerst aðilar að Stálfélaginu, krefji ríkisstjórnina sagna og skila á sínum hlut í þessu máli.