18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2611 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um þingsköp vegna þess að samkvæmt þeim yfirlýsingum sem fyrir liggja nú frá hæstv. forseta er bersýnilegt að hann túlkar mjög rúmt ákvæði þingskapanna um þennan sérstaka hálftíma utandagskrárumræðna sem settur var inn í þingsköp á síðasta þingi.

Það sem fyrir forseta vakir er bersýnilega að fá fram umræður um málin þegar þm. óska eftir því vafningalaust, eins og hann orðaði það aftur og aftur, og ég hygg að það beri að túlka yfirlýsingu forseta þannig að þm. geti þá framvegis vafningalaust komið á framfæri málum þegar þeir telja það nauðsynlegt, jafnvel þó að þau mál séu þegar á dagskrá þingsins.

Ástæðan til að ég segi þetta er sú að það hefur verið tilhneiging til þess hjá forseta að draga úr utandagskrárumræðum þegar mál voru komin á dagskrá þingsins með öðrum hætti. Núna liggur hins vegar fyrir að forseti telur að það þurfi ekki að hindra utandagskrárumræður í þessum hálftíma og fagna ég því sérstaklega. Það þýðir rýmra málfrelsi þm. en verið hefur og afleiðingin af því hlýtur að verða sú að menn nýti sér þann rétt þegar upp koma mál eins og þessi landbúnaðarmál sem vissulega er brýnt að taka fyrir núna.

Ég vil jafnframt segja það í tilefni af orðum hæstv. landbrh, að ég tel að mjög nauðsynlegt sé að sú skýrsla sem þm. Alþb. hafa beðið um komi mjög fljótt því að það er brýnt að þessi mál verði rædd hér og það ítarlega. Hér er um það stór mál að ræða sem hafa vakið mikla athygli og snerta lífsafkomu mörg þúsund heimila í landinu.