18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2614 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Eins og kom fram áðan eru aðeins tvær mínútur til stefnu svo að ekki er hægt að ræða þetta umfangsmikla mál, en vissulega væri ástæða til að gera það ítarlega á Alþingi. Undir það vil ég taka.

Það voru margar spurningar sem hv. 3. þm. Suðurl. bar fram. Þær voru ræddar á 600 manna fundi í nótt, eins og hann sagði, og þar gefin svör við mörgum þeirra.

Kjarni málsins er sá að mjólkurframleiðslan hefur farið vaxandi síðustu árin og ef við byggjum nú við lögin sem í gildi voru áður, framleiðsluráðslögin, væri verið að framleiða mjólk án þess að lægi ljóst fyrir hversu stór hluti af henni fengist greiddur. Það yrði fyrst nokkrum mánuðum eftir að verðlagsárinu lyki, 1. september n.k., sem það lægi fyrir. Þá hefði komið gífurlegur bakreikningur á bændur vegna þess að þá væri útilokað að ná fullu verði á grundvelli hinna eldri laga.

Það var strax stefna landbrn. að vinna að þessu máli í nánu samráði við Stéttarsamband bænda og þannig hefur verið staðið að verki. Komið hefur í ljós að þar eru svo mörg sjónarmið, sem sett hafa verið fram og lögð áhersla á að tekið væri tillit til, að verkið hefur tekið lengri tíma en menn ætluðu. En þrátt fyrir að reynt hafi verið að gera slíkt er enn þá bent á agnúa sem æskilegt hefði verið að lagfæra, en tími vannst ekki til að skoða þá nánar.

Það liggur ekki ljóst fyrir enn þá hvert verður endanlegt búmark einstakra bænda vegna þess að það var ákveðið að skilja eftir 5% af fullvirðisrétti hvers svæðis sem heimamenn ráðstöfuðu til þeirra sem þeir teldu mesta þörfina hafa fyrir það. Fer það eftir þeim tillögum sem þaðan koma hversu mikil skerðing einstakra manna verður frá framleiðslu síðasta árs eða hversu miklu verður bætt við framleiðslu síðasta árs hjá mönnum eftir því sem ákvæði reglugerðarinnar kveða. á um og menn telja að sé nauðsynlegast. Þegar endanleg úthlutun liggur fyrir verður að sjálfsögðu athugað á hvern hátt verður hægt að bregðast við málinu þannig að tekjuskerðing bænda verði sem allra minnst. Ég hef lagt áherslu á að hægara er að gera það eftir því sem framleiðslan er minni, eftir því sem bændur leggja. í minni kostnað við að framleiða mjólk.

Það er í lögunum um framleiðslu búvöru ákvæði um Framleiðnisjóð, að hann skuli stuðla að hagræðingu í búrekstri og búháttabreytingu. Á þeim grundvelli hafa þegar verið teknar ákvarðanir sem eiga að hjálpa til að leysa þessi mál. Þegar tillögur heimamanna hafa komið verður athugað nánar hvernig þar verður hægt að bregðast betur við.

Ég vil taka undir það með hv. 3. þm. Suðurl. að vissulega er æskilegt að lækka verðið, en það má ekki verða á kostnað bænda. Þeim veitir ekki af því að fá sinn hlut.

Það er rangt að verið sé að þurrka út búmark. Sú reglugerð sem nú hefur verið gefin út á eingöngu að gilda fyrir þetta verðlagsár. Hún verður auðvitað til leiðbeiningar um þær reglur sem verða gerðar fyrir næsta verðlagsár og ég hef lagt áherslu á að liggi fyrir sem allra fyrst.