18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2616 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt sem fram hefur komið. Þessi mál verða ekki rædd svo að nokkurt lag sé á á þeim tveim mínútum sem einstakir þm. hafa til umráða.

Hér er mikill vandi á ferðum eins og fram kom í máli hæstv. landbrh. Mjólkurframleiðslan hefur farið vaxandi og það svo mjög að sumir telja að hún stefni í 120 millj. lítra á þessu ári ef ekki verður spyrnt við fótum. Þetta veldur nú stórkostlega miklum vanda. Frá miðju ári 1980 til miðs árs 1983 var þessi vandi ekki ýkja mikill. Þá hafði verið tekið á málunum og þá var það svo að framleiðslan var að meðaltali í kringum 105 millj. lítra eða u.þ.b. 5% umfram innanlandsneyslu. Það hefði verið miklu heppilegra að geta komið því við að setja á héraðabúmark undir slíkum kringumstæðum og þurfa ekki í sömu andránni að draga svo saman eins og nú er nauðsynlegt.

Ég mun hér ekki ræða þessi mál mikið efnislega, enda er það ekki hægt. Ég vil þó þakka hæstv. ráðh. fyrir það að hann gaf hér yfirlýsingu þess efnis að þær reglur sem settar hafa verið með reglugerð um skiptingu á einstaklingskvóta muni ekki gilda nema út þetta verðlagsár, enda finnst mér þær reglur vera með þeim hætti að þær reyri allt of fast rétt einstakra bænda innan svæða og þar að auki séu ýmsir vankantar á þannig að þar fari miðstýring stórlega vaxandi gagnstætt því sem á að vera að mínum dómi við setningu héraðabúmarks.

Ég vil þó einnig segja það út af orðum hv. síðasta ræðumanns Helga Seljans að sjálfstæðismenn bera vissulega fulla ábyrgð á þeirri lagasetningu sem var

afgreidd á síðasta Alþingi og ég eins og aðrir þó að ég væri hér ekki staddur þá. En sú reglugerð sem sett er á grundvelli laganna er allt annað en lögin sjálf. Það er alveg augljóst að við berum ábyrgð á þeirri stefnu að það þurfi að draga saman mjólkurframleiðsluna þannig að hún nálgist að vera litlu meira en innanlandsneyslan og þannig er óhjákvæmilegt að halda á málum, en spurningin er aðeins um aðferðir, spurningin er um reglur, spurningin er um að ranglæti verði ekki viðhaft. Á þeim nótum hljótum við að verða að halda á málum.