29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

48. mál, fræðsla varðandi kynlíf og barneignir

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Í 1. gr. laga nr. 25 frá 1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir er kveðið á um að landlæknir hafi yfirumsjón með framkvæmd og uppbyggingu ráðgjafar og fræðslu um kynlíf og barneignir. Í 7. gr. sömu laga segir að fræðsluyfirvöld skuli í samráði við skólayfirlækni veita fræðslu um kynlíf og siðfræði kynlífsins á skyldunámsstigi í skólum landsins. Einnig skal veita þessa fræðslu á öðrum námsstigum. Lögum skv. hafa því bæði landlæknir og fræðsluyfirvöld skyldur gagnvart tilhögun og framkvæmd kynfræðslu hér á landi. Sú staðreynd gefur vissulega tilefni til samstarfs þessara aðila.

Í nýútkominni skýrslu landlæknisembættisins, Fóstureyðingar 1976-1983 eftir Guðrúnu Sigríði Vilhjálmsdóttur, er m.a. gerð grein fyrir stöðu kynfræðslu hér á landi í ljósi ofangreindra laga. Þar kemur fram að á undanförnum árum hafi kynfræðsla eflst á grunnskólastigi, bæði hvað snertir námsefni og þann tíma sem ætlaður er til slíkrar fræðslu. Á framhaldsskólastigi sé hins vegar ekki um skipulagða kynfræðslu að ræða og því komið undir stjórnendum og kennurum viðkomandi skóla hvort kynfræðsla sé felld inn í námið eða ekki.

Um fræðslustarf landlæknisembættisins segir að á þess vegum hafi verið ráðist í að þýða og staðfæra þrjú sænsk fræðslurit um getnaðarvarnir og voru þau fyrst prentuð árið 1977 og síðan endurprentuð árlega. Árið 1979 komu svo út tvö rit um kynsjúkdóma. Öllum þessum ritum hefur verið dreift í stórum upplögum á heilsugæslustöðvar, heilsuverndarstöðvar, fæðingarstofnanir og ýmsar aðrar heilbrigðisstofnanir, svo og í skóla. Menntmrn. var þegar í upphafi boðið að notfæra sér þessi rit og frá árinu 1980 hefur Námsgagnastofnun ríkisins séð um að dreifa þeim í skóla.

Í ár hafa þessir bæklingar verið endurskoðaðir og eru nú að verða tilbúnir í annarri útgáfu. Á næstunni verður einnig dreift nýju riti eða nýjum bæklingi um varnir gegn AIDS-sjúkdómi í samráði við menntmrn. Læknanemar hafa farið á vegum landlæknis í framhaldsskóla á Reykjavíkursvæðinu í fjóra vetur og veitt fræðslu um kynsjúkdóma og atriði tengd getnaðarvörnum. Þá fóru læknanemar einnig í framhaldsskóla utan Reykjavíkur vorið 1983. Sama ár fóru hjúkrunarnemar við Háskóla Íslands í alla grunnskóla í Reykjavík og fluttu fræðsluerindi um getnaðarvarnir fyrir nemendur 9. bekkjar. Þá réði landlæknisembættið starfsmann í fimm mánuði 1982-1983 til þess að annast gerð kennsluefnis og skipulagningu á heilbrigðisfræðslu í skólum.

Seinni hluta árs 1983 fóru fram viðræður milli þriggja námsstjóra í menntmrn. og landlæknis um heilbrigðisfræðslu, þar á meðal með tilliti til kynfræðslu og var tilgangurinn sá að koma á auknu samstarfi þessara aðila og reyna að finna því æskilegan farveg.

Í þessum viðræðum komu fram skiptar skoðanir um gildi kynfræðslu í skólum frá utanaðkomandi aðilum, t.d. nemahópum. Námsstjóri í líffræði taldi slíka kynfræðslu ekki heppilega á grunnskólastigi en geta hins vegar nýst á framhaldsskólastigi. Á grunnskólastigi væri þörfin fyrir aukið námsefni í kynfræðslu og námskeið fyrir kennara einna brýnust, en þeir væru best í stakk búnir til að miðla slíkri fræðslu til nemenda í tengslum við aðrar námsgreinar. Landlæknir taldi að lækkun á tíðni kynsjúkdóma hjá ungu fólki í kjölfar fræðsluferðar læknanema í skólana gæfi vísbendingu um árangur slíkrar fræðslu.

Til að kanna frekar grundvöll þess að nýta nemahópa til að fara með heilbrigðisfræðslu í skólana voru haldnir fundir með fulltrúum nema og kennara í Hjúkrunarskóla Íslands á námsbraut í hjúkrun við Háskóla Íslands og á námsbraut í sjúkraþjálfun. Læknanemar voru jafnframt boðaðir til slíkra funda. Fram kom vilji til samstarfs en jafnframt ýmsir annmarkar við framkvæmd slíkrar fræðslu. Nemendur eru t.d. fúsari til samstarfs ef heilbrigðisfræðslan væri almennt liður í námi þeirra. Í sumum skólum, t.d. Hjúkrunarskólanum, var þessi liður tekinn upp skv. tillögum landlæknis fyrir nokkrum árum. Í flestum skólum er þessu efni ekki enn sinnt sem skyldi.

Allt frá því er lög nr. 25 frá 1975 tóku gildi hefur landlæknir ítrekað farið fram á fjárveitingar til átaks á sviði kynfræðslu, en þær fengið litlar undirtektir hjá Alþingi að sögn landlæknis sjálfs.

Spurningu 2 um hvort von sé á einhverjum aðgerðum heilbrigðisyfirvalda til framkvæmdar á I. kafla laganna má svara svo: M.a. í framhaldi af þessum framangreindum fundum landlæknisembættisins og menntmrn. verður haldið viku námskeið í heilbrigðisfræðslu, þar á meðal kynfræðslu, fyrir kennara nú í nóvember n.k. Námsgagnastofnun ríkisins stendur fyrir þessu námskeiði. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Hér eru á blaðinu fjórar fsp. með einni fyrirsögn sem er Fyrirspurn. En ég á eftir að svara spurningum 3 og 4. svörin eru örstutt. (Forseti: Ég vil bara taka fram að við - eins og öllum er ljóst og ég veit að hæstv. ráðh. er ljóst - leitumst við að fylgja þingsköpunum, en hæstv. ráðh. verður leyft að ljúka sínu máli. Ef gengur úr hófi fram hvað það verður lengi verður það dregið frá á sínum tíma.) Ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta að þegar bornar eru fram undir einni fyrirsögn fjórar fyrirspurnir verði þeim skipt á fjögur þskj. þannig að eðlilegur tími gefist til að svara þeim.

Ef ég má ljúka svarinu við fsp. nr. 2; það svar er einungis 8 línur og ég átti eftir 5. Samvinna er komin á milli heilbrrn. og menntmrn. um samnorrænt verkefni um heilbrigðisfræðslu. Hér er um þróunarverkefni að ræða sem rekið er í tveimur skólum í landinu. Ef vel tekst til má ætla að verkefni þetta verði rekið við fleiri skóla.

Spurning nr. 3: „Eru áform um að láta sjúkrasamlög greiða hluta af kostnaði vegna getnaðarvarna?" Svarið við þessu er að ákvörðun liggur ekki fyrir um slíkt.

Svar við spurningu nr. 4 um ráðstöfun þess fjár sem ætlað hefur verið á fjárlögum til framkvæmdar þessa kafla laganna er þetta: Greiðslur af fjárlagalið vegna laga nr. 25/1975 eru sem hér segir: 1984 1) vegna skýrslugerðar 36 435, 2) vegna ráðstefnu 4 500, 3) nefndarlaun 17 400, samtals 58 335, og 1985 1) vegna skýrslugerðar og útgáfustarfsemi 195 357, 2) vegna ráðstefnu 9 633, samtals 204 990. Á þessu ári eru nefndarlaun ógreidd, svo og nokkur kostnaður vegna útgáfustarfsemi.

Herra forseti. Má ég bæta við tillögugerð mína áðan? Ef ljóst virðist vera að svör við fsp. hljóti að verða lengri en unnt er að koma við á umræðutímanum skv. þingsköpum er spurning mín: Væri hægt að koma því svo fyrir að svör við slíkum fsp. yrðu gefin skriflega? Það hlýtur að þjóna sama tilgangi um upplýsingar.