18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2617 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Í júní s.l. voru sett lög um stjórnun búvöruframleiðslunnar í landinu fyrir atbeina ríkisstjórnarliðsins á Alþingi. Þau lög voru sett gegn viðvörun stjórnarandstæðinga, þau voru sett gegn mótmælum bænda sem áttuðu sig á því að framkvæmd þessarar löggjafar gæti orðið nokkuð brotagjörn og hættuleg fyrir bændastéttina í landinu.

Í lok ágústmánaðar samdi hæstv. landbrh. við Stéttarsamband bænda um 107 millj. lítra mjólkurframleiðslu, en það er komin þorrabyrjun þegar hann kemur út reglugerð um hvernig skuli jafnað á búmarkssvæði og á einstaka framleiðendur. Það eru búnir nær fimm mánuðir af framleiðsluárinu þegar framkvæmdavaldið setur reglugerð um þessi efni. Þessi vinnubrögð eru auðvitað alveg dæmalaus og þau eru þess eðlis að það hlýtur að vera uppi almenn krafa um að fallið verði frá þeim ákvörðunum sem þarna voru teknar vegna þess að það er ekki hægt að útfæra þær með neinum skynsamlegum hætti gagnvart þeim aðilum sem í hlut eiga. Og spurningin er um það gagnvart stjórnarliðinu: Ætla menn að standa við þetta? Ætla menn að standa við þessi ólög og þær ákvarðanir sem teknar eru í krafti þeirra? Um það snýst málið. Hvernig hefði það mælst fyrir í sambandi við stjórn fiskveiða ef í lok vetrarvertíðar hefði verið sett fyrst reglugerðin um skiptingu kvóta á skip? Hvernig hefði mönnum þótt það?

En hitt er svo sannarlega með fádæmum að Sjálfstfl. skuli nú vera, á miðju verðlagsári, að reyna með skipulegum hætti að þvo af sér ábyrgðina á þessari löggjöf, eins og Morgunblaðið hefur reynt, eins og fyrrv. hæstv. landbrh. hefur einnig reynt hér í ræðustól, e.t.v. með réttu, ég skal ekki segja hvernig að þessum málum hefur verið staðið innan ríkisstj. En hv. þm. Egill Jónsson og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, sem voru í hópi þeirra sem undirbjuggu lögin sem sett voru hér í júnímánuði, undirbjuggu þau með tilkvöddum aðilum frá Framsfl., bera auðvitað alla ábyrgð á þessari lagasetningu og afleiðingum hennar. Ég spyr hæstv. landbrh.: Hvernig var staðið að setningu reglugerðarinnar? Hverjir komu þar við sögu? Var hún ekki sýnd neinum sjálfstæðismönnum, neinum þm. Sjálfstfl. eða ábyrgum aðilum þar í flokki?

Hv. 6. þm. Suðurl. Eggert Haukdal hefur samkvæmt útvarpsfréttum talið brýna nauðsyn að hækka verulega niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum, krafa sem Alþb. hefur borið fram þing eftir þing. Það liggur fyrir að fyrir ári hafði hlutfall niðurgreiðslna á dilkakjöti lækkað um 31% frá því sem það var árið 1982, á mjólk 43%, á smjöri yfir 50%. Halda menn að þetta hafi ekki áhrif á innanlandsframleiðsluna, þessi stjórnun? En það ætti að vera stutt á milli hv. 6. þm. Suðurl. og 1. þm. Suðurl. sem heldur um ríkiskassann ef það væri einhver vilji á þessum bæ til að taka á þessum málum en ekki bara að vera með loddaraleik til að reyna að bjarga andlitinu vegna þeirra ókjara sem bændastéttinni nú eru búin og hittir auðvitað miklu fleira en hana, landslýð allan, því það er byggðin í landinu sem er í húfi.