18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2618 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi umræða verður athyglisverðari með hverri ræðunni sem flutt er. Ekki eru það bara sjálfstæðismenn sem koma hér upp og þvo hendur sínar eins og Pílatus forðum af allri ábyrgð á gjörðum hæstv. landbrh. heldur kemur rakleitt á hæla þeirra formaður þingflokks framsóknarmanna og gjörir slíkt hið sama. Og fer þá hæstv. landbrh. að verða harla einmana.

Ég tek auðvitað með fullum þunga undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á vinnubrögð og framkvæmdir í þessum efnum. Hér hefur hraklega tekist til og rætist þá sú spá mín að við værum vanbúnir mjög til að taka á þessum málum í framhaldi af ótímabærri lagasetningu á Alþingi s.l. vor. Var ég síst of hrakspár í þeim efnum. Komið er nú inn á mitt framleiðslu- og verðlagsár, eins og fram hefur komið, og er það auðvitað forkostuleg framkoma við bændur að ætla sér þá að skikka til um framleiðslurétt þeirra. Réttilega var hér borið saman við það ef sjómenn fengju tilkynningu um leyfilegt aflamark sitt þegar komið væri undir lok vetrarvertíðar. En þó er sá munurinn á að bátana er hægt að binda og drepa á vélunum, en hæstv. landbrh. mun ekki finna á einni einustu belju á Íslandi rofa til að slökkva á henni eins og hægt er að gera við vélarnar í bátunum og þaðan af síður eru á þeim kranar sem hægt er að skrúfa fyrir - eða ætlar e.t.v. hæstv. landbrh. að ríða um sveitir í sumar og hnýta fyrir annan hvern spena á beljum landsmanna?

Þetta eru stórfurðuleg vinnubrögð, en furðulegust af öllu er þó, eins og hér hefur réttilega verið bent á, framkoma þeirra sjálfstæðismanna sem nú sverja af sér alla ábyrgð á framkvæmdunum. Hvar voru þessir sömu hv. sjálfstæðismenn s.l. vor og hvað hafa þeir verið að gera allt þetta haust, fram á vetur, fram yfir jól og fram á þorra? Hafa þeir ekki fylgst með störfum ráðherra í ríkisstj. sem þeir styðja? Það er einum of billegt að ætla sér að sleppa svona í þessum efnum.

Næg eru nú vandræði íslenskra bænda fyrir þó ekki bætist þessi vinnubrögð hæstv. landbrh. við. Argvítug stefna þessarar ríkisstj., m.a. í vaxtamálum, verðlag,sog kaupgjaldsmálum, bitnar sennilega á fáum þyngra í landinu en íslenskum bændum. Síðan bætist þetta við. Það er alveg augljóst að hæstv. ráðh. er vægast sagt illa ríðandi í þessari smölun, eins og sagt er um smalamenn sem lítið gengur undan. Mér er nær að halda að hann sé einnig hundlaus, jafnvel gangandi og þá sennilega berfættur í skónum.