18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er ekki aðalatriðið að reyna að þvo hendur sínar heldur horfast í augu við þann vanda sem orðinn er.

Það er eðlilegt að hinn fjölmenni bændafundur, sem haldinn var á Suðurlandi s.l. nótt, hafi kveikt í mönnum. Það segir til sín hér á þingi í dag. Það er vitað mál að þetta er rætt meira og minna um allt land meðal bænda. Hitt verður að játa að það var æðimikil ýtni á bak við setningu laganna á s.l. vori og gerðu ýmsir athugasemd við það, m.a. samtök bænda.

Það vita allir að takmarka þurfti mjólkurframleiðsluna. En að því er Vesturland varðar má segja svipað og um Suðurland. Yfir Vesturlandskjördæmi höfðu gengið þrjú slæm sumur, en s.l. sumar var mjög gott og það er eðlilegt að það segi til sín í aukinni framleiðslu.

Nú hafa verið settar ákveðnar reglur og eins og jafnan er ná ekki neinar reglur, hversu vel sem þær eru samdar, yfir öll tilvik. Það er vitað mál að nokkrir menn verða sérstaklega illa úti. Það er ekki nokkur sanngirni að það verði látið bitna á þeim. Ungir bændur sem hafa verið að byggja upp á síðustu árum eiga vitanlega sinn rétt og þeir hafa farið eftir þeim reglum sem um hefur verið að ræða.

Ég ætla ekki að ræða þessi mál nú. Það eru haldnir fundir víðar en á Suðurlandi. Það er a.m.k. einn fundur á Vesturlandi í kvöld og tveir á morgun. En ég ætla að bíða eftir þeirri skýrslu sem hæstv. landbrh. mun gefa vonandi mjög fljótlega. Þá er full ástæða til að ræða þetta mál mjög ítarlega.