18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2620 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég er dálítið undrandi á því hvernig sumir hv. þm. hafa hér talað, t.d. eins og hv. þm. Helgi Seljan og raunar fleiri, að það hafi verið ótímabært og það hafi verið gert í miklu flaustri, að mér skildist, að setja þessa löggjöf. Hvernig var staðan? Staðan var sú að það var auðséð að það yrði framleitt á yfirstandandi framleiðsluári um 120 millj. lítra. Það var auðséð að stóran hluta af því mundu íslenskir bændur ekki fá neitt verð fyrir. Í þeirri stöðu þorði ég fyrir mitt leyti ekki annað en standa að því að setja þessa löggjöf af því að þetta blasti við þótt ég viðurkenni hitt, að það eru ýmis ákvæði í þessum lögum sem ég hefði viljað hafa á allt annan veg.

En þegar tveir flokkar eru í samstjórn er ekki hægt að koma fram málum öðruvísi en með málamiðlun. Ég skal líka viðurkenna að það var hart tekist á um sum atriði í þessum lögum. Hitt er annað mál að það er vandi að skipta því sem er til skiptanna. Ég hugsa að flestir séu óánægðir með sinn hlut.

Það er ekki tóm til að fara ofan í þessi mál nú. En einhvern tíma síðar gefst tækifæri til að minna hv. þm. Alþb. á afstöðu þeirra til landbúnaðarins í ágústmánuði 1982. Það væri hægt að tíunda ástæður þess að erfiðleikarnir eru svo miklir. Það er alveg rétt, sem síðasti hv. ræðumaður sagði, að sá kvóti, sem menn hafa fengið, mun vera um 142-143 millj. lítra. Hvernig stendur á þessum kvóta? Því hefur hann vaxið svona á undanförnum árum? Það er mál sem þarf að ræða um og leiða fram í dagsljósið.