29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

48. mál, fræðsla varðandi kynlíf og barneignir

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. ráðh. hefur vikið að þýðingarmiklu atriði í sambandi við framkvæmd þingskapa. Skv. reglunum berast fyrirspurnir fyrst í hendur forseta Sþ. og hann metur hvort þær eru leyfðar eða ekki. Þegar svo virðist vera að fyrirspurnirnar séu of margþættar til að hægt sé að svara þeim á tilskildum tíma er ýmist bent á að einfalda þær eða, eins og hæstv. ráðh. benti á, að hafa fyrirspurnirnar skriflegar.

Hv. þm. sem gera fsp. verða að gera sér grein fyrir að þeim verður ekki svarað nema á tilskildum tíma og ef þær eru þess eðlis að ekki er hægt að svara þeim á tilskildum tíma verður við það að sitja. Þess vegna er eðlilegt að hver þm. fyrir sig leitist við að hafa fyrirspurnirnar í réttu formi og forseti mun eftir megni stuðla að því.