18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2623 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er ljóst að hluti af þeim vanda, sem hér er ræddur, er sá að framleiðsla á mjólkurafurðum hefur geyst áfram það sem af er yfirstandandi verðlagsári, 14% aukning til loka janúar. En mér er spurn: Hvað var gert af stjórnvalda hálfu og forustu bændasamtakanna til að gera bændum ljóst hvert stefndi í þessum efnum? Höfðu menn ekki uppgjör frá mánuði til mánaðar um framleiðsluaukninguna? Ég minnist þess ekki að það hafi komið neitt ákall til bænda að hægja nú á þó að þetta blasti við skv. skýrslum sem að vísu var ekki dreift á Alþingi, því að við höfum engar upplýsingar fengið hér um þessi efni.

Það er alveg ljóst að það er viss hluti bændastéttarinnar sem harðast verður úti í þessum efnum. Það eru þeir sem löghlýðnastir hafa verið. Það eru þeir sem hafa viljað virða hið upphaflega búmark, sem þeim var úthlutað 1980, en ekki sótt eftir undanþágum um að því væri lyft. (ÓÞÞ: Hverjir hafa brotið lög af hálfu bænda?) Það eru þeir sem verða fyrir skerðingu og þeir sem ekki sóttu formlega um að fá búmarkinu lyft.

Í svari, sem dreift var hér á Alþingi 21. maí s.l., kemur í ljós að aukningin við búmark frá 1980 til 1985 nemur hvorki meira né minna en 10%, 9,85% nákvæmlega talið. Það kemur ekki jafnt niður á landshlutana., það er flokkað eftir skýrslum. Það er upp í yfir 14% í sumum sýslum landsins og víða yfir 10%.

Hér hefur verið þannig á málum haldið af stjórnvöldum að það er með fádæmum, fyrir utan það, herra forseti, (EgJ: Þú varst ráðherra þegar þetta var.) að viðleitnin til einhverrar heildstæðrar skipulagningar í landbúnaðinum af hálfu Sjálfstfl. og Framsfl. hefur engin verið, ekki bara á liðnum fáum árum heldur um margra áratuga skeið. Þeir hafa ekki viljað líta á það að skipuleggja eftir aðstæðum hvað snertir beitarþol landsins varðandi sauðfjárafurðir, hvað snertir aðstæður til markaðar varðandi mjólkurframleiðslu. Það var bannorð að taka fjárfestinguna inn í, landgæðin inn í, markaðinn inn í.

Ég vænti þess svo að hæstv. landbrh. svari því sem hefur verið til hans beint áður en umræðunni lýkur, þar á meðal þessu: Sýndi hann einhverjum þm. Sjálfstfl. þessa reglugerð áður en hún var sett? Sýndi hann hana kannske í ríkisstj.? Það væri fróðlegt að hæstv. landbrh. greindi okkur frá því.

Svo vona ég bara að bændur í landinu etji ekki kappi hver við annan í þessum efnum, taki ekki upp tón eins og ég heyrði frá einum bændaforingja af Suðurlandi, að það eigi að leggja niður mjólkurframleiðslu í tilteknum landshlutum fyrir aðra. Bændur hafa ekki efni á slíkum málflutningi nú.