18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2624 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki verið við þessa umræðu nema að hluta. Mér skilst að vinnubrögð við lagasetninguna og reglugerðarsmíðina hafi verið hér mjög gagnrýnd og get ég að sumu leyti tekið undir það. Reglugerðin kemur t.d. núna þegar verðlagstímabilið er hálfnað og skv. henni er samdráttur miklu meiri en menn höfðu búist við og um var talað meðan á smíði hennar stóð. Það er því ósköp eðlilegt að upp rísi alda þegar slíkt skeður.

Höfuðmarkmið laganna um staðgreiðslu á búvörum og beina samninga við ríkisvaldið hefur hins vegar náðst og tiltölulega góður samningur náðist í haust enda þótt æskilegast hefði verið í þessari stöðu, sem við erum í, að hann hefði verið nokkru hærri. En höfuðvandinn, sem við er að glíma í dag, er sá að stjórnun undangenginna ára hefur ekki tekist. Það verður að viðurkenna. En það sem misfarist hefur í stjórnun undangenginna ára er ekki hægt að taka nú í einu höggi eins og gerist ef reglugerðin gengur fram óbreytt og ekkert verður að gert. Þess vegna tel ég að draga verði úr þessu höggi sem reglugerðin boðar og m. a. verði að koma til auknar niðurgreiðslur þannig að ríkisvald og bændur taki höndum saman til helminga - ég vil láta það koma eindregið fram - um verulega lækkun vörunnar til að örva sölu. Niðurgreiðslur eru allt of litlar og hafa minnkað undangengin ár.

Mér skilst að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi rætt áðan um nauðsyn þessa, að halda uppi háum niðurgreiðslum. En hvað var í hans ráðherradómi? Einmitt í tíð fyrrv. ríkisstj. lækkuðu niðurgreiðslur mjög. Þær hafa að vísu gert það líka allt of mikið í tíð núv. stjórnar. En þær stórlækkuðu í tíð hans. Það er ákaflega gott fyrir menn að prédika það sama þegar þeir eru ráðherrar, og utan stjórnar. Það hefur nú hent hv. þm. eins og fleiri að láta það ekki alveg falla saman.

Alþýðusamband Íslands hafði á tímabili uppi gagnrýni á niðurgreiðslur. Ég vona, m.a. með tilliti til ræðu hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar áðan, að nú gæti orðið breyting í þeim efnum og þar kæmi jákvæðari afstaða. Ég held að það væri æskilegt í stöðunni núna í kjarasamningum að stórauka niðurgreiðslur, sem um leið greiddu fyrir því vandamáli sem hér er talað um.

Ég skal þá ekki hafa þessi orð fleiri. En ég vona að með auknum niðurgreiðslum og öðrum endurbótum í þessu máli verði dregið úr því mikla höggi sem nú ríður yfir bændastéttina.