18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2626 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég tók það einmitt fram í minni fyrri ræðu að ég hefði verið fyrsti þm. sem hreyfði því hér á Alþingi að taka upp héraðakvótann. Það var nú allt frelsið.

Það vekur nokkra athygli við þessa umræðu að menn eru að tala um lagasetninguna frá s.l. ári, hún hafi verið svona og hún hafi verið hinsegin, hún hafi verið góð og hún hafi verið slæm. Enginn einasti maður hefur sagt frá því hvað honum hafi fundist að þessari lagasetningu nema hv. þm. Páll Pétursson. Það sem hv. þm. Páll Pétursson segir að hafi verið að lagasetningunni er að það hafi verið farið of hratt í að telja niður landbúnaðarframleiðsluna. Það er búið að semja, kaupa og greiða bændum í landinu allt það kindakjöt sem þeir komu með í verslun á s.l. ári. Það er búið að semja við þá um kaup á mjólk sem er að magni til sú sama og verið hefur sjö undanfarin ár. Hv. þm. Páll Pétursson hlýtur að hafa ætlað að segja að honum hafi ekki fundist vera nóg gert að því að auka framleiðsluna í landbúnaði.

Ég var á fundinum hjá Sunnlendingum í nótt og ég verð að segja það alveg eins og er, þrátt fyrir þann mikla fjölda sem þar var, að mér fannst það ekki vera sannfærandi fundur. Það sem mér þótti langsamlega athyglisverðast við þann fund var einmitt það sem bændur á Suðurlandi sögðu um nýju lögin og þau úrræði sem í þeim felast. Þeir hefðu áreiðanlega orðið hissa á máli þeirra alþm. sem hafa verið að gagnrýna nýju búvörulögin, ef þeir hefðu mátt á þá hlýða.

Að lokum vil ég svo aðeins segja það að umræðan, sem orðið hefur núna í landbúnaðinum um þessi mál, er öll af hinu góða. Það þarf enginn að halda að hægt væri að takast á við þennan vanda öðruvísi en að stór hluti af bændastéttinni fyndi fyrir honum með einum eða öðrum hætti. En bændastéttin á nægan styrk til að mæta þessu með þeim hætti að það verði hvergi nein slys af þessu ástandi.