18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2626 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Fyrst vil ég geta þess að hér hefur tvívegis talað hv. 2. þm. Austurl. og látið að því liggja að þau lög, sem sett voru í fyrra, séu vandamálið. Það er alger misskilningur. Það væri gaman að hlusta á þann hv. þm. útskýra það fyrir bændum hvernig staðan væri hefðu þau ekki verið sett. Það væri gaman að hlusta á hann flytja slíkt mál.

Ég hygg að þó að menn vilji vaða grunnt og busla séu takmörk fyrir því hvað þeir geta vaðið grunnt án þess að verða hlægilegir. Haldið þið að það hefði verið gott ástand hjá bændum að framleiða og framleiða á þessu ári og fá svo bakreikninginn á næsta ári fyrir mjólk sem þeir hefðu ekkert fengið borgað fyrir?

Ég man ekki betur en að Alþb. hafi beitt sér fyrir því í fyrrv. ríkisstjórn að draga úr útflutningsbótaréttinum. (EgJ: Og niðurgreiðslum líka.) (RA: Alrangt, hvort tveggja.) Menn eru fljótir að sverja af sér hlutina hér. En það var dálítið annað þá. Það var vitað að fjmrh. beitti sér gegn útflutningsbótaréttinum og vildi að það yrði dregið úr honum á sínum tíma. En þó blöskrar mér fyrst þegar hv. 5. þm. Austurl. leyfir sér héðan úr ræðustól að tala um að löghlýðnasti hópurinn hafi farið verst út úr þessum aðgerðum. Ég vil fá hann hér upp í stólinn til að gera grein fyrir hvaða bændur hafa brotið lög og ég mælist til þess að hann sé maður til að láta stefna þeim mönnum fyrir lögbrotin eða biðjist ella afsökunar á þessu orðbragði sínu. Það er hópur manna í einni stétt sem virðist hafa brotið lög í landinu. Það er sjálfsagt að hann komi hér upp og geri grein fyrir því að hann ætli að beita sér fyrir því að þeir menn verði þá dregnir fyrir dómstóla fyrir tiltækið.