18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2628 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að mæla fleiri orð í þessari umræðu því að ég veit að hálftíminn er sprunginn fyrir allnokkru. En að gefnu tilefni er ég kominn hér í þriðja sinn. Ég hef ekki tíma til að eiga orðastað við hv. þm. Eið Guðnason og uppfræða hann um afstöðu Alþb. til landbúnaðarmála á liðinni tíð, hann verður að lesa sér betur til þangað til við getum rætt þau mál nánar.

En það voru orð hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar hér í ræðustólnum sem fengu mig til að biðja um orðið og leiðrétta þær staðhæfingar sem hann hafði hér uppi og túlkun hans á mínu máli. Það er nokkuð þykk á hv. þm. höfuðskelin á stundum. Hann vill túlka lýsingarorðið „löghlýðinn“ þannig að ef einhver er löghlýðinn þá eru einhverjir aðrir sannanlega lögbrjótar. Ég eftirlæt íslenskumönnum að fjalla um þau efni. En til nánari skýringar fyrir hv. þm. vil ég segja: Þeir sem tóku mark á búmarkinu 1980, tóku það alvarlega, héldu sig við það og óskuðu ekki eftir að fá þakinu lyft, eins og reyndist tiltölulega auðvelt - sbr. það að búmark hefur aukist um 10% fram á vor 1985 - hafa farið mun verr út úr skerðingunni en hinir sem fengu búmarkinu breytt og fengu á sig þær viðmiðanir sem nú koma fram skv. reglugerð hæstv. ráðherra. Ég vona að hæstv. ráðherra komi hér í stólinn áður en umræðu lýkur.