18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2629 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það virðist hafa verið full ástæða til þess að ræða málið hér á hv. Alþingi þrátt fyrir þröskuldshátt Alþýðubandalagsmanna í upphafi. Ég vil þakka málefnalega umræðu um þennan vanda nema málflutning Alþýðubandalagsmanna þar ,sem sýndarmennskan ríður ekki við einteyming. Það er ekki verið að ræða af þeirra hálfu vanda bænda, þeir eru einfaldlega í örgustu fýlu vegna þess að málið er rætt hér og þeir hafa ekki getað blásið til herlúðra einhvers staðar og einhvers staðar fyrir þessa umræðu.

Vikið hefur verið að því hver væri afstaða mín til aukinna niðurgreiðslna í þessari stöðu. Það hefur hvergi mátt skilja svo mál mitt í þessum umræðum í dag að ég væri búinn að taka afstöðu til þess að eina leiðin til að leysa þennan vanda væri auknar niðurgreiðslur. Til þess að geta sagt slíkt þarf maður að hafa ljóst og borðleggjandi að fjármagn sé til slíks. En þetta atriði er auðvitað eitt af því sem verður að skoða í málinu í heild. En mín afstaða er ekki sú borðleggjandi að það sé eina lausnin.

Þegar reglur eru mótaðar til framleiðslustjórnar hljóta þær að eiga að efla traust bænda á slíkri stjórnun þegar vandi er á höndum. Þess vegna skiptir öllu máli að í þeim felist ekki augljóst ranglæti eins og ljóst er þótt leiðin í heild sé líklega sú eina sem unnt er að ná víðtæku samkomulagi um. En þessar reglur eiga fyrst og fremst að draga úr miðstýringunni á búháttum einstakra bænda og auka áhrif heimamanna á framleiðsluþróum og vinnsluþróun í hverju héraði.

Það er verulegt misræmi í mörgu er lýtur að landbúnaðarframleiðslu. Má þar t.d. nefna að bændur skuli fá lagfæringar á kvóta og leyfi til að byggja yfir ákveðna framleiðslu en síðan kemur annar aðili innan kerfisins sem segir: Nei, því miður, þú mátt ekki nota þessa fjárfestingu. Það er álíka og að leyfa byggingu vatnsaflsvirkjunar án þess að nokkurt sé vatnið til að knýja aflvélar og afla tekna fyrir fjármagnskostnaði og rekstri.

Um skeið hefur bændum verið talin trú um að þeir væru til vandræða á þjóðarheimilinu og að framleiðsla þeirra væri allt að því óþörf. Landbúnaður er eins og önnur veiðimennska, það árar misvel og afurðir eru mismiklar. Á þeirri sveiflu þarf að finna rétta punktinn til viðmiðunar.

Ljóst er að margs konar brask hefur átt sér stað í landbúnaðinum, í kerfinu, dreifingarkerfinu og öðru sem ekki er hægt að fjalla um hér. En að mörgu þarf að hyggja og ljóst er að það eru margar spurningar sem þarf að fá svör við. En sá vandi, sem blasir nú við, er augljós. Stjórnun og framkvæmd framleiðslu er farin úr böndum og það þarf að freista þess að finna viðunandi lausn. Skerðing er augljós og hún er vissulega sár og erfið en stakkinn, sem á að vinna í, þarf að sníða betur.