18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2633 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

243. mál, hagkvæmni útboða

Páll Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég er út af fyrir sig ekkert að hafa á móti því að athugun sé gerð á hagkvæmni útboða en mér finnst neikvæður tónn í þessari till. í garð útboðanna og þess vegna tek ég til máls því að ég er honum ekki sammála. Ég tel að reynsla af útboðum hafi verið yfirleitt góð og ég óttast ekki annað en að það komi í ljós ef athugun er á þessu máli gerð.

Ég held að það sé misskilningur hjá hv. flm., a.m.k. er það ekki reynsla úr mínu kjördæmi, að stórverktakar einoki verk. Smærri verktakar eru engan veginn útilokaðir frá því að taka að sér ákveðin verkefni og hafa tekið fullan þátt í því, a.m.k. í Norðurl. v. Það er skylda okkar, sem erum valdir til þess að fara með almannafé, að reyna að láta það nýtast sem best, fá sem lengstan veg fyrir hverja milljón, láta sem mest verða úr hverri milljón við verklegar framkvæmdir.

Ég hef undanfarið hvatt vélaeigendur og bílstjóra í Norðurl. v. til að bjóða í verk. Það þarf vissa þjálfun og visst áræði til að byrja en þegar menn hafa náð valdi á því verkefni leyfi ég mér að fullyrða að það er góð reynsla af útboðum í Norðurl. v. Verklegum framkvæmdum þar hefur miðað miklu betur en ella þar sem útboðsleið hefur verið farin. Verk hafa verið unnin af heimamönnum í flestum tilfellum og við höfum eignast stóran hóp þjálfaðra og hæfra verktaka sem líka gegna veigamiklu þjónustuhlutverki í sínum heimabyggðum.

Útboðin mega náttúrlega aldrei verða allsráðandi og geta heldur ekki orðið allsráðandi en ég tel að þau eigi að vera gildur þáttur í framkvæmdum. Ég hef ekkert á móti því að þessi athugun sé gerð. Ég hef hins vegar á móti þeim neikvæða tón í garð útboða sem mér finnst að skíni hér í gegn vegna þess að ég tel að athugun, ef gerð verður, komi til með að sanna réttmæti útboða, m.a.s. fyrir þm. Austurl., því að væntanlega vilja þeir sem lengsta góða vegi fyrir það fjármagn sem til ráðstöfunar er í kjördæminu og sem besta nýtingu á opinberu fé til mannvirkjagerðar í sínu kjördæmi.