19.02.1986
Efri deild: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2634 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

228. mál, Seðlabanki Íslands

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem ég flyt ásamt hv. þm. Valdimar Indriðasyni. Frv. þetta var flutt á síðasta þingi og er endurflutt nú óbreytt, en grg. sem þá fylgdi frv. er nú prentuð með þeirri grg. sem fylgir því að þessu sinni. Málið er þar af leiðandi kunnugt hv. þingdeildarmönnum og kannske ekki af þeim sökum ástæða til að hafa mjög langt mál um efni þess. Hins vegar skilst mér á hæstv. forseta að ekki liggi mjög mikið fyrir af málum í þessari hv. deild í dag og af þeim sökum væri þess vegna hægt að hafa hér nokkuð langt mál og jafnvel að hafa almenna umræðu um peninga- og efnahagsmál. En við sjáum hvað setur í því efni, hvort þingdeildarmenn, sem eru nú raunar fáir mættir, vilja taka þátt í slíkri umræðu eða ekki.

Þó að mál þetta virðist kannske lítið að sniðum er þetta eitt af allra stærstu málum þessarar þjóðar í dag að mínu mati. Það er enginn vafi á því í mínum huga að um mjög langt skeið hefur verið fylgt alrangri stefnu í peningamálum þessarar þjóðar. Það er auðvitað fólgið í því að sparifé landsmanna hefur nánast verið gert upptækt til opinberra stofnana, óbeint auðvitað til ríkissjóðs. Þetta hefur verið gert með þeim hætti að spariféð hefur í verulegum mæli verið fryst hjá Seðlabanka Íslands og síðan hafa peningarnir verið lánaðir út, oft með neikvæðum vöxtum sem hafa stundum numið tugum prósenta. Þannig hafa fjármunirnir gengið frá fólkinu til hins opinbera valds og ýmiss konar óarðbærs reksturs. Þetta er það sem ég hef leyft mér að kalla heimatilbúna kreppu.

Þegar að því ráði var loksins horfið að verðtryggja peninga og gera vexti jákvæða var ekki létt af þessari bindiskyldu. Það getur ekki með nokkru móti gengið upp að hafa vexti frjálsa en að loka jafnframt inni peningana. Þá er auðvitað peningaþurrð, lánsfjárskortur, lánsfjárkreppa og okurvextir því að peningarnir hverfa þá á svartan markað. Þegar fólk getur ekki fengið peninga í hinum eðlilegu lánastofnunum leitar það annað í nauð sinni og vextir verða óbærilegir. Ef eðlilegt framboð er á lánsfjármagni, eins og skylt er lögum samkvæmt og Seðlabankanum ber að sjá um og ríkisvaldinu, ríkisstj., verða vextir auðvitað hóflegir. Þeir leita jafnvægis. Framboð og eftirspurn leitar jafnvægis. En hér er fylgt tveim gagnstæðum stefnum, stefnum sem geta ekki gengið upp þegar þeim er báðum fylgt, annars vegar að gefa ekki út neina peninga og hins vegar að hafa vexti frjálsa. Afleiðingin af þessu hefur orðið sú að íslenska krónan, íslenski gjaldmiðillinn, er í raun og veru hrunin.

Það er yfirlýst að nú séu þeir peningar sem kallaðir eru innlendir a.m.k. að 2/3 hlutum erlendir. Vega þar mjög þungt afurðalánin sem öll eru orðin erlend nú þó að þau séu veitt í íslenskum peningum en að vísu með gengistryggingum eða verðtryggingu. Þessi stefna er sem sagt gengin sér til húðar og það fyrir allnokkuð löngu.

Tilefni þess að frv. þetta var flutt í fyrra var það að á einni nóttu var horfið að því ráði að prenta frv. þar sem heimild Seðlabanka til bindiskyldu var hækkuð úr 28% í 38%. Þá skyldi höggið reitt þannig að endanlega væri búið að koma í veg fyrir heilbrigði á fjármagnsmarkaði. Hvort sem þetta frv. átti þátt í því eða ekki var snúið við af þessari braut og í stað þess að binda 28% var horfið niður í það að binda 18% sparifjárins. Enn þann dag í dag eru 18% alls sparifjárins eða eitthvað nálægt 7 milljörðum kr. bundin í Seðlabankanum þótt hann hafi losnað við svo til öll afurðalán, en áður var þessi binding réttlætt með því að Seðlabankinn yrði að standa undir svo gífurlegum afurðalánaveitingum.

Þegar frv. þetta kom til afgreiðslu í þessari hv. deild gerði minni hl. grein fyrir séráliti sínu. Minni hl. sem vildi vísa málinu til ríkisstj., þeir hv. þm. Jón Kristjánsson og Egill Jónsson, gerði grein fyrir afstöðu sinni m.a. með þessum orðum - nál. er örstutt og ég les það í heild, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur rætt þetta mál ítarlega og fengið til viðtals seðlabankastjóra, formann Sambands viðskiptabankanna, sem jafnframt er bankastjóri Landsbankans, og bankastjóra annarra ríkisbanka, Búnaðarbankans og Útvegsbankans.

Meðan nefndin vann að málinu hefur ríkisstj. í samráði við Seðlabanka Íslands ákveðið að endurkaup afurðalána færist til viðskiptabankanna og bindiskylda verði lækkuð vegna þessara breytinga úr 28% í 18%. Jafnframt hefur ríkisstj. lýst því yfir að frá 1. maí muni bændur fá innlagða mjólk greidda að fullu innan mánaðar og sláturafurðir um áramót og verði þetta m.a. gert kleift með rýmkun á reglum um afurðalán.

Eðlilegt er að reglur Seðlabankans um bindingu sparifjár verði teknar til endurskoðunar þegar séð er hver áhrif þeirra breytinga verða sem nú standa yfir. Í ljósi þess leggja undirritaðir nefndarmenn til að frv. verði vísað til ríkisstj."

Þetta var sem sagt nál. minni hl. í fyrra. Nú hafa afurðalánin verið flutt frá Seðlabankanum og með þessum rökstuðningi þykist ég mega treysta því að þeir sem að nál. stóðu muni nú geta fylgt þessu frv.

Það sem um er að ræða hér er raunar afgömul kennisetning sem engir hagfræðingar mér vitanlega, sem nokkurt nafn bera, utan þá Íslands, styðja enn þann dag í dag, þ.e. að leiðin til að kljást við verðbólgu sé sú að takmarka lánsfé og frysta atvinnuvegi, framkvæmdir og framfarir á sviði almennings. Afleiðingin af þessari stefnu, sem reynt var að koma á erlendis en tókst þó í mjög litlum mæli þar sem þar eru bankar í einkaeigu og hlíta auðvitað ekki fyrirmælum ríkisins nema mjög takmarkað, var samt sú að hún hjálpaði til við að herða olíukreppuna sem svo var kölluð.

Alveg er ljóst miðað við ástandið t.d. hér á landi sem nú er, að eignum manna er haldið niðri með þeim hætti að það er ekki hægt að fá lánsfé með eðlilegum kjörum, að eignirnar lækka í verði. Við skulum taka sem dæmi húsbyggjandann sem kannske átti þriðjung af andvirði íbúðar sinnar þegar hann byggði hana fyrir tveim, þrem árum eða fjórum eða fimm. Hann á kannske ekkert í henni lengur vegna þess að íbúðin hefur hreinlega lækkað í verði á sama tíma sem hann þarf að borga þessa okurvexti. Þetta er heimatilbúin kreppa. Það er alveg á sama veg heimatilbúin kreppa þegar ekki er hægt að afla fjár til reksturs atvinnufyrirtækja, jafnvel þó þau séu stórrík. Kannske er einn versti þátturinn í þessari heimatilbúnu kreppu sá að stjórnendur fyrirtækjanna geta ekki komið við nýjungum og öðru slíku þar sem þeir fá hvergi fjármagn til þess. Þeir eru önnum kafnir við það kannske meiri hluta vikunnar að reyna að skrapa saman peninga til að geta greitt út vikulaunin eða mánaðarlaunin þegar þau falla, eru kannske meira og minna andvaka aðfaranótt föstudags af því að þeir hafa enga hugmynd um hvar þeir geti náð í fé til að borga starfsfólki sínu. Þetta þekkja allir sem við atvinnurekstur hafa fengist. Og þetta er líka heimatilbúin kreppa.

Þessi kreppa er ekki þessari ríkisstj. að kenna. Það er alveg ljóst. Þessi kreppa var búin til af fyrri vinstri stjórnum. Ekki vísvitandi heldur vegna þess að menn trúðu á þá kenningu að leiðin til að kljást við verðbólgu væri að herða stöðugt að á lánsfjármarkaði. Afleiðingin varð sú að verðbólgan fór allt upp í 130% og seinni vinstri stjórnin og sú versta féll með þeim gauragangi sem alkunna er. (Gripið fram í.) Já, ég sagði, hv. þm., sú versta. Niðurstaðan sýnir það. (Gripið fram í: Versta vinstri stjórnin?) Versta vinstri stjórnin, já. Um það þarf ekki frekar vitnanna við. Hún skildi við þjóðfélagið með gífurlegum erlendum skuldum og í 130% verðbólgu, atvinnuvegirnir komnir að hruni, húsbyggjendur búnir að tapa eigum sínum og landið gersamlega stjórnlaust.

Það var einn þátturinn í þessari stefnu, þegar allir íslenskir peningar voru frystir, að taka stanslaust erlend lán og dylja að fjármálakerfið væri hrunið. Það var hrunið þegar núv. ríkisstj. tók við. Skuldir þjóðarinnar voru orðnar það miklar að peningakerfi okkar var þá þegar hrunið. Það hefur verið reynt að hressa upp á það, en það tekst auðvitað ekki nema nægilegt lánsfjármagn sé boðið fram eins og er frumskylda Seðlabanka Íslands þar sem segir í 3. gr. laganna um hann að hann skuli „annast seðlaútgáfu og vinna að því að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.“

Ef við tökum þennan þátt kenningarinnar um takmörkun peninga í umferð, eins og það heitir á fallegu hagfræðimáli, getum við litið til nokkurra landa, hvernig þar hefur tekist til. Byrjum á Svisslandi. Þar bíða bankastjórarnir á tröppunum til að biðja fólk að taka lán. Þar eru vextir lágir og þar hefur aldrei verið verðbólga. Þegar Arabapeningarnir byrjuðu að streyma til Bandaríkjanna fyrir allnokkrum árum, eftir að olíuverð hækkaði sem mest, hvarf verðbólgan í Bandaríkjunum, þegar lánsfjármagn varð ótakmarkað. Eftir því sem hert hefur verið á bindiskyldu á Íslandi hefur verðbólgan aukist. Og ef það hefði tekist í fyrra að maska peningakerfið þannig að hækka bindiskylduna upp í 38%, eins og barið var í gegn á einni nóttu í löggjöf en góðu heilli ekki framkvæmt, er alveg öruggt að við hefðum misst alla stjórn á verðbólgunni nákvæmlega eins og síðasta vinstri stjórn gerði.

Það er kannske skemmtilegt að við skulum ræða þetta mál einmitt nú á þessum degi því að það eru allar horfur á því að samtök verkalýðs og vinnuveitenda og ríkisvaldið séu að sjá að sú stefna sem fylgt hefur verið á Íslandi í hálfan annan áratug meira og minna óslitið er gengin sér til húðar. Verðbólgustefnan er gengin sér til húðar. Nú er verið að reyna að ná samningum um breytta stefnu. Það er alveg rétt. Það er breytt stefna sem verið er að tala um síðustu daga milli vinnuveitenda og samtaka verkalýðs og síðan tala þessi samtök sameiginlega við ríkisvaldið. Þau tala um að losa um peningana. Að vísu eru sérstaklega nefndir lífeyrissjóðirnir, og það er góðra gjalda vert að losa um peninga í lífeyrissjóðunum til að reyna að bjarga húsbyggjendum sem búa við sára neyð margir hverjir, en það verður auðvitað að gerast með samkomulagi því að með löggjöf verður það ekki gert. Það væri stjórnarskrárbrot því að sjóðirnir eru sjálfseignarstofnanir.

Ég hef alla trú á því að með samkomulagi náist að losa þar um verulegt fjármagn. En það nægir ekki. Það verður að losa um fjármagnið í Seðlabankanum. Það verður að gefa út ávísanir á íslenskan auð, ekki alltaf á erlendan. Hér áður fyrrum létu menn sér nægja að ávísa á gull sem er svo sem einskis virði ef í það færi. Ég gæti t.d. haft hringinn minn úr einhverjum allt öðrum málmi. En nú er ávísað á gífurleg auðæfi. Peningar eru bara eitt, ávísanir á auðæfi, ávísanir á þjóðarauðinn. Íslendingar hafa aldrei verið eins ríkir og í dag. Hvers vegna má þá ekki nota íslenska peninga? Hvers vegna má ekki ávísa á okkar auðlegð heldur alltaf á auðlegð Araba og Ameríkana? Þetta eru þversagnir. Þetta er endaleysa upp úr og niður úr. Þetta er heimatilbúin kreppa. Og henni verður að linna ef við ætlum að halda í við aðrar þjóðir um lífskjör og framfarir. Þá verðum við auðvitað að skilja að við erum sjálfstæð þjóð og eigum að vera það í peningamálum eins og öðrum málum.

Það eina sem ekki má skammta eru peningar. Ég hef sagt það áður að hægt er að skammta kaffi og sykur, við fengjum öll jafnt. Við gætum vel lifað þó við fengjum ekki neitt. En það verður aldrei skapað heilbrigt þjóðfélag ef það á að skammta peningana, kannske á neikvæðum vöxtum svo að nemur tugum prósenta. Þá verður óréttlætið algert. Þannig var sköpuð fátækt á Íslandi. Það hefur verið sköpuð fátækt á Íslandi á síðustu 6-7 árunum sem ekki var til áður í 20 ár í sama mæli. Óréttlætið er miklu meira nú en það hefur verið um langa fortíð. Það var gert með þessum hætti. Það eru þeir sem meira hafa í höndum sér sem fá peningana. Það er ekki fátæka fólkið. Það er jafnvel svo komið að fjölskylda, sem kannske á talsverðar eignir enn þá eftir, jafnvel hundruð þúsunda í íbúð sinni, getur ekki fengið kannske 20-30 þús. kr. bráðabirgðalán þó hún hafi ekki fyrir mat af því að það er sagt í bönkunum: Peningar eru ekki til. Það er enginn auður til á Íslandi. Það er ekkert til að vísa á á Íslandi. - Þetta er sagt. Þetta höfum við öll heyrt. Nei, þessi stefna gengur ekki upp. Það er algerlega augljóst að henni verður að breyta og það fyrr en síðar.

Ég nefndi Sviss, að þar hefði aldrei orðið verðbólga, og hún hefði horfið í Bandaríkjunum þegar peningarnir streymdu þangað. Hvar er verðbólgan? Hún er þar sem peningar eru skammtaðir og peningar eru ekki til, fyrirtækjunum meinað að afla þeirra, í Suður-Ameríkuríkjum t.d. Hún hefur verið mikil líka í Ísrael af því að þeir hafa búið við styrjaldarástand og mjög hatramma löggjöf í peningamálum. En engin þjóð hefur gengið jafnlangt og við með löggjöf þó, ekki einu sinni Ísraelar, þegar svokölluð Ólafslög voru sett, rangnefnd auðvitað því að sá forsætisráðherra sem þá sat var tregur til að flytja það frumvarp sem var samsafn af greinargerðum hagfræðinga út um allan bæ sett í lagaparagrafa, ríkisstj. mun, stefnt skal að, peningamagn í umferð má ekki fara yfir þetta, vextirnir eiga að vera svona og svona og verðbólgan mun verða þetta og hitt o.s.frv. Þegar búið var að segja að hún ætti að vera 30% í september var farið að reyna að hagræða því, hvernig það gæti gerst með vísitölufölsunum og öðru slíku. Auðvitað sprakk þetta allt í andlitið á mönnum og mundi gera enn þann dag í dag ef ekki væri snúið við blaðinu.

En það er önnur hlið á sama máli og það eru okurtollarnir og álögurnar sem ríkisvaldið hefur allan þennan tíma og það í vaxandi mæli allt fram undir þetta lagt á fólkið. Leiðin hefur verið sú, þegar peningakreppan heimatilbúna var farin að sverfa svo að atvinnuvegum að þeir gengu ekki lengur, að fella gengið og stórhækka neysluskatta. Það var ekki bara miðað við krónutölu, heldur ekki miðað við þessar nýju minni krónur eftir gengisfellinguna. Nei, nei. Prósenturnar voru alltaf látnar hækka. Þetta var allt í prósentutölum. Síðan var verðlagið sprengt upp þangað til fólkið gat ekki staðist þetta lengur. Þá hækkuðu launin auðvitað líka. Og hver eru nú útgjöld ríkissjóðs þegar upp er staðið? Því þorir nú enginn hagfræðingur að mótmæla, sem ég hef haldið fram margsinnis í blaðagreinum og á fundum, að útgjöld ríkissjóðs eru nánast ekkert annað en beinar og óbeinar launagreiðslur innanlands og hins vegar gjaldeyrisnotkun. Þegar gengið er fellt og launin hækkuð með sköttum og aðgerðum ríkisvaldsins sjálfs hækkar auðvitað tekjuhlið fjárlaganna, það er alveg ljóst, en gjaldahliðin hækkar nákvæmlega jafnmikið.

Tekjuhliðin hefði bara hækkað meira ef kaupgeta fólksins hefði verið svolítið meiri, ef þetta hefði ekki verið gert. Svona er dæmið einfalt. Tollar og söluskattur eru samanlagt á mjög margar vörutegundir, fólk trúir því varla fyrr en það er útreiknað fyrir það, á mjög margar brýnustu nauðsynjavörur, yfir 200%. Það er yfir helmingur af verðinu sem við borgum í búðinni fyrir vöru sem kostar 100 kall á hafnarbakkanum. Ýmiss konar nauðsynjavara, pakkavara, niðursuðuvörur, ljósaperur jafnvel og glösin þarna á borðinu o.s.frv., allar mögulegar vörur sem hver einasta fjölskylda notar og auðvitað mest þær sem eru fátækastar kannske af því að þær eru barnmargar, þar eru munnarnir flestir og þess vegna þarf t.d. fleiri tannbursta og meira tannkrem, eru tollaðar með þessum hætti. Það er þyngri baggi fyrir þær fjölskyldur en okkur sem erum þó búin að koma börnunum okkar upp. Nei, nei, á þessu fólki er níðst með því að taka þessa okurtolla. Af vörunni sem kostar 100 kall á hafnarbakkanum er greiddur 80% tollur. Síðan er lagt ofan á það 30% vörugjald sem gerir 51 kr. Þá er komið í 230 kr. Svo fá kaupmaðurinn og heildsalinn 50% af því, ekki af 100 kallinum heldur af vöruverðinu sem þeir borga, og síðan er 24% söluskattur ofan á allt gillið. Þá er komið á fimmta hundrað króna. Og þetta hefur fólk látið bjóða sér!

Það er opinbert leyndarmál að ég gerði það að fyrirvara við myndun þessarar ríkisstj. áður en hún var mynduð, fyrirvara um stjórnarsáttmála, að fyrsti liður í svokölluðum mildandi aðgerðum væri sá að stórlækka okurtolla sem legðust með miklum þunga á helstu nauðsynjavörur heimilanna. Þetta hefur aðeins verið gert í mjög litlum mæli, en það var þó stöðvað að bætt yrði ofan á þetta í haust. Þegar fyrstu fjárlögin voru sýnd átti enn að hækka þessi gjöld. Það var snúið við blaðinu þar. Nú þessa dagana eru menn loksins, úr öllum flokkum og öllum stéttum, að tala um að gera nákvæmlega þetta sem er auðvitað það einasta rétta. Og það er ekki svo að þá yrði gat á ríkissjóði. Það verður gat á ríkissjóði ef þetta er ekki gert vegna þess að þá verður auðvitað kaupsprenging. En ef þetta er gert fara hjól atvinnulífsins í gang, þá batna kjör fólksins, kaupmátturinn eykst og hallinn á ríkissjóði, sem hefur verið viðvarandi í 15 ár, hverfur en vex ekki. Svo einfalt er málið ef það er hugsað niður í kjölinn.

Ég sagði að við gætum kannske haft hér almenna pólitíska umræðu um fjárhags- og efnahagsmál í dag af því að lítið er á dagskrá, kannske ekkert mál nema þetta, en ég hef svo oft skrifað um þetta og haldið svo margar ræður hér að hv. þingdeildarmenn þekkja þetta allir. En þetta mál gengur til fjh.- og viðskn. og þar verður það rætt og skoðað og talað við þá menn sem mestu ráða um peningamálin. Síðan kemur það væntanlega hingað aftur til umræðu og afgreiðslu. Þess er að gæta að í Nd. er líka frv. um Seðlabanka og það er raunar heildarlöggjöf. En þar er ekkert ákvæði um hámark bindiskyldu. Þess vegna fluttum við Valdimar Indriðason aftur þetta frv. til að það væri til athugunar í báðum deildum væntanlega. Það er að vísu svo að áskilið er samþykki viðskrh. fyrir hækkun á bindiskyldu og ég treysti mjög vel núv. hæstv, viðskrh. til að standa þar í ístaðinu og hafa bindiskyldu takmarkaða. En ég veit ekki hvaða ráðherra kann að taka við af honum. Þá væri hægt að binda allt spariféð, maska fjármálakerfið endanlega. Það er ekkert hámark. Það má vera 100%. Ísland mundi auðvitað ekkert farast þótt tekinn yrði upp dollari, SDR-mynt eða eitthvað slíkt í eitt eða tvö ár meðan við værum að byggja upp okkar mynt að nýju. Ég sagði að þjóðin mundi ekkert farast fyrir það. Þegar við byggðum upp okkar nýju mynt mundi hún auðvitað ekki heita kóróna, þá mundi hún heita mörk og eyrir, íslensk heiti. Við erum ekki konungsríki, við erum lýðveldi. (Gripið fram í.) Já, það skiptir máli. Verðgildið skiptir mestu máli en það skiptir líka máli að tala íslensku, hafa íslensk heiti og hafa fornar hefðir í heiðri. En þetta var nú kannske útúrdúr. Ég er sammála hæstv. iðnrh. um það að auðvitað er það verðgildið sem skiptir meginmáli. Þessu bætti ég við, að það er skemmtilegra að vera ekki með kórónu í lýðveldi. En það er ekki aðalatriði.

Ég skal nú ekki orðlengja um þetta frekar. Ég hef orðið þess var að tveir hv. þm. a.m.k. eru búnir að biðja hér um orðið og ég fagna því að við notum þennan tíma eitthvað til að rabba saman um þessi stóru mál. En ég legg til, hæstv. forseti, að þessu máli verði vísað til fjh.- og viðskn. að lokinni umræðu hér.