19.02.1986
Efri deild: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2643 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

260. mál, samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið á vegum viðskrn. af tveimur lögfræðingum, Viðari Má Matthíassyni héraðsdómslögmanni og Þorgeiri Örlygssyni dósent við lagadeild Háskóla Íslands.

Meginmarkmið frv. er tvíþætt. Því er ætlað að bæta úr réttarstöðu neytenda í viðskiptum og sporna gegn misnotkun á reglunni um samningsfrelsi sem er ein af grundvallarreglum íslensks fjármunaréttar. Í þessu skyni er lagt til í frv. að lögfest verði nýtt ákvæði, almennt ógildingarákvæði í III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem venjulega eru nefnd samningalögin. Þetta ákvæði mun veita íslenskum dómstólum víðtækari heimildir til ógildingar eða leiðréttingar ósanngjarnra samninga en gildandi réttarreglur heimila. Er þar einkum um tvær breytingar frá gildandi rétti að ræða. Annars vegar mun ákvæðið taka til allra samningstegunda á sviði fjármunaréttar og hins vegar almennt veita heimild til að taka tillit til aðstæðna, sem ekki voru fyrir hendi við samningsgerð, ef talið yrði að ógilda eða leiðrétta þyrfti slíka samninga skv. ákvæðinu.

Samhliða þessari breytingu er í frv. lagt til að þrjár aðrar breytingar verði gerðar á III. kafla samningalaga. Í fyrsta lagi er lagt til að 35. og 36. gr. núgildandi samningalaga verði felld úr gildi, enda eru þær óþarfar sé hið nýja ákvæði lögleitt.

Í öðru lagi er lagt til að efni 7. gr. laga nr. 58/1960, um bann við okri, dráttarvexti o.fl., verði flutt í III. kafla samningalaganna.

Í þriðja lagi er lagt til að gerðar verði breytingar á 37. gr. núgildandi samningalaga og efni hennar og orðalag þannig samræmt hinu nýja ógildingarákvæði.

Vegna þessara breytinga er óhjákvæmilegt að breyta númeraröð einstakra greina í III. kafla samningalaganna og hefur ráðuneytið í því efni fylgt tillögum höfunda frv. um framsetningu þeirra breytinga.

Frv. gerir einnig ráð fyrir að numið verði úr gildi ógildingarákvæði einstakra sérlaga, enda verði slík ákvæði óþörf við lögleiðingu almenns ógildingarákvæðis í samningalögum. Um þessa tilhögun mála hefur verið haft samráð við hlutaðeigandi ráðuneyti. Í kjölfar þess hefur félmrh. lagt hér fram á Alþingi frv. til l. um breytingu á lögum nr. 44/1979, um húsaleigusamninga. Í því frv. er gert ráð fyrir að efnisregla ógildingarákvæðis laganna sé felld brott en í þess stað vísi ákvæðið til hins almenna ógildingarákvæðis samningalaga sem lagt er til að verði lögfest skv. því frv. sem hér er til umræðu.

Eins og ég sagði áður er það annað af meginmarkmiðum þessa frv. að sporna gegn misnotkun reglunnar um samningsfrelsið, en í reglunni felst m.a. frjálsræði um efni löggerninga að svo miklu leyti sem það stríðir ekki gegn ófrávíkjanlegum lagareglum og almennu velsæmi. Sú regla stendur í nánum tengslum við regluna um að gerða samninga beri að halda. Leiðir af þessum reglum að samningsaðili getur almennt séð ekki komið sér hjá því að efna samningsskyldur sínar þó svo þær megi telja ósanngjarnar í hans garð. Er þá haft í huga að samningur hafi verið gerður milli jafnsettra aðila.

Það blandast fæstum hugur um að þessar reglur eru mikilvægar grundvallarreglur í viðskipta- og atvinnulífi hér á landi. Sú hætta er þó ætíð fyrir hendi að samningsfrelsið sé misnotað og á það einkum við þegar ekki er fullt jafnræði með samningsaðilum. Til að varna slíkri misnotkun og efla neytendavernd er vissulega árangursríkast að efla svo sem frekast er unnt samkeppni á sviði viðskipta. Í tíð núv. ríkisstj. hafa verið stigin þýðingarmikil skref til að efla samkeppni. Þar á meðal hafa ýmis verðlagshöft verið afnumin.

Auk þess ber löggjafanum skylda til að huga að setningu lagareglna sem spyrnt geta gegn misnotkun samningafrelsisins. Það verður hins vegar að gerast með þeim hætti að kostir samkeppninnar fái notið sín til fulls. Með þessu frv. er lagt til að slík almenn lagaregla verði lögfest en í því efni fylgt fordæmi Dana, Norðmanna og Svía sem hafa á síðustu 11 árum lögfest alla ógildingarreglu með breytingu á samningalögum sínum.

Þess ber þó að geta að víða í íslenskri löggjöf er að finna reglur er miða að því að sporna gegn misnotkun samningsfrelsisins, svo sem í III. kafla samningalaga þar sem talin eru upp sérstök tilvik er valdið geta ógildi löggernings. Þá gilda ófrávíkjanlegar lagareglur um vissar samningstegundir, svo sem húsaleigusamninga. Einnig hafa verið lögfestar reglur um heimild dómstóla til að víkja til hliðar bersýnilega ósanngjörnum samningum á ákveðnum réttarsviðum, sbr. t.d. ógildingarreglu höfundalaga. Loks má nefna að óskráðar réttarreglur um brostnar forsendur og réttaráhrif þeirra geta veitt heimild til ógildingar eða leiðréttingar samninga eða samningsákvæða vegna atvika sem áttu sér stað eftir samningsgerð og hafa íslenskir dómstólar beitt þeim reglum.

Í athugasemdum með frv. er gefið ítarlegt yfirlit yfir réttarreglur sem veita dómstólum heimildir til að ógilda eða leiðrétta ósanngjarna samninga. Eru reglurnar flokkaðar eftir skyldleika og samstöðu og veitir yfirlitið góða yfirsýn yfir íslenska löggjöf í þessu tilliti. Á hinn bóginn er rétt að leggja áherslu á að það er skoðun ráðuneytisins að þessar réttarreglur leiði engan veginn til þeirrar niðurstöðu að ekki sé þörf á því að lögfesta almennt ógildingarákvæði er taki til allra samningstegunda á sviði fjármunaréttar eins og lagt er til í þessu frv.

Hvatinn að nýlegum breytingum á ógildingarreglum samningalaga í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í þá veru, sem lagt er til í þessu frv., var ekki hvað síst sá að treysta betur réttarstöðu neytenda. Í þessu sambandi má nefna að höfundar frv. telja að könnun á stöðluðum samningsskilmálum, sem tíðkaðir eru í viðskiptum hér á landi við kaup á ýmsum veigameiri neysluvörum, sýni að í þeim er oft og einatt að finna ákvæði sem telja verður ósanngjörn í garð kaupandans. Má hér sem dæmi nefna samningsákvæði í afborgunarkaupum þar sem seljandi áskilur sér rétt til að endurheimta hið selda án þess að endurgreiða kaupanda nokkuð af kaupverði ef afborgun er ekki greidd á réttum gjalddaga. Slík ákvæði geta verið afar ósanngjörn í garð kaupandans, sérstaklega ef verulegur hluti kaupverðs hefur verið greiddur.

Jafnframt má nefna stöðluð samningsákvæði um ábyrgð seljanda, en einkenni þessara ákvæða er að þau veita í fæstum tilvikum kaupandanum meiri rétt en hann hefur nú þegar skv. lögum nr. 39/1922, um lausafjárkaup. Að þessu leyti hefur almennt ógildingarákvæði veigamiklu hlutverki að gegna fyrir neytendur og má almennt ætla að ákvæðið verði til þess að treysta réttarstöðu neytenda. Einnig er rétt að undirstrika að lögfesting þessa ákvæðis mundi að öllum líkindum hafa þau varnaðaráhrif að ósanngjörnum samningsákvæðum í garð neytenda fækkaði.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt ber að undirstrika að ógildingarákvæði frv. er í eðli sínu undantekningarregla. Hún stendur andspænis þeim grundvallarreglum sem áður er getið um, samningsfrelsi og skyldu manna til að efna gerða samninga. Þess vegna er sérstök ástæða til að árétta að til þess er ætlast að dómstólar fari mjög varlega í beitingu reglunnar. Óhófleg beiting hennar væri mjög til þess fallin að skerða öryggi í víðskiptum og skapa réttaróvissu. Það er hins vegar engan veginn varhugavert að leggja það í hendur dómstóla að beita þessari reglu og reyndar er hér ekki um nýmæli í lagasetningu að ræða hér á landi.

Auk ógildingarákvæðis frv. hefur það að geyma tvær aðrar breytingar sem rétt er að fara nokkrum orðum um. Er þar annars vegar um að ræða flutning á 7. gr. laga nr. 58/1960, um bann við okri, dráttarvexti o.fl., yfir í samningalögin, en þessi lagagrein er hið svonefnda misneytingarákvæði. Þykir eðlilegt að þetta ákvæði sé í samningalögum og er það í samræmi við tilhögun á hinum Norðurlöndunum. Ákvæðinu hefur ekki verið breytt efnislega og því ekki ástæða til að fjalla ítarlega um það við þessa umræðu. Á hinn bóginn er rétt að minna á að unnið er að breytingu á almennu hegningarlögunum og er þar gert ráð fyrir að refsivernd gegn hvers konar misbeitingu verði aukin.

Hina breytinguna er að finna í 7. gr. frv., en hún er samhljóða ákvæði 37. gr. núgildandi samningalaga. Er þar um orðalagsbreytingu að ræða sem gerð er til samræmis við orðalag 6. gr. frv. sem hefur að geyma hið almenna ógildingarákvæði.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið í meginatriðum efni þess frv. sem hér liggur fyrir. Á það er vert að benda að frv. fylgja óvenjulega ítarlegar athugasemdir sem ættu að vera mjög til skýrleiksauka.

Að því er varðar gildistöku frv. er gert ráð fyrir að það öðlist gildi 1. maí n.k. Vera má að hér sé færst helst til of mikið í fang og læt ég þá hv. nefnd og þingdeildinni eftir að ákveða hvort rétt sé að fresta gildistökunni um 1-2 mánuði þegar hún hefur fjallað um þetta frv. Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.