19.02.1986
Neðri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

238. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Fyrir rétt rúmu ári skipaði ég nefnd til að endurskoða lög nr. 51/1970 um Siglingamálastofnun ríkisins. Í nefndinni voru Ólafur Steinar Valdimarsson ráðuneytisstjóri, sem var jafnframt formaður hennar, Friðrik Ásmundsson, skólastjóri Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, Guðjón A. Kristjánsson, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, og Halldór Ibsen, útgerðarmaður í Keflavík.

Nefndin skilaði í nóv. s.l. tillögum að frv. til laga um Siglingamálastofnunina og er frv. flutt óbreytt frá hennar tillögum. Við störf sín hafði nefndin hliðsjón af tillögu þriggja manna nefndar um frv. að nýjum lögum fyrir stofnunina sem skilað var til samgrh. fyrir 5 árum síðan en aldrei lagt fyrir Alþingi.

Áður en ég rek í aðalatriðum efni þessa frv. sem liggur fyrir finnst mér við hæfi að rekja með nokkrum orðum forsögu skipaeftirlits hér á landi.

Á fyrsta fjórðungi aldarinnar var farið að huga að skipulegu eftirliti með skipum og bátum og urðu þá til fyrstu lög og reglur um það efni. Fram til 1970 var Skipaskoðun ríkisins kunnast sem heildarheiti hinnar opinberu stjórnar þessa málaflokks og nefndist yfirmaður þeirrar stofnunar skipaskoðunarstjóri. Hann stýrði jafnframt Skipaskráningarstofu ríkisins sem laut forsjá fjmrn. Með lögum nr. 51/1970, sem enn eru í gildi, voru þessar skrifstofur sameinaðar í Siglingamálastofnun ríkisins, verkefni skilgreind að nýju og embætti siglingamálastjóra stofnað.

Hlutverk Siglingamálastofnunar ríkisins er í stórum dráttum að vera ríkisstj. til ráðuneytis um siglingamál og skipasmíðar, hafa eftirlit með smíði og búnaði skipa skv. lögum og reglugerðum um það efni, annast framkvæmd laga og reglna um mælingu og skráningu skipa, annast skýrslugerð um íslenskan skipastól og gefa árlega út skrá yfir íslensk skip, annast framkvæmd laga og reglna um varnir gegn mengun sjávar og kafarastörf, auk þess sem hún skal fylgjast með og taka þátt í fjölþjóðasamstarfi um þau mál sem eru í verkahring stofnunarinnar.

Helstu breytingar sem í þessu frv. er gert ráð fyrir að verði á gildandi lögum um Siglingamálastofnunina eru: Í fyrsta lagi að komið verði á fót við stofnunina sérstakri ráðgjafarnefnd sem í frv. er kölluð siglingamálaráð.

Í öðru lagi að rannsóknarnefnd sjóslysa verði lögð niður.

Í þriðja lagi verði komið á fót umdæmisskrifstofum fyrir Siglingamálastofnunina utan Reykjavíkur.

Ég ætla að gera nánar grein fyrir þessum breytingartillögum en auk þeirra eru gerðar tillögur um ýmsar minni breytingar á lögum um Siglingamálastofnunina þar sem um er að ræða ákvæði sem ýmist eru orðin úrelt eða óþörf á þeim 16 árum sem lögin hafa verið í gildi.

Í 5., 6., og 7. gr. þessa frv. eru ákvæði um siglingamálaráð. Lagt er til að í ráðinu verði fulltrúar allra þeirra samtaka sem í dag eiga aðild að rannsóknarnefnd sjóslysa, en þar eiga nú sæti fulltrúar frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands og Slysavarnafélagi Íslands. Auk þess er lagt til að fulltrúar tveggja samtaka sem ekki eru í rannsóknarnefndinni fái nú aðild að ráðinu, en það eru Félag dráttarbrauta og skipasmiðja og Samband íslenskra kaupskipaútgerða.

Með þessum hugmyndum um siglingamálaráð, sem raunar á sér hliðstæðu í danskri löggjöf um siglingamál, er stefnt að því að mynda aukin tengsl milli þeirra aðila sem fulltrúa eiga í ráðinu við Siglingamálastofnun ríkisins, svo og við samgrh. og ráðuneyti, en ráð er fyrir því gert að embættismaður úr ráðuneytinu verði formaður siglingamálaráðs. Jafnframt er gert ráð fyrir að rannsóknarnefnd sjóslysa sé lögð niður og hef ég flutt um það sérstakt frv. um breytingu á lögum nr. 52/1970, um eftirlit með skipum. Í frv. er gert ráð fyrir að 45. gr. laganna falli niður, en hún fjallar einmitt um rannsóknarnefnd sjóslysa. Það frv. er á dagskrá á eftir og skýrir sig sjálft en ég kem nánar inn á það atriði síðar.

Ég lít svo á að með skipun siglingamálaráðs sé í raun og veru verið að víkka eða færa út starfssvið rannsóknarnefndarinnar og kalla þar fleiri til ráða en gert er skv. gildandi lögum um önnur þau málefni sem heyra undir Siglingamálastofnunina. Jafnframt vil ég minna á að í siglingalögum, sem samþykkt voru á Alþingi s.l. vor, er í 230. gr. gert ráð fyrir heimild til samgrh. að skipa sérstaka nefnd kunnáttumanna til að rannsaka tiltekin sjóslys ef ríkar ástæður mæla með því, t.d. ef stórslys hefur orðið eða líkur benda til að rannsókn muni verða óvenjumikil. Nefndin sem samdi tillögur að frv. undirstrikaði sérstaklega að hún teldi ekki rétt að leggja niður rannsóknarnefnd sjóslysa fyrr en gengið hefði verið frá skipun og reglugerð fyrir rannsóknarnefnd skv. 230. gr. siglingalaga.

Til stendur að leggja fram annað frv. fljótlega um breytingu á siglingalögunum, 230. gr., þar sem þessi mál verða betur formuð en nú er og komið í fastara form. Hefur formaður öryggismálanefndar sjómanna og ráðuneytisstjóri samgrn. tekið að sér að semja frv. um breytingu á siglingalögum innan þessara marka og mun í því sambandi verða haft náið samstarf við Siglingamálastofnun, við aðra þá aðila sem hér eiga hlut að máli og sömuleiðis við öryggismálanefnd sjómanna sem í eiga sæti níu alþm. Vænti ég þess að þetta frv. geti legið fyrir fljótlega. Er ætlun mín að leggja það fyrir þessa hv. deild þannig að þessi frv. geti þá fylgst að þó að þetta frv. sé komið til nefndar og til vinnslu. Það tekur til viðameira og víðáttumeira verksviðs heldur en það frv. sem von er á sem fjallar um þetta tiltekna atriði.

Mér þykir rétt að leggja áherslu á að starfsemi hins nýja siglingamálaráðs á ekki að hafa aukin útgjöld í för með sér frá því sem nú er því að hún er færð frá rannsóknarnefnd sjóslysa yfir í þetta siglingamálaráð. Hins vegar getur sú breyting sem ég var að greina hér frá haft einhver aukin útgjöld í för með sér.

Þriðja megintillagan í þessu frv., sem er stofnsetning umdæmisskrifstofa, hefur í för með sér verulega skipulagsbreytingu á starfsemi Siglingamálastofnunarinnar. Skv. gildandi lögum á stofnunin að hafa skrifstofu í Reykjavík, en landinu er síðan öllu skipt upp í eftirlitssvæði með skipaða eftirlitsmenn fyrir hvert svæði um sig en þeim er síðan skipt í skoðunarsvæði. Skv. frv. er hins vegar gert ráð fyrir að Siglingamálastofnun hafi sem hingað til aðsetur í Reykjavík en á fimm stöðum utan Reykjavíkur verði stofnaðar umdæmisskrifstofur, þ.e. í Stykkishólmi, á Ísafirði, Akureyri, Reyðarfirði og í Vestmannaeyjum.

Um það má deila hvort það séu endilega þessir staðir sem slíkar skrifstofur eiga að vera á, en þó held ég að vart sé um það deilt að nauðsynlegt sé að setja slíka skrifstofu á stofn á Snæfellsnesi. Um það er heldur ekki deilt að slík skrifstofa þarf að vera á Vestfjörðum og allra hluta vegna held ég að Ísafjörður sé tvímælalaust rétti staðurinn. Hins vegar kemur mjög til álita fyrir nefndina hvort nauðsynlegt sé að breyta því svæði og þá vil ég t.d. vitna til þess að Húnaflóasvæðið má gjarnan vera eitt og það sama. Ef á að þjóna þessu eftirliti frá Ísafirði í Strandasýslu er ekkert á móti því að það sé einnig gert hinum megin við flóann. Ég tel því fulla ástæðu til þess að nefndin athugi það atriði sérstaklega. Ég hygg að Akureyri sé tilvalinn staður fyrir Norðurland að öðru leyti og Norðausturland. Hins vegar má deila töluvert um það hvort Reyðarfjörður eigi endilega að vera sá staður sem þessi skrifstofa á að vera á á Austfjörðum því þar koma eðlilega aðrir staðir einnig til greina. Hins vegar hygg ég að enginn deili um að sjálfsagt er að slík skrifstofa sé höfð í Vestmannaeyjum.

Þetta tel ég eðlilegt að nefndin athugi nánar og tel að þessar ábendingar sem ég hef nefnt eigi fullan rétt á sér. Enda er það ekki neitt úrslitaatriði frá minni hendi að ekki megi breyta stafkrók í þessum efnum.

Hér er um að ræða töluverða breytingu frá gildandi lögum en hún er ekki eins mikil í reynd. Fyrst og fremst er hér verið að stefna að aukinni hagræðingu og sparnaði. Eftirlitsmenn eru nú þegar starfandi á öllum þessum stöðum nema á Reyðarfirði en hins vegar er skipaeftirlitsmaður búsettur í Neskaupstað. Auk þess eru sérstakir skipaskoðunarmenn á Fáskrúðsfirði og loks er svo skrifstofuaðstaða fyrir hendi á Akureyri. Þar er einnig skipaskoðunarmaður en ekki á hinum stöðunum. Það er því fyrst og fremst um það að ræða að koma á fót sæmilegri aðstöðu á þessum stöðum fyrir einn til tvo fastráðna skipaskoðunarmenn. Með þessari skipulagsbreytingu mundi það vinnast að fastara form kæmist á skipaskoðun og eftirlit sem yrði þá jafnframt virkara en áður. Það er þó ljóst að í ýmsum tilvikum þyrfti að leita um sérfræðiþekkingu til aðalskrifstofunnar í Reykjavík, en það er engin breyting frá því sem er í dag.

Mikið hefur verið rætt um það á undanförnum árum að það þyrfti að dreifa starfsemi opinberra stofnana meira um landið en nú er. Ef einhverjar af þessum hugmyndum eru raunhæfar á það ekki síst við um þær hugmyndir sem hér eru fram settar. Ég vil sérstaklega taka það fram í lok máls míns að enda þótt hér sé gerð tillaga um að rannsóknarnefnd sjóslysa verði lögð niður er ekki með því verið að segja að starfsemi hennar hafi verið óþörf. Þvert á móti hefur nefndin unnið að mjög þörfum verkefnum á undanförnum árum, og vinnur enn, bæði að rannsókn sjóslysa og þróun öryggisbúnaðar og björgunartækjum. En ég tel að með þeim breytingum sem hér er gerð tillaga um bæði hvað snertir siglingamálaráð og rannsóknarnefnd, skv. 230. gr. siglingalaganna, eða þeirri breytingu á þeim lögum sem ég lýsti hér áðan, sé þessum málum komið í enn betri farveg en er í dag.

Ég tel að starfsemi margra þeirra sem unnið hafa að öryggismálum sjómanna hafi miðað vel áfram og ég tel að það hafi verið mjög þörf ákvörðun að skipa öryggismálanefnd sjómanna sem hefur að mínum dómi unnið mikið og þarft verk og haft samvinnu við þá aðila sem hér skipta mestu máli. Ég tel líka mjög mikilvægt að með því var aukin samvinna á milli Alþingis og allra þeirra manna sem eiga hlut að máli. Því er rétt að taka við ábendingum frá þessum aðilum öllum í sambandi við þá breytingu sem ég boðaði á 230. gr. siglingalaganna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri en legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. - eða réttara sagt frv. báðum því ég tel ekki ástæðu til þess að flytja aðra framsöguræðu fyrir hinu málinu - vísað til 2. umr. og hv. samgn.