19.02.1986
Neðri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2671 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

275. mál, öryggi á vinnustöðum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér er gerð tillaga um að framlengja vinnuverndarlögin óbreytt. Ég tel að það sé ástæða til að fagna því að núverandi stjórnarflokkar virðast hafa komist að þeirri niðurstöðu að sú gagnrýni, sem uppi var höfð á þessa skipan vinnuverndarmála á Íslandi af hálfu Sjálfstfl. þegar þessi mál voru til meðferðar á sínum tíma, virðist hafa fallið um sjálfa sig og Sjálfstfl. hættur að halda henni til streitu.

Í þessum efnum vil ég minna á það að ákvæðið um endurskoðun laganna var sett inn að kröfu félmn. Nd. á sínum tíma sem þá starfaði undir forustu núverandi hæstv. félmrh. Ég hygg að sú krafa hafi átt rætur að rekja til afstöðu Sjálfstfl. sem vildi ekki afgreiða málið eins og það lá þá fyrir. Ég tel ástæðu til að fagna því að Sjálfstfl. hefur séð að sér í þessu efni og hefur núna samþykkt, að því er mér virðist, að vinnuverndarlögin gildi áfram eins og þan voru sett á sínum tíma. Það er dómur um lögin, dómur um það að gagnrýnin var ekki á rökum reist, dómur um það að lögin hafa reynst vel og framkvæmd þeirra hefur tekist öll eftir atvikum.

Þá er það einnig sérstaklega ánægjulegt að það virðist hafa tekist að leysa eitt helsta gagnrýnisatriðið á þessi lög á sínum tíma mjög farsællega, þ.e. það atriði sem snýr að bændum sérstaklega. Á sínum tíma setti ég reglugerð um þau mál, vinnuverndarmál sem snúa að bændum, í samráði við Stéttarsamband bænda og svo virðist sem um þau mál hafi einnig tekist góður friður og gott samkomulag.

Þess vegna sýnist mér að það hafi komið á daginn í ljósi reynslunnar að ekki hafi verið ástæða til þeirrar gagnrýni og þeirra efasemda sem uppi voru hafðar, einkum af þm. Framsfl. og Sjálfstfl., á sínum tíma og það er ástæða til að fagna því sérstaklega.

Hitt er svo rétt að nefna, herra forseti, að þrátt fyrir þessi lög okkar blasir það engu að síður við í íslenska þjóðfélaginu að hér er um að ræða víða óheyrilega vinnuþrælkun. Fulla vinnu viljum við hafa en þá óheyrilegu vinnuþrælkun, sem hér tíðkast og kemur bæði niður á fjölskyldum, félags- og menningarlífi, viljum við ekki hafa og því viljum við breyta. Það hefur verið skoðun Alþb. að það sé eitt brýnasta verkefni íslenskra þjóðmála og kjaramála, menningarmála og félagsmála á komandi árum að gerður verði bindandi samningur milli aðila vinnumarkaðarins til nokkurra ára um að stytta hér raunverulegan vinnutíma. Núverandi ástand í þeim efnum er algerlega óþolandi, það stefnir heilsu fólks og lífi fjölskyldnanna í stórkostlega hættu.

Herra forseti. Ég taldi ástæðu til að láta þessar tvær athugasemdir koma fram, aðra um leið og ég fagna því að lögin eru framlengd og svo hina varðandi vinnuþrældóminn. Ég tel sérstaka ástæðu til að benda á að þær efasemdir um þessi lög á sínum tíma, sem látnar voru í ljós af mönnum úr Sjálfstfl. og Framsfl. og einum og einum manni úr bændasamtökunum, hafa reynst þarflausar og ástæðulausar með öllu.

Umr. (atkvgr.) frestað.