20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2678 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

226. mál, sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands þannig að öll kennarafræðsla á háskólastigi verði á vegum einnar og sömu skólastofnunar og þannig megi nýta reynslu og þekkingu sem til er í báðum skólum og samnýta og koma á sameiginlegri yfirstjórn þessara tveggja skóla.

1. flm. var Sighvatur Björgvinsson sem flutti till. sem varaþm., en að öðru leyti eru aðrir flm. allir þm. Alþfl. Till. var fyrst flutt sem brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1986 sem þáttur í umfangsmikilli tillögugerð okkar Alþýðuflokksmanna um sparnað í ríkisrekstri og bætta nýtingu fjármuna ríkisins. Markmið till. er að sameina þessa tvo skóla þannig að öll kennaramenntun á háskólastigi verði á vegum einnar og sömu stofnunar, eins háskóla Íslendinga. Þannig fengist betri nýting m.a. á starfskröftum, reynslu og þekkingu, auk þess sem einhver beinn fjárhagslegur sparnaður hlyti óhjákvæmilega að verða þegar tvöfalt stjórnkerfi er einfaldað eins og yrði ef þessar tvær skólastofnanir yrðu sameinaðar í eina.

Þegar Kennaraskóli Íslands var framhaldsskóli fyrir neðan háskólastig fór framhaldsmenntun kennara fram á háskólastigi í Háskóla Íslands að mestu. Eftir að stúdentspróf eða ígildi þess var gert að inntökuskilyrði í Kennaraskólann og Kennaraskólanum hafði verið breytt í kennaraháskóla fór kennaramenntunin fram á háskólastigi í tveimur stofnunum þótt e.t.v. hefði mátt telja eðlilegast að Kennaraháskólinn annaðist alla þá menntun um leið og almennri kennaramenntun var lyft á háskólastig. Þannig hafa í rauninni starfað tveir háskólar á Íslandi sem annast menntun kennara og fá flm. ekki séð að slíkt sé skynsamlegt fyrirkomulag með svo fámennri þjóð fremur en t.d. að starfræktir væru tveir háskólar á sviði annarra menntamála eða fræða, svo sem eins og sviði félags- og stjórnmálafræða, læknisfræði, lögfræði eða viðskiptafræði.

Það er út af fyrir sig afrek svo fámennri þjóð sem Íslendingar eru að starfrækja einn háskóla með fjölbreyttu háskólavali, háskóla sem talinn er standa jafnfætis sambærilegum menntastofnunum hjá miklu fjölmennari og ríkari þjóðum. Við eigum fullt í fangi með að byggja sómasamlega upp þennan eina háskóla þannig að hann geti fylgst með tímanum og veitt menntun í þeim greinum sem þar eru kenndar sambærilega við þá sem kröfur eru gerðar til með öðrum þjóðum. Við höfum ekki efni á að dreifa þeim kröftum með því að starfrækja aðrar sambærilegar skólastofnanir til að inna af höndum áþekkt eða jafnvel sams konar starf og Háskóli Íslands sinnir. Þvert á móti eigum við í þessu tilviki að láta alla kennarafræðslu á háskólastigi fara fram í einni og sömu stofnun, í Háskóla Íslands, þannig að sem mest gagn megi hafa af þeirri þekkingu og reynslu, búnaði og þeim fjármunum sem Íslendingar hafa yfir að ráða til að mennta kennara í háskóla. Kennaraháskóli Íslands gæti þannig mætavel orðið ein af deildum í Háskóla Íslands, sem sæi þá um alla kennaramenntun á háskólastigi, og háskóladeildin gæti jafnvel haldið sínu sama nafni, Kennaraháskólinn, án þess að menn þyrftu að leggja í þann tvöfalda kostnað sem óhjákvæmilega fylgir skiptingu kennaranámsins milli tveggja sjálfstæðra kennaraháskóla.

Það er fyrst og fremst til að spara fé og nýta betur reynslu og þekkingu, búnað og tæki sem þessi till. er flutt. Það er þó ekki fyrst og fremst þess vegna heldur ekki síður vegna þess að með sameiningu kennaraháskóla og háskóla færi öll kennaramenntun á háskólastigi fram í einni og sömu stofnun, en það telja flm. að yrði til eflingar kennaramenntun í landinu.

Að lokum, herra forseti: Að loknum umræðum leggjum við til að þessari till. verði vísað til síðari umr. og félmn.