20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2679 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

226. mál, sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel að það geti vel komið til greina að athuguðu máli að sameina kennaramenntun í landinu í einni stofnun og hugsanlega með þeim hætti sem hér er vísað til þó að ég vilji alls ekki taka afstöðu til þess að óathuguðu máli.

Mér finnst að röksemdirnar fyrir þessari till., eins og þær koma fram í grg. og í máli hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, séu fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis, að flm. vænti verulegs sparnaðar af sameiningu þessara tveggja stofnana. Hugsanlegt er að eitthvað mætti spara við slíka sameiningu. Hitt er ljóst að mikil nauðsyn er á að efla kennaramenntun í landinu og veita í rauninni auknu fjármagni til að styðja við kennaramenntun og endurmenntun kennara sem engan veginn er sinnt sem skyldi. En ef með endurskipulagningu kennaramenntunarinnar og sameiningu þeirra þátta sem fram fara í Kennaraháskóla Íslands og Háskólanum mætti spara teljandi fjármagn væri það vissulega vel þegið.

Mér finnst hins vegar að till. beri óþarflega mikinn keim af fjárhagssjónarmiðinu einu saman og rökstuðningurinn fyrir henni. Ég minni á í þessu samhengi að það er vissulega löngu tímabært að endurskoðuð verði lög um Kennaraháskóla Íslands. Þau voru sett árið 1971 og áttu að gilda aðeins í tvö ár og hljóta þá endurskoðun, en hafa ekki verið endurskoðuð enn þann dag í dag, ekki af þinginu. Það var gerð atrenna að þessu máli í tíð ríkisstjórnarinnar 1974-1978. Nefnd var að störfum. Ég man ekki hvort hún var skipuð af þáv. menntmrh. Vilhjálmi Hjálmarssyni eða af Magnúsi Torfa Ólafssyni í tíð vinstri stjórnarinnar 1971-1974, en frv. var lagt fram 1976 sem afrakstur af þessu starfi og endurflutt 1977 en strandaði í þinginu. Síðan hefur ekki verið gerð, mér vitanlega, veruleg atrenna að þessu máli þó það hafi e.t.v. verið til meðferðar á vegum ráðuneytis síðan.

Ég tel að það sé full þörf á því að fara yfir þessi mál og gildandi lög um kennaramenntunina í landinu, fyrst og fremst með það að markmiði að treysta hana og efla. Ég tel að vissir þættir kennaramenntunar og ekki síst endurmenntunar kennara þurfi að fara fram úti á landi. Það þurfi að flytja endurmenntunina nær vettvangi. Þar hafa verið uppi ákveðnar tillögur, m.a. í mínu kjördæmi á Austurlandi, unnar af kennurum þar á vettvangi, um að efla sérkennslu, endurmenntun kennara og reyndar grunnmenntun í sérkennslu. Það hefur verið sótt um fjármagn í því skyni sem ekki hefur enn fengist.

Þau rök sem fram komu í grg. hjá flm. í þessu máli eru þess eðlis að ég tel að þau beinist í rauninni frekar gegn því að færa ákveðna þætti kennaramenntunarinnar út á land. Það er tekið svo til orða í grg. að við séum fámenn þjóð og eigum fullt í fangi með að byggja sómasamlega upp þennan eina háskóla þannig að hann geti fylgst með tímanum og jafnan veitt bestu menntun í þeim greinum sem þar eru kenndar.

Ég vildi inna hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, sem er 2. flm. þessarar till., eftir því hvort í þessu felist andstaða af hans hálfu við því að taka upp ákveðna þætti háskólamenntunar utan Reykjavíkur, utan Háskóla Íslands, t.d. andstaða við þær hugmyndir að setja upp háskóla á Akureyri sem tæki á ákveðnum menntaþáttum á háskólastigi. Það mætti skilja þessi orð í grg. í þá átt að þar felist andstaða gegn því. Ég geri ráð fyrir að það megi auðveldlega reikna út að það sé óhagkvæmara að dreifa fræðslu á háskólastigi þannig á fleiri staði á landinu, en ég tel hins vegar auðsætt að aðrir þættir vinnast í leiðinni. Ég er mikill talsmaður þess að færa ákveðna þætti í okkar menntakerfi og stjórnsýslu út á land. Það væri fróðlegt að vita hver væri hugur hv. flm. í þessu efni.