20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2683 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

226. mál, sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Guðrún J. Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mér hefur ekki gefist tækifæri til þess að íhuga mjög nákvæmlega till. þá sem um er að ræða hér, en á hinn bóginn hef ég vasast í fræðslumálum síðustu áratugina og fylgst þar af leiðandi þó nokkuð náið með ýmsum skólum á framhaldsskólastigi.

Ég dreg í efa að skólar verði betri þó að þeir verði stærri. Ég dreg í efa að kennaramenntun á Íslandi verði nokkuð betri þó að hún verði öll undir Háskóla Íslands. Hitt er annað mál að það mætti kannske íhuga hvort ætti ekki að færa kennaramenntunina, sem er í Háskólanum, inn í Kennaraháskóla, það væri hugsanlega hin leiðin.

Hvað viðkemur sérskólum, sem eru nánast á háskólastigi líka, eins og Fósturskólinn og ýmsir aðrir skólar, þá dreg ég líka í efa að þeir yrðu betri þó að þeir væru settir í einhvern stærri bás. Það má vera, en ég held samt að ágæti þeirra byggist kannske líka á því hvað þeir eru smáir. Ég hef dæmi um það, sem er Þroskaþjálfaskóli Íslands, sem er búið að gera að stórkostlega góðri stofnun á háskólastigi, á því stigi sem mundi kallast kannske „college“. Ég held að það byggist m.a. á því að það er hægt að gera þetta við þessa smáu einingu.

Hvað viðkemur skipstjórum, hvort þeir hafa einhvern áhuga á því að flokkast undir háskólamenntaða, þá dreg ég það mjög í efa. Ég held nefnilega að skipstjórar hafi almennt betri laun en háskólamenntaðir. Þetta var nú aukaatriði.

Um endurskoðun laga vildi ég rétt nefna að það er ekki vansalaust að það hefur verið dregið að endurskoða ekki bara þessi lög sem hv. þm., sem talaði hér á undan mér, nefndi, heldur ýmis önnur lög um skóla og þyrfti að gera gangskör að því. Það væri ánægjulegt ef núv. hæstv. menntmrh. vildi gjöra svo vel og gera það, athuga hversu mörg lög um skóla það væru sem þyrfti að endurskoða.