20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2690 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

226. mál, sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið nokkuð undarleg. Ég get ekki tekið undir með þeim sem telja hana mjög gagnlega því að mér finnst sárafátt hafa komið hér fram sem ekki er margsagt áður og ég hef ekki heldur heyrt þau rök fyrir þáltill. sem valdi því að hún verði talin til stórtíðinda.

Sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands er mál sem ekki verður afgreitt með einni þáltill. frá Alþingi. Þar hlýtur að koma til langtum ítarlegri athugun og íhugun um það hvað Háskóli Íslands er og hvert hans hlutverk er og hvað Kennaraháskóli Íslands er og hvert hans hlutverk er og á að vera.

Ég vil aðeins benda á örfá atriði. Í fyrsta lagi: Það er mikill eðlismunur á þessum tveimur skólum. Háskóli Íslands er samsettur úr mörgum deildum, þar er fengist við fjölbreytt viðfangsefni, hann er í senn embættisskóli, skóli fyrir embættismenn, hann er skóli fyrir kennara og hann er skóli fyrir þá sem ætla sér að fara út í ýmis ótilgreind störf jafnframt því sem hann á skv. lögum að vera rannsóknarstofnun.

Hlutverk Kennaraháskóla Íslands er fyrst og fremst að útskrifa kennara, kennara sem hafa réttindi til kennslu á grunnskólastigi. En hann á jafnframt að vera sérfræðiskóli um kennslumálefni. Hann á að fást við rannsóknir á mörgu því sem lýtur að kennslu og kennslufræðum. Að því leyti tengist hann að sjálfsögðu ýmsu því sem fram fer í Háskóla Íslands, einkum og sér í lagi kennslu- og uppeldisfræði.

Þegar verið er að ræða um að sameina Kennaraháskólann og Háskólann gæti það ekki orðið nema þannig að Kennaraháskólinn kæmi inn í Háskólann sem sérskoli. Í raun og veru ynnist því ekki neitt nema að þarna væri hann settur sem ein deild í Háskólanum. g get ekki séð fyrir mér öðruvísi fyrirkomulag.

Þá er það líka spurning hvort það er heppilegt fyrir kennaramenntunina í landinu, grunnskólakennaramenntun, sem er að mínum dómi ein hin almikilvægasta í öllu menntakerfi landsins, að vera undirsett Háskóla Íslands, skóla sem hefur allt önnur markmið og allt annað hlutverk en Kennaraháskólinn. Ég held að það sé auðveldara, ódýrara og á allan hátt heppilegra og eðlilegra að grunnskólakennarar séu í sérstökum skóla, sem er Kennaraháskóli Íslands. Þar hafa þeir tækifæri til að fást við viðfangsefnin á annan hátt en sem eins konar undirdeild í Háskólanum. Sjálfstæði Kennaraháskólans er að mínu viti nokkuð sem ekki á að fórna alveg svona með einni þáltill. Og hefur verið leitað álits Háskóla Íslands og Kennaraháskólans á þessari þáltill.?

Hæstv. menntmrh. hefur rætt hér um að öll þessi mál séu í athugun og það er vel. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að kanna þessi mál rækilega og við þurfum stöðugt að endurskoða hvort sem það er Kennaraháskólinn, Háskólinn eða menntaskólarnir, grunnskólakennslan o.s.frv. En ég held að það sé ekki til neins hagræðis eða neinna bóta, að það flýti ekki fyrir, að það geri ekki auðveldara, að samþykkja þáltill. út og suður um málefni sem þegar eru í skoðun og athugun og verða væntanlega lagðar fram till. um á grundvelli nákvæmari athugana en oftast nær liggja að baki þáltill. Þetta hef ég að segja um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Ég held að það mál sé alls ekki á því stigi að hægt sé að taka um það ákvörðun og ég er mjög efins um að það væri heppilegt, allra síst fyrir Kennaraháskóla Íslands.

Þá hafa nokkur önnur atriði komið hér upp sem væri ástæða til að ræða. Það er þó aðeins eitt sem ég ætla að minnast á og það er stúdentsprófið. Það er alveg rétt að víða taka nemendur stúdentspróf yngri en hér, 17-18 ára er næsta algengt. Við erum með 19 og 20 ára fólk í þeim prófum. En þetta tengist öðru máli, þ.e. inntökuskilyrðunum til æðra náms, til framhaldsnáms og háskólanáms. Er það nægjanlegur undirbúningur fyrir 17 ára ungling með tveggja ára nám ofan á grunnskólanámið að fara inn í háskóla, t.d. Háskóla Íslands, flestar deildir hans? Yrði ekki að koma til einhver undirbúningur í háskólanum sjálfum á annan hátt en nú er? Yrðum við að fara inn í það að hafa 1-2 ára nám á því sem í Bandaríkjunum er kallað „college“-stig?

Eigum við að hafa inntökupróf í Háskólann sem mundi þýða í mörgum tilvikum að fólk yrði að bíða í 1-2 ár meðan það væri að ná prófum? Að vísu er það svo í sumum greinum að mjög margir verða að verja 1-2 árum til þess hreinlega að komast inn í námið - ég nefni læknadeild, tannlæknadeild, lagadeildina og reyndar fleiri deildir. Það mætti auðvitað nefna úr öllum deildum en þessar þrjár hafa einkum verið þekktar fyrir að gera allstrangar kröfur í byrjun.

Erum við tilbúin að lækka stúdentsprófsaldurinn og taka upp inntökupróf, inngangsnám, 1-2 ára undirbúningsnám í Háskólanum? Þetta verðum við að athuga. Ætlum við sem sagt að lengja háskólanámið á kostnað menntaskólanámsins eða ætlum við að bæta menntaskólanámið þannig að ekki þurfi á því að halda nema í undantekningartilvikum að fólk sé 1-2 ár að komast inn þó svo að það ljúki ekki stúdentsprófinu fyrr en um tvítugt.

Svo skulum við líka horfa á annað. Við skulum bara gera okkur fulla grein fyrir því sem Nils Christie hefur reyndar löngum hamrað á - og ég veit að fyrrv. skólameistari á Ísafirði þekkir hans kenningar mjög vel - þ.e. að skólinn sé fyrst og fremst geymslustofnun og það spari ríkinu stórfé að hafa fólk sem lengst hvort heldur sem er í menntaskólum eða háskólum.