16.10.1985
Sameinað þing: 3. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

Tilkynning frá forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni

Kristín Halldórsdóttir:

Hér hafa nú verið staðfestir þeir atburðir sem vissulega sæta töluverðum tíðindum. Staðreyndirnar eru ljósar og einfaldar. Formaður Sjálfstfl. hefur tekið sæti í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og notað tækifærið um leið og sveiflað samflokksráðherrum sínum milli embætta. Af því tilefni vil ég í upphafi máls míns óska þeim öllum farsældar í starfi.

Ástæðurnar fyrir þessum sviptingum vefjast hins vegar töluvert fyrir ýmsum og framkvæmdin er furðulega klaufaleg. Svo vikið sé örfáum orðum að því síðarnefnda, þ.e. framkvæmdinni, þá er það í fyrsta lagi tímasetningin sem er forkastanleg. Ef gera þurfti breytingar á ríkisstj. áttu þær að vera löngu afstaðnar. Með þessu háttalagi eru eðlileg þingstörf trufluð og tafin í marga daga, að ekki sé talað um stjórnarstörfin. Það var nánast eins og tískufyrirbrigði í sumar að spyrja eftir stjórnarandstöðunni og hennar afhafna. Hvar er stjórnarandstaðan? át hver eftir öðrum á milli þess sem menn göptu yfir fríspörkum ráðherranna í sambandi við kjötinnflutning, hlutabréfasölu, bjórlíkisbönn og fleira í þeim dúr. Ég spyr hins vegar: Hvað voru sjálfstæðismenn að gera í allt sumar? Hvers vegna voru þessi stólaskipti ekki framkvæmd fyrr? Eða eru allir svo seinir að hugsa í þeim flokki, aðrir en hæstv. fyrrv. fjmrh., núv. iðnrh., sem lýsti því yfir í sjónvarpsþætti nýlega að hann væri svo fljótur að hugsa og hefur enda sýnt það á sinn hátt síðustu daga?

Það leiðir einmitt hugann og talið að öðrum þætti þessarar framkvæmdar sem teljast verður einstaklega klaufalegur. Það er sá tími sem einstakir ráðherrar hafa fengið til einleiks á sínum gamla heimavelli, tækifæri sem einn þeirra a.m.k., hæstv. fyrrv. fjmrh., hefur notfært sér til hins ýtrasta svo að vakið hefur undrun og hneykslun, tækifæri sem virðist hafa verið notað beinlínis til persónulegs framdráttar og jafnvel hefndaraðgerða. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvers konar framkvæmdavald það er, sem við búum við, að einn ráðherra skuli geta ráðskast svo með þann málaflokk sem honum er trúað fyrir að samráðherrar hans standi bara ráðþrota og gapandi hjá. Það er ekki eins og við þessa framkvæmd hafi verið að verki vanir stjórnmálamenn. A.m.k. hafa þeir ekki metið hver annan rétt.

Svo sem ljóst mátti vera kunna menn misjafnlega vel að meta þessar tilfæringar milli ráðuneyta. Að mínu viti höfðu þær einar og sér tvíþættan tilgang. Í fyrsta lagi gera þær það að verkum að formaður Sjálfstfl. verður ekki eini nýgræðingurinn í ráðherrastóli, en sú aðstaða hefði gert hann óþarflega minni máttar gagnvart meðráðherrum sínum sem hefðu hagað sér eins og heimaríkir hundar gagnvart honum. Nú eru þeir allir jafnráðvilltir í sínum embættum og virðast ekki einu sinni fyllilega búnir að átta sig á hvaða stofnanir heyra undir hvern. Þetta gefur því hæstv. fjmrh. Þorsteini Pálssyni svigrúm til að festa sig í sessi. Í öðru lagi setur þessi ráðstöfun þann nýjabrumssvip á ríkisstj. að fyrir mörgum er þetta ný stjórn. Það eru alþekkt sannindi að almenningur er fús til að gefa nýrri stjórn tækifæri til að sanna getu sína eða vanhæfni eftir atvikum. Sú verður trúlega raunin á núna.

Um stund hefur því sjálfstæðismönnum tekist að villa mönnum sýn. Þeir hafa dregið athyglina frá málefnum að mönnum. Þar með erum við komin að alvarlegasta þætti þessa máls, þeim þætti sem erfiðast er að skilja og útskýra og sætta sig við. Látum vera þó að skipt sé um menn í ráðuneytum og látum vera þótt það sé með endemum klaufalega gert. Hitt er átakanlegt að ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þessi umskipti boði breytta stefnu eða skipti nokkru einasta máli fyrir þjóðarheill. Viðfangsefnin eru mörg og stór og hvorki færri né minni en við upphaf þessa kjörtímabils. Í grein þingfréttaritara Morgunblaðsins s.l. sunnudag sagði m.a., með leyfi forseta:

„Helstu vegvísar þingmanns í starfi eiga að vera heildarhagsmunir og þjóðarheill.“

Þeir atburðir sem nú hafa verið staðfestir benda til þess að þingmönnum Sjálfstfl. beri að taka þessa ábendingu til sín. Þeir hafa nú sýnt það að þeir setja persónulega metnaðargirnd og þrönga flokkshagsmuni ofar heildarhagsmunum og þjóðarheill.

Ég ætla ekki að telja upp brýnustu verkefni þingsins og ríkisstj. Vonandi er ætlun ráðherranna að fara nú að snúa sér að þeim verkefnalista þótt óhjákvæmilega verði sumir þeirra ráðvilltir næstu daga sem vafalaust flýtir ekkí fyrir lausn vandamálanna. Almennar stjórnmálaumræður bíða betri tíma.

Menn bíða nú eftir nýbökuðum hæstv. fjmrh. í þennan ræðustól. Ég vil að lokum beina til hans eftirtöldum spurningum:

1. Úr því að þessar breytingar voru taldar nauðsynlegar, hvers vegna voru þær þá ekki gerðar fyrr? Hvað olli því að hann tók nú af skarið?

2. Hvert er meginmarkmið Sjálfstfl. með þessum breytingum? Verður um stefnubreytingu að ræða í stjórnarathöfnum eða eru ástæður breytinganna þær einar, sem ýmsir vilja vera láta, að fullnægja persónulegri metnaðargirnd og þjóna innanflokkshagsmunum Sjálfstfl.?