20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2698 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

263. mál, fullorðinsfræðslulög

Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Kristínu Halldórsdóttur borið fram svolátandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að láta semja frv. til l. um fullorðinsfræðslu sem taki til fræðslu á öllum menntunarstigum og hafi það að markmiði að stuðla að jafnrétti fólks til fræðslu og náms.“

Í grg. er skýrt frá því að gerðar hafi verið nokkrar tilraunir til að koma á heildarlögum um fullorðinsfræðslu, en þær tilraunir ekki náð fram að ganga. A.m.k. tvö lagafrv. í þá veru hafa verið lögð fyrir hið háa Alþingi. Hið fyrra og viðameira var samið á árunum 1971-1974. Það var unnið af sjö manna nefnd sem. séra Guðmundur Sveinsson skólameistari hafði forsæti fyrir. Frv. var lagt fram á 95., 96., 97. og 98. löggjafarþingi þjóðarinnar en hlaut ekki afgreiðslu.

Frv. gerði ráð fyrir æðimikilli stjórnaryfirbyggingu, þ.e. níu manna fullorðinsfræðsluráði og stórum fullorðinsfræðslunefndum í hverju fræðsluumdæmi. Einnig gerði það ráð fyrir stofnun fullorðinsfræðslusambanda, en þau eru næsta fá á Íslandi. Enn fremur gerði frv. ráð fyrir mjög auknum framlögum ríkissjóðs til fullorðinsfræðslu hvers konar.

Nefndin hafði leitað fanga víða, en haft norsku fullorðinsfræðslulögin mjög að fyrirmynd að því er mér virðist.

Þetta lagafrv. hafði að geyma mörg nýmæli fyrir Íslendinga og margt er til framfara horfði, en gerði óneitanlega ráð fyrir allmiklum kostnaðarauka og eins og áður segir var yfirbyggingin stór. Það hefur líklega ráðið úrslitum um örlög þess.

Á umræddum þingum voru þó samþykkt tvenn lög um efni sem snerta fullorðinsfræðslu. Hin fyrri voru lög um almenningsbókasasöfn sem sett voru árið 1976. Hin síðari lögin um Skálholtsskóla sem samþykkt voru síðla vetrar 1977. Það olli nokkrum vonbrigðum að ekki skyldu fást fram lög um lýðháskóla almennt, en lög um lýðháskóla voru þó fegins- og fagnaðarefni.

Á 104. löggjafarþingi var lagt fram frv. til l. um framhaldsskóla. Í því frv. voru og eru tvær greinar er varðar almenna fullorðinsfræðslu, sú 15. og 16. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að fólk sem orðið er 19 ára fái aðgang að einstökum námsáföngum við hlið reglulegra nemenda skólans. Í öðru lagi er þar gert ráð fyrir að framhaldsskólar geti stofnað til sérstakra námskeiða, þar á meðal kvöldskóla, til að fullnægja óskum og þörfum þeirra sem komnir eru af venjulegum skólaaldri. Enn er þar kveðið á um að húsnæði skólanna sé nýtt fyrir almenna fræðslustarfsemi, þar á meðal endurmenntun. Lög um framhaldsskóla hafa ekki verið samþykkt á Alþingi, en starfað er eftir þessum tveimur greinum víða um land.

Síðsumars árið 1978 skipaði þáv. menntmrh. Vilhjálmur Hjálmarsson nefnd fimm manna til að semja nýtt frv. til l. um fullorðinsfræðslu. Formennsku í nefndinni hafði Haukur Ingibergsson, þáv. skólastjóri Samvinnuskólans að Bifröst, og lítur út fyrir að skipun þessarar nefndar hafi verið eitt síðasta verk Vilhjálms á stóli menntmrh. því að daginn eftir tók ný stjórn við þar sem Ragnar Arnalds fór með menntamálin. Nefndin starfaði áfram samkvæmt fyrirmælum Ragnars og lauk störfum í apríl 1979. Þá var mjög liðið á þingtíma og svo fór að Ragnar lagði aldrei fram þetta frv. Það varð hlutskipti næsta menntmrh., Vilmundar Gylfasonar, sem lagði það fram 7. febr. 1980, síðasta dag sinn í embætti. Frv. hlaut ekki umfjöllun Alþingis. Svo undarleg hafa örlög þessa lagafrv. orðið.

Við sem að þessari þáltill. stöndum álítum að það væri ómaksins vert að menntmrh., menntamálanefndir og þm. almennt kynntu sér þetta frv., sem hér er fskj., því að það hefur að geyma margt er til bóta og framfara horfir og gæti orðið grundvöllur að nýju frv. til laga um fullorðinsfræðslu. Nefndin sem samdi þetta frv. hafði hið fyrra frv. til hliðsjónar og þekkti vel til opna háskólans í Bretlandi, en byggði fyrst og fremst á innlendri reynslu.

27. jan. 1981 bar Jóhanna Sigurðardóttir fram fsp. um hvað liði heildarlöggjöf um fullorðinsfræðslu. Þá upplýsti menntmrh. Ingvar Gíslason að hann hefði í undirbúningi frv. til l. um fullorðinsfræðslu og stefndi að því að leggja það fram á þingi. Svo varð ekki.

Á árunum 1974-1979 starfaði nefnd sem gera átti tillögur um nýtingu útvarps og hljóðvarps til kennslu fyrir almenning. Nefndin skilaði áliti sem bar heitið Útvarpsskólinn og gerði ráð fyrir stofnun hans og skyldi hann starfa í samvinnu við frjálsa fullorðinsfræðslustarfsemi í landinu og menntmrn. Árið 1979 var enn fremur skipuð nefnd til að gera tillögur um eftirmenntunarnámskeið og starfsþjálfun.

Einn er sá þáttur í fullorðinsfræðslu sem nauðsyn er að efla stórlega, þ.e. fræðsla ófaglærðs fólks. Á tímum þegar við ætlum að hefja átak til að efla atvinnuhætti þjóðarinnar og auka útflutning á unnum vörum hlýtur það að teljast undarlegt að aðeins sé efld fræðsla um markaðsleit og námskeið haldin í markaðsöflun. Það er ekki nóg að finna markað ef það sem selja á er ekki boðlegt.

Varðar mest til allra orða

undirstaðan sé réttlig fundin,

stendur í kvæðinu Lilju eftir Eystein munk og það á við jafnt í dag sem þá. Verkafólk til sjávar og sveita og í fiskvinnslu og verksmiðjum er undirstaðan undir velgengni okkar í útflutningsmálum. Fólkið í undirstöðuatvinnugreinum þarf að fá tækifæri til að bæta þekkingu sína og vel að merkja á sú fræðsla að fara fram í vinnutímanum. Ef við eflum slíka fræðslu vinnst tvennt: Við eignumst fróðari, sjálfstæðari og hæfari þjóðfélagsþegna og við bætum framleiðslu og framleiðsluhætti. Það er ekki einasta ófaglært fólk í framleiðslustörfum sem ber að fá starfsfræðslu. Geysileg þörf er fyrir starfsfræðslu ófaglærðs fólks á öllum sviðum þjóðlífsins. Ef Íslendingum tækist að koma á almennu starfsfræðslukerfi fyrir ófaglært fólk í öllum greinum mundum við lyfta því menningarlega grettistaki sem nægði e.t.v. til að hækka svo menntunarstaðal þjóðarinnar að útflutningur á íslensku hugviti færi að verða eitthvað annað en fagur draumur.

Það liggja án efa margar orsakir til þess að heildarlöggjöf eða rammalöggjöf um fullorðinsfræðslu hefur ekki verið sett. Engar getgátur skulu hafðar uppi um orsakirnar, en telja verður að tregða þessi á heildarstefnumörkun um fullorðinsfræðslu hafi orðið fræðslustarfseminni til baga. Vissum þáttum hefur verið hampað, aðrir orðið hornrekur. Það er til að mynda ekki vansalaust hve seint hefur gengið að koma á öflugri útvarpskennslu.

Um tíma héldu menn að öldungadeildir leystu allan vanda fullorðinsfræðslu og gömul fyrirbrigði eins og námsflokkar heyrðu fortíðinni til. Þetta er auðvitað alrangt því að eðli námsflokka og öldungadeilda er ólíkt á margan hátt og svo á það að vera. Ekkert eitt fyrirbæri í fullorðinsfræðslu né annarri fræðslu leysir allan vanda og uppfyllir allra þörf. Því þarf margþætta og fjölbreytta fullorðinsfræðslustarfsemi og rúmgóða löggjöf þar um. Það væri fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. menntmrh. við þessu efni, en hann mun nú ekki vera viðstaddur.