24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2712 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

264. mál, fjarvistarréttur foreldra

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Á þskj. 497 flyt ég frv. til l. um fjarvistarrétt foreldra vegna veikinda barna. Mál þetta var flutt á þingi í fyrra og reyndar flutti ég það líka í hitteðfyrra, en frv. hlaut í hvorugt skiptið afgreiðslu.

Frv. gerir ráð fyrir því að þeir sem eiga rétt til uppsagnarfrests vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, annaðhvort samkvæmt ráðningarsamningi eða skv. lögum nr. 19 frá 1. maí 1979, njóti þess réttar, ef um foreldri er að ræða, að mega ráðstafa allt að einni viku af áunnum rétti sínum til fjarvistar vegna veikinda til að vera frá vinnu vegna veikinda barna undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Í þessum veikindaforföllum á að greiða starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag samkvæmt reglubundinni varðskrá.

Mál þetta er sniðið að þeim kjarasamningi sem opinberir starfsmenn gerðu haustið 1982 við ríkisvaldið og heimilaði félagsmönnum BSRB og BHM að nota hluta af veikindaleyfi sínu til fjarvistar vegna veikinda barna. Reyndar hafði árið áður verið gerður samningur af hálfu ríkisins við starfsmannafélagið Sókn um hliðstæð réttindi.

Ég álít að þetta sé eðlilegur réttur foreldra og að sanngjarnt sé að slík ákvæði nái til allra launamanna. Nú eru þetta forréttindi opinberra starfsmanna, starfsmanna ríkisins, starfsmanna sveitarfélaga og starfsmanna í starfsmannafélaginu Sókn, en ég tel sjálfsagt og eðlilegt að þessi réttindi nái til allra launamanna og undrast satt best að segja að enn skuli ekki hafa verið samið í samningum aðila vinnumarkaðarins um þennan rétt.

Ég get að vísu upplýst, þótt ég hafi ekki nákvæmar upplýsingar um það, að í þeim samningum sem nú standa yfir milli Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins hefur mjög verið rætt um að réttindi af þessu tagi yrðu viðurkennd og kæmi þá væntanlega til kasta Alþingis að setja löggjöf um þetta efni. Mér er hins vegar sagt að samkomulag sé ekki orðið endanlegt um þetta atriði og enn sé nokkur ágreiningur og nokkur ýtingur um hver eigi að borga brúsann. Atvinnurekendur munu hafa mikla tilhneigingu til að koma þessum kostnaði alfarið yfir á ríkið, yfir á Tryggingastofnun ríkisins, þannig að Tryggingastofnunin endurgreiði atvinnurekendum þann kostnað sem af þessu hlýst, en það mál mun ekki vera frá gengið.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að það eigi að vera takmörk fyrir því að hve miklu leyti atvinnurekendur velta kostnaði vegna starfsmanna sinna yfir á skattgreiðendur, yfir á ríkisvaldið. Hér er um takmörkuð réttindi að ræða. Það er alls ekki svo að hver einasti maður njóti þessa heldur er hér miðað við að rétturinn skapist eftir fast starf hjá sama atvinnurekanda um nokkurt skeið. Þegar þannig stendur á finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að atvinnurekandinn greiði þennan kostnað. Hitt gæti verið til athugunar að þeir sem ekki næðu rétti sínum samkvæmt þessu frv. og þessum lögum fengju þá hliðstæð réttindi hjá Tryggingastofnun ríkisins.

En nóg um það. Við fáum sjálfsagt fréttir af því innan tíðar hvort eitthvað verður af þessu í samningum vinnuveitenda og verkalýðsfélaga og í hvaða formi það verður. Engu að síður er nauðsynlegt fyrir Alþingi að hyggja að þessu máli. Það kemur í hlut þess að gera það hvernig sem allt veltur.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þessu frv. verði vísað til hv. félmn. að lokinni þessari umræðu.