24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2714 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

264. mál, fjarvistarréttur foreldra

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. flm. þessa frv. er þetta ekki í fyrsta skipti sem frv. er lagt fram á hv. Alþingi. Ég hef áður gert grein fyrir minni afstöðu varðandi þetta mál, en ætla að endurtaka það í fáeinum orðum.

Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. Ég tel að þessi réttur ætti að ná til allra launþega og ætti að vera bundinn við þann rétt sem fólk hefur til greiðslna í veikindaforföllum. Þarna er verið að taka af rétti á veikindadögum til að sinna veikum börnum. Þess vegna tel ég óþarft að miða við 1550 vinnustundir á ári, eins og kemur fram í grg., og tel að þetta mætti vera einfaldara og miðast við áunninn rétt til greiðslu í veikindum.

Í öðru lagi er í 2. gr. talað um eina viku. Ég hef áður nefnt það hér að þetta, að nefna eina viku, segir ekki til um fjölda daga, hvort verið er að tala um fimm eða sjö daga. Þarna er ekki talað um eina vinnuviku sem er fimm dagar. Það er aðeins sagt: „Heimilt er foreldri að ráðstafa allt að einni viku.“ Þegar þetta ákvæði var samþykkt í samningum hjá BSRB breyttu félög úti á landi þessu orðalagi og settu í staðinn sjö daga þannig að það væri á hreinu hvað við væri átt. Ég tel að í lagagrein þurfi það að vera skýrara eða koma fram í grg. við hve marga daga er átt með þessu ákvæði.

Það er ánægjulegt að rætt skuli vera núna milli vinnuveitenda og verkalýðsfélaganna um að koma þessu á í samningum. Það er alltaf besta leiðin að slíkt sé ákveðið í samningum milli vinnuveitenda og launþega. Engu að síður finnst mér rétt að þetta sé sett í lög þar sem um er að ræða réttindi foreldra til að nota sinn áunna rétt til veikindaforfalla til að sinna börnum sínum. Þar af leiðandi tel ég rétt að setja þetta í löggjöf. Þetta er víða gert þótt það sé ekki í samningum. Það tíðkast mjög víða að atvinnurekendur leyfi foreldrum að taka veikindadaga sína út til að sinna veikum börnum. En það eru alltaf til margir vinnuveitendur sem ekki taka þátt í slíku.

Það er grundvallaratriði að fólk geti sinnt sínum börnum. Nógu ill eru þau tíðindi að við sláum nú met í slysatíðni hvað börn snertir. Þar spilar eflaust inn í að foreldrar þurfa að vera mjög mikið í burtu frá heimilum og börn eru mikið ein. Hvert það skref sem við tökum í þá átt að foreldrar geti verið meira heima er því örugglega til góðs.