24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2715 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

264. mál, fjarvistarréttur foreldra

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Það er e.t.v. ekki mörgu að bæta við þessa umræðu.

Eins og fram kom hjá hv. flm. hefur þetta mál verið til umfjöllunar fyrr í þessari hv. deild og þar af leiðandi verið til umfjöllunar í félmn. á tveimur undanförnum þingum. Á síðasta þingi bárust umsagnir um þetta mál og ég tel eðlilegt að hv. deild viti um viðhorf aðila vinnumarkaðarins á þessu stigi umfjöllunar málsins.

Það er skemmst frá að segja að auðvitað mælir Alþýðusamband Íslands eindregið með samþykkt þessa frv. eða gerði það þegar það var til umfjöllunar í fyrra. Það er auðvitað laukrétt, sem fram hefur komið, að þetta mál hefur verið þráfaldlega til umræðu í kjarasamningum á undanförnum árum, en ekki fengist sú niðurstaða í því sem er þekkust Alþýðusambandinu, ef ég má svo að orði komast.

Vinnuveitendasamband Íslands sendi jafnframt umsögn um þetta mál. Í þeirri umsögn er að því vikið að það séu fremur viðhorf Vinnuveitendasambandsins að hér sé um samningsmál að ræða. Reyndar gætir nokkurs þótta í því bréfi, ég skal viðurkenna það, þar sem er að því vikið, jafnvel berum orðum, að Alþingi eigi ekki að vera að skipta sér af svona málum. Tek ég ekki undir slíkan málflutning.

Hins vegar vil ég taka undir þá umsögn að því leyti að ég hefði fremur kosið að þetta mál yrði leitt til lykta á grundvelli frjálsra samninga. Hins vegar er alveg ljóst að í þessum málum er, eins og hér hefur raunar verið vikið að, um allverulega mismunun að ræða á vinnumarkaðnum milli þeirra aðila sem þessa réttar njóta óyggjandi á grundvelli samninga og hinna sem ekki hafa að bakstuðningi samningsgjörð í þessum efnum.

Það er líka rétt að í raun er um að ræða mismunun, og á ég þá við þá aðila sem ekki njóta þessa réttar á grundvelli samninga, einfaldlega vegna þess að það eru mjög mismunandi aðstæður í atvinnulífinu til að veita fólki leyfi til að vera heima, sem er gert í sumum tilvikum, þegar um veikindi barna er að ræða. Þar kemur líka fram mismunun. Að því er auðvitað að gá að þrátt fyrir líka stöðu varðandi atvinnureksturinn með tilliti til hinna ýmsu atvinnurekenda eru þeir mjög misliprir við sitt starfsfólk.

Það má gera ráð fyrir því að að þessu frv. samþykktu, sem ég skal ekkert fullyrða um hvort verður, mundi verða um að ræða einhvern kostnað sem einhver þyrfti þá að greiða. Nú er raunar deilt um það, eins og hér hefur komið fram, hvar hann skuli lenda, á ríkinu, á atvinnurekendum, á báðum aðilum eða hvað. Um það standa nokkrar deilur. Ég ætla ekki að kveða neitt upp úr með hvað skynsamlegast er í þeim efnum. Hitt er nokkuð ljóst í mínum huga að vegna þess eins og menn vita er þetta nokkuð „praktíserað“, ef ég má svo að orði komast, er þegar fyrir hendi að hluta til allverulegur kostnaður í atvinnulífinu af þessum sökum þannig að viðbótin er ekki alger með tilliti til þess að þessi réttur yrði færður í hendur allra launþega í landinu að því leyti sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Á þessu stigi er ekki ljóst hverju fram vindur í þeim samningum sem nú standa yfir og að sjálfsögðu bíða menn eftir niðurstöðu þar. Hvað snertir málsmeðferð af hálfu flm. hefði ég ráðlagt hv. flm. að stofna til meiri pólitískrar breiddar um meðferð málsins á fyrstu stigum. Nú vil ég sérstaklega taka það fram að mig gildir einu hvaðan gott kemur.