24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2716 í B-deild Alþingistíðinda. (2319)

264. mál, fjarvistarréttur foreldra

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Samkvæmt margföldum áskorunum hæstv. heilbr.- og trmrh. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég styð þetta frv. og tek þó undir þær athugasemdir sem fram komu hjá 8. landsk. þm.

Tilefni þess að ég kem hér upp er óbeint tengt þessu frv., þ.e. þeirri staðreynd að einföldum réttlætismálum eins og þessum skuli miða svo hægt í þinginu. Menn verða annaðhvort að fara að hugleiða grundvallarlega allt önnur vinnubrögð, og þá á ég við þá umræðu sem hefur átt sér stað um gjörbreytingu á skipan þingsins, þ.e. að skipa því í eina deild, eða þá að menn verða að koma sér saman innan þingsins um að flokka mál eftir eðli sínu og þá í þeim tilgangi að einföld réttlætismál eins og það sem hér um ræðir fari miklu greiðar í gegnum þingið en raun er. Það er einkennilegt og nánast kjánalegt að fylgjast með því að mál eins og þetta eru lögð hér fyrir þingdeildir ár eftir ár, sofna svo að hefðbundnum hætti í nefnd og verða síðan endurflutt á næsta þingi. Á meðan bíða þeir sem mál þessi snerta eftir úrlausn þeirra og gera sér ekki nema að takmörkuðu leyti grein fyrir möguleikum sínum og rétti. Það má kannske segja að í þessu dæmi mætti leysa málið í samningum fyrir alla aðila, en við vitum að svo verður ekki alltaf gert. Þetta er ekki lagasetning sem gengur á móti frjálsum samningsrétti, heldur fyrst og fremst lagagrein sem skilar einföldu réttlæti til þeirra sem það viðkemur.