24.02.1986
Efri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2716 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

264. mál, fjarvistarréttur foreldra

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm., sem tekið hafa til máls um þetta frv., fyrir ábendingar þeirra og undirtektir sem allar voru mjög eindregið jákvæðar og allar athyglisverðar.

Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir benti á að í þessu frv. væri réttur foreldra takmarkaður og að þetta næði ekki til alveg allra foreldra. Þetta er alveg laukrétt. Þetta kom líka fram í mínu máli. Ég setti frv. upp í nákvæmlega sama búningi og er á samningi opinberra starfsmanna við ríkið. Það er ástæðan fyrir því að frv. er á þennan veg en ekki hinn að ég taldi rétt, a.m.k. á fyrsta stigi, þegar málið væri flutt og kynnt, að það væri í þeim búningi sem ríkið hefur um samið við opinbera starfsmenn.

Hins vegar verð ég að viðurkenna að það eru ákveðnar ástæður fyrir því að frv. var samið á þennan veg en ekki einhvern allt annan. Það er alveg ljóst að þessi réttindi gætu ekki náð til allra launamanna á hinum almenna launamarkaði á þann veg að skyldan væri lögð á herðar atvinnurekenda. Það verður að vera eitthvert ákveðið fast vinnusamband milli launamannsins og atvinnurekandans til þess að það sé sanngjarnt að leggja þessa byrði á atvinnurekandann. Ég veit að hv. þm. Sigríður Dúna skilur það vel.

Svo ég taki dæmi: Ég ræð mig í vinnu hjá hv. þm. Sigríði Dúnu til að skúra þar gólf. Okkar vinnusamningur nær ekki nema út vikuna. Ég á að mæta þar á þriðjudegi og svo aftur á föstudegi. Ef það kemur upp að barn mitt veikist undir vikulokin og ég þarf að vera yfir því í eina viku væri kannske ekki sanngjarnt að hún þyrfti síðan að greiða mér laun þá vikuna sem fylgdi í kjölfarið.

Sem sagt: það er alveg ljóst að daglaunamenn, fólk sem vinnur hjá einum atvinnurekanda í dag og öðrum á morgun, geta ekki fallið undir regluna eins og hún er hér. Við verðum að finna eitthvað annað sem hentar því fólki. Það var einmitt þess vegna sem ég lauk máli mínu hér áðan með því að segja að ég teldi að Tryggingastofnun ríkisins gæti einmitt komið inn í myndina og ætti að koma inn í myndina þegar um væri að ræða fólk sem þessi lög gætu ekki náð til. Mér finnst ekki sanngjarnt og eðlilegt að leggja þessa skyldu á atvinnurekendur nema um sé að ræða fasta starfsmenn. Hvað á að teljast fastur starfsmaður eða hversu staðfast vinnusambandið þarf að vera til þess að okkur finnist sanngjarnt að leggja þessa kvöð á atvinnurekandann getur verið mjög svo teygjanlegt og sveigjanlegt.

Ég miða hins vegar hér, eins og gert var í samningum BSRB, við það vinnusamband sem í lögum veitir mönnum uppsagnarfrest frá störfum og laun vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Það eru ákveðin lög sem tiltaka hvað vinnusambandið þarf að hafa staðið lengi og hvers eðlis það þurfi að vera til að sá réttur skapist. Þegar um þetta var samið milli ríkisins og BSRB fannst mönnum eðlilegt að miða við þessi lög. Ég hygg að það séu ákveðin rök fyrir því. En ég viðurkenni hins vegar athugasemd þm. mjög fúslega. Hún var alveg réttmæt og eðlileg. Við þurfum fyrst og fremst að hyggja að því hvað hægt væri að gera fyrir það fólk sem ekki hefur verið svo lengi í störfum hjá sama atvinnurekanda sem hér er gert ráð fyrir eða er yfirleitt aldrei nema stuttan tíma hjá sama atvinnurekanda.

Varðandi hlutastörfin hygg ég að það sé ekkert því til fyrirstöðu að þetta nái til hlutastarfa. Ég efast t.d. ekkert um að kennari í hálfu starfi eða annar starfsmaður ríkisins í hlutastarfi nýtur þessa réttar eins og þeir sem eru í fullu starfi.

Ég get svo að lokum tekið undir það sem kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur. Orðalagið sem er í frv. er gallað. Það er alveg rétt hjá henni. Að segja að rétturinn gildi í eina viku er kannske óþarflega óljóst. Eðlilegra væri að segja þarna sjö dagar. En þetta skýrist sem sagt einfaldlega af því að frv. var lagt fram í nákvæmlega sama formi og gildir í samningi opinberra starfsmanna við ríkið.