25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2744 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

279. mál, kaup ríkissjóðs á húseign í Borgarnesi

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í 1. lið fsp. er spurt um það hvenær gengið var frá kaupum ríkissjóðs á fasteigninni Dílahæð 3 handa heilsugæslulækni í Borgarnesi.

Með bréfi heilbr.- og trmrn., sem dags. var 17. jan. s.l. og barst fjmrn. 21. sama mánaðar, er skýrt frá kaupum á fasteigninni Dílahæð nr. 3 í Borgarnesi til afnota fyrir heilsugæslulækni. Jafnframt er minnt á að í hlut ríkissjóðs komi að greiða 85% af kaupverðinu og óskað eftir umframfjárveitingu fyrir þessari fjárhæð. Með bréfinu fylgdi ljósrit af kaupsamningi sem dagsettur var 6. nóv. Kaupsamningurinn var þannig gerður 6. nóv., en ósk barst frá heilbr.- og trmrn. til fjmrn. með bréfi sem dags. er 17. jan. um aukafjárveitingu í þessu skyni.

Í öðru lagi er spurt: Hver tók ákvörðun um kaup ríkissjóðs á þessari eign?

Samkvæmt ljósriti af kaupsamningi sem fjmrn. barst með beiðni heilbr.- og trmrn. kemur fram að stjórn heilsugæslustöðvarinnar í Borgarnesi hefur tekið ákvörðun um kaupin og var kaupsamningurinn gerður með fyrirvara um samþykki heilbr.- og trmrn. Með bréfi dags. 25. okt. 1985 til stjórnar heilsugæslustöðvar í Borgarnesi hafði heilbr.- og trmrn. hins vegar samþykkt fyrir sitt leyti sölu á gamla læknisbústaðnum við Skúlagötu í Borgarnesi, enda yrði andvirði hússins varið til kaupa á nýju íbúðarhúsnæði fyrir heilbrigðisstarfsfólk á staðnum eða til annars stofnkostnaðar vegna heilsugæslu í umdæminu.

Í þriðja lagi er að því spurt hvenær heimild til kaupanna hafi verið veitt.

Í frv. sem lagt var fram til fjárlaga s.l. haust var ekki gert ráð fyrir því að heimild til þessara kaupa yrði samþykkt. Við meðferð frv. hér á hinu háa Alþingi var að tillögu fjvn. samþykkt heimild til þessara kaupa, en eins og áður hefur komið fram höfðu þau þá verið gerð með samningi frá 6. nóv. með fyrirvara um samþykki heilbr.- og trmrn.

Í fjórða lagi er spurt hvort auglýst hafi verið eftir húsi fyrir heilsugæslu í Borgarnesi og hvort kannað hafi verið með einhverjum hætti hvort til sölu væru aðrar fasteignir en Dílahæð 3 í Borgarnesi er betur kynnu að henta í þessu augnamiði.

Þessi kaup fóru ekki fram á vegum fjmrn. og mér og ráðuneytinu er því allsendis ókunnugt um hvort auglýst hefur verið eftir húsnæði eða aðrir möguleikar kannaðir, enda fóru kaupin ekki fram á vegum fjmrn.

Í sjötta lagi er spurt: Hvert var kaupverð fasteignarinnar á Dílahæð 3 og hverjir greiðsluskilmálar? Samkvæmt kaupsamningi nam kaupverðið samtals 4,3 millj. kr. sem greiðist allt á einu ári talið frá afhendingardegi eignarinnar 1. febr. 1986 þannig að 1. febr. greiðist 1 millj. kr., 1. maí 1 millj., 1. ágúst 1 millj., 1. nóv. 500 þús. og 1. febr. 1987 800 þús. kr.

Í sjöunda lagi er spurt að því hvort kaupverð sé eðlilegt, svo og greiðsluskilmálar, að mati fjmrh. miðað við markaðsverð sambærilegra fasteigna í Borgarnesi að undanförnu.

Eins og fram hefur komið fóru þessi kaup ekki fram á vegum ráðuneytisins og kaupsamningur var ekki gerður með vitund þess þannig að ráðuneytið hafði ekki aðstöðu til að kanna þessi atriði svo sem venja er til þegar ráðuneytið sér um kaup á fasteignum, en ég hef gert ráðstafanir til þess að biðja Fasteignamat ríkisins um að meta þennan kaupsamning með hliðsjón af markaðsverði á fasteignum í Borgarnesi á þessum tíma.