25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2749 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

255. mál, kostnaður af starfsemi Krabbameinsfélags Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. má svara eins og hér fer á eftir samkvæmt nýjustu upplýsingum Krabbameinsfélags Íslands.

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir starfsárið 1985 var heildarrekstrarkostnaður fyrir Krabbameinsfélag Íslands 37 122 336 kr., en tekjur sama árs 34 234 291 kr. Af tekjum félagsins komu 12,5 millj. kr. sem framlag úr ríkissjóði, en af þeirri upphæð voru 500 þús. sérstaklega ættuð til fræðslustarfsemi. Félagið hafði um 10 millj. í tekjur fyrir útselda þjónustu. Frá leitarstöð 3 444 275 kr., frumurannsóknastofu 2 702 958 kr. og röntgendeild 2 181 540 kr., en á síðastnefndu deildinni eru aðeins rannsakaðar konur sem vísað er til deildarinnar frá læknum vegna einkenna í brjóstum.

Tekjur frumurannsóknastofu rýrnuðu um 3 millj. á árinu 1985 þar sem ekki hafði fengist greitt fyrir útselda vinnu. Fyrir liggur í fjmrn. beiðni um aukafjárveitingu af þessum sökum og hygg ég að hún sé annaðhvort þegar afgreidd, án þess að þar um sé komin vitneskja í mínar hendur, eða þá rétt um það leyti að vera afgreidd. Helstu tekjustofnar aðrir eru af rekstri happdrættis, sölu minningarkorta, áheitum og gjöfum.

Annar hluti fsp. Á leitarstöð fellur allur kostnaður varðandi skipulagningu, undirbúning, stjórnun og faglegt uppgjör leitarstarfsins, hvort heldur konan kýs að koma til eftirlits til Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð, til sjálfstætt starfandi sérfræðinga á læknastofum eða til heilsugæslulækna og sjúkrahúslækna. Á árinu 1985 mættu um 19 800 konur til eftirlits hvaðanæva af landinu, en það er um 70% þeirra kvenna sem fengu innköllunarbréf frá leitarstöðinni. Leitarstöð Krabbameinsfélagsins framkvæmdi um 10 þús. skoðanir. Samanlagður kostnaður Krabbameinsfélagsins vegna reksturs leitarstöðvar og frumurannsóknastofu var árið 1985 18 808 838 kr.