25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

254. mál, endurskoðun fjarskiptalaga

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 484 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. um endurskoðun fjarskiptalaga.

Svo er mál með vexti að í fyrravor, þegar frv. til útvarpslaga var hér mjög til umræðu á hinu háa Alþingi og var svo samþykkt sem lög, var af hálfu talsmanna Alþfl. lögð mikil áhersla á að inn í útvarpslög kæmu ákvæði um svokölluð boðveitukerfi eða kapalkerfi eftir því hvaða orð menn kjósa að nota. Öllum tilmælum og tillögum um slíkt var hafnað á þeirri forsendu að hafin væri endurskoðun fjarskiptalaga og þessi ákvæði ættu heima í fjarskiptalögum fremur en útvarpslögum. Og því er nú spurt á þskj. 484:

„1. Hverjir annast þá endurskoðun fjarskiptalaga sem greint var frá á Alþingi í fyrra að væri hafin?

2. Hvenær má ætla að endurskoðuninni ljúki?"