30.10.1985
Efri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

75. mál, umferðarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég fylgi hér úr hlaði frv. til umferðarlaga. Frv. þetta, sem er mikið að vöxtum, var lagt fram á síðasta þingi. Var því vísað til hv. allshn. en kom ekki til frekari umræðu í þinginu.

Frv., sem samið var af umferðarlaganefnd, er nú lagt fram efnislega óbreytt. Það felur í sér heildarendurskoðun á umferðarlögum sem eru að stofni til frá árinu 1958 þegar hér voru fyrst sett heildarlög um umferð. Á þeim hafa verið gerðar ýmsar breytingar á undangengnum árum, þær veigamestu í tengslum við lögleiðingu hægri umferðar árið 1968.

Við samningu frv. var höfð hliðsjón af breytingum sem á undanförnum árum hafa verið gerðar á umferðarlögum og umferðarreglum annars staðar á Norðurlöndum, en þær breytingar voru gerðar á grundvelli tillagna samnorrænnar nefndar um umferðarmál og byggðust á alþjóðlegu samstarfi um umferðarmál, m.a. alþjóðasamningi um umferð er gerður var í Vínarborg 1968. Ef frv. þetta verður samþykkt mun Ísland geta gerst aðili að þeim samningi.

Við samningu frv. var og höfð hliðsjón af hérlendum aðstæðum og leitaði nefndin sem samdi frv. eftir ábendingum og óskum frá fjölmörgum aðilum sem láta sig umferðarmál og umferðaröryggi varða.

Í framsögu með frv. þessu á síðasta þingi gerði ég ítarlega grein fyrir efni frv. og einstakra kafla þess. Tel ég ekki rétt að fara nánar út í þau atriði hér og vísa til fyrri framsögu og athugasemda með frv., en það felur í sér fjölmargar breytingar og nýmæli borið saman við gildandi lög. Eru helstu breytingar taldar 47 svo sem greint er á bls. 32 og 33 í frv.

Eins og ég gat um í upphafi er frv. þetta mikið að vöxtum. Það ber með sér að það þarf að skoða gaumgæfilega og vænti ég þess að það muni þingnefnd gera. Frv. var á síðasta vetri sent ýmsum aðilum til umsagnar og bárust allshn. margar athugasemdir sem augljóslega þarf að kanna vandlega. Það varð niðurstaðan að flytja frv. efnislega óbreytt frá síðasta þingi. Ljóst er að margar athugasemdanna eru þess eðlis að þær hefði mátt taka til greina, en aðrar eru þannig að rétt er að kanna þær nánar í þingnefnd. Varð því að ráði að leggja frv. fram óbreytt.

Ég treysti nefndinni til að kynna sér efni frv. og umsagna vel og leita samráðs sérfróðra manna um meðferð þess. En jafnframt vil ég beina þeirri eindregnu ósk til nefndarinnar, sem fær þetta til meðferðar, að hefja þá vinnu nú þegar þannig að nægur tími gefist til að vinna nefndarstörfin.

Rétt er að taka fram að frv. gerir ráð fyrir gildistöku 1. júní 1986. Er það sami tími og tilgreindur var í fyrra frv. en ætla verður að nauðsyn beri til að breyta því ákvæði, enda verður að ætla tíma til að ganga frá ýmsum reglugerðum sem setja á skv. frv. og einnig til að undirbúa kynningu á hinum nýju umferðarreglum og óðrum nýmælum. En þetta dagsetningarákvæði mun koma betur í ljós þegar nefndin hefur hafið sín störf og það sést fyrir endann á þeirri vinnu.

Hæstv. forseti. Umferð og umferðarmál eru okkar öllum vaxandi áhyggjuefni. Nær daglega berast okkur til eyrna fregnir af umferðarslysum þar sem einhver hefur slasast. A þriðja tug láta lífið að jafnaði ár hvert og eignatjón er gífurlegt. Nauðsyn ber til að vinna gegn þessari þróun og bæta umferðina og auka umferðaröryggið. Einn liður í þeirri viðleitni eru skýrar umferðarreglur sem fylgt er eftir. Að því er þessu frv. ætlað að stuðla.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.