25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

254. mál, endurskoðun fjarskiptalaga

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það er ekki rétt að á þeim tíma sem frv. til núgildandi útvarpslaga var til meðferðar hér á Alþingi um þetta leyti fyrir ári hafi verið í undirbúningi frv. til nýrra fjarskiptalaga. Í umræðum á Alþingi 27. febr. 1985 um útvarpslagafrv. svaraði ég sams konar fsp. frá hv. 5. þm. Austurl. á eftirfarandi hátt:

„Það er á misskilningi byggt að í samgrn. sé unnið að frv. til l. um þessi mál, enda ný lög um fjarskipti ekki ársgömul. Aftur á móti starfar sérstök sjö manna nefnd á vegum ráðuneytisins að samningu reglugerða um fjarskiptamál og á grundvelli þessara nýju fjarskiptalaga. Hér er um vandasamt starf að ræða sem mun taka lengri tíma en bæði ég og aðrir gerðu ráð fyrir fyrst og fremst vegna þeirra fjölmörgu atriða sem fjalla þarf um.“

Í framhaldi af þessum orðum mínum á Alþingi fyrir um það bil ári lét ég þess getið að ef störf nefndarinnar leiddu til þess að nauðsyn sé talin á að breyta ýmsum ákv.eðum núgildandi laga mundi ég beita mér fyrir að svo yrði gert. Með bréfi frá nefndinni dags. 30. jan. s.l. lauk nefndin störfum. Hún samdi drög að þremur reglugerðum um fjarskiptamál á grundvelli laga um fjarskipti:

1. Reglugerð um eftirgjöf á hinu fasta ársfjórðungsgjaldi fyrir venjulegan síma hjá elli- og örorkulífeyrisþegum.

2. Reglugerð um notendabúnað til tengingar við hið opinbera fjarskiptakerfi. Hún fjallaði m.a. um innflutning og smíði notendabúnaðar, viðurkenningu Póst- og símamálastofnunar á slíkum búnaði, málskot, synjanir stofnunarinnar á viðurkenningu á búnaði og starfsréttindi til að annast uppsetningu.

3. Reglugerð um leynd og vernd fjarskiptatækja sem dags. er 31. jan. s.l. Reglugerðin er sett skv. VI. kafla laga um fjarskipti og fjallar um leynd fjarskipta, þagnarskyldu starfsmanna fjarskiptavirkja og um vernd fjarskipta, þar á meðal hverjir skulu hafa aðgang að fjarskiptavirkjum.

Hinn 8. jan. s.l. var sett ný reglugerð um starfrækslu jarðstöðvar fyrir móttöku sjónvarpsefnis um fjarskiptatungl. Í fjarskiptalögum er í fyrsta sinn veitt heimild til að víkja frá einkarétti Póst- og símamálastofnunar til að stofna og reka fjarskiptavirki.

Nokkuð hefur verið rætt um endurskoðun fjarskiptalaga og ég tók það fram hér í umræðum fyrir tæpu ári um útvarpslög að ég vonaðist til þess að nefndin mundi ljúka störfum um eða eftir mitt s.l. ár. Það fór á annan veg. Störf nefndarinnar urðu miklu meiri en ráð hafði verið fyrir gert. Þetta var vandasöm endurskoðun, en ég taldi og hef talið frá byrjun að ekki væri ráðlegt að byrja endurskoðun á fjarskiptalögum fyrr en reglugerðarsamningu væri lokið. Nú er starfi nefndarinnar lokið, eins og ég sagði hér áðan, og þá verður fljótlega skipuð nefnd til að endurskoða fjarskiptalögin í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er og þeirra öru breytinga sem átt hafa sér stað.

Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það eru enn óleyst atriði um boðveitur sem við köllum svo. Ég veit ekki hvaða nafn verður ofan á að lokum, en allir vita við hvað er átt. Þetta er mjög vandasamt verk, en við vildum, og það í samráði við helstu tæknimenn á þessum sviðum, að eftir þessu væri beðið áður en hæfist öðru sinni endurskoðun fjarskiptalaga.

Þau fjarskiptalög sem núna eru í gildi tók æðimörg ár að endurskoða. En ég hygg, og þá hef ég ráð þeirra sem betur þekkja til tæknilega, að endurskoðun þessara laga muni taka tiltölulega skamman tíma og jafnvel skemmri tíma en setning þeirra reglugerða sem ég hef nú þegar greint Alþingi frá.