25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2755 í B-deild Alþingistíðinda. (2352)

254. mál, endurskoðun fjarskiptalaga

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil nú láta það koma fram að ég hef ekki sagt Alþingi annað en sannleikann. Ég segi í lok ræðu . . . (EG: Ég var að vitna í orð hæstv. menntmrh.) Já, ég skal játa það að sem leikmaður á þessu sviði hélt ég að samning reglugerða mundi taka tiltölulega skamman tíma. Ég hef hvað eftir annað rætt við formann þeirrar nefndar sem nú fer með þessi mál og hann hefur skýrt mér frá hvað margt sé þarna flókið og þurfi ítarlegrar athugunar við. Því skil ég núna, miklu betur en áður, að þetta tekur óhjákvæmilega lengri tíma en við hefðum kosið. En ég get fullvissað hv. fyrirspyrjanda og aðra um það að ég hef fullan hug á að fylgja þessum störfum vel eftir og í framhaldi af því að hefja nýja endurskoðun fjarskiptalaga. Svoleiðis að mín skoðun hefur verið óbreytt frá því sem ég skýrði Alþingi frá hér í febrúarmánuði.

Ég var því miður ekki viðstaddur þegar hæstv. fyrrv. menntmrh. flutti þá ræðu sem fyrirspyrjandi vitnar í. Getur þetta ekki stafað af einföldum misskilningi, að hæstv. menntmrh. hafi átt við þá nefnd sem vann að samningu reglugerða á grundvelli fjarskiptalaga? Er það ekki allt sem hefur gert þennan misskilning? Ekki trúi ég því að nokkur ráðherra fari að segja frá því að endurskoðun sé í gangi sem ekki er komin af stað. Ég get ekki ímyndað mér að um annað sé að ræða en þetta. En þessi endurskoðun kemur til með að eiga sér stað og frá því verður ekki hvikað, og það finnst mér vera höfuðatriðið. Annað hefur einnig verið stórt og veigamikið atriði í þessu, að sjá þessar reglugerðir verða til og hvernig þær líta út fyrir hina væntanlegu nefnd sem kemur til með að gera í framhaldi af því nauðsynlegar tillögur til breytinga á gildandi fjarskiptalögum. Ég er sama sinnis og áður að fjarskiptalögin eiga að vera í höndum samgrh. sem fer með yfirstjórn póst- og símamála og ég hygg að um það þurfi ekki að verða neinar stórdeilur og við verðum að taka tillit til þess að þeim einkarétti sem einu sinni var verðum við að beita með allt öðrum hætti í framkvæmdinni við breyttar aðstæður og með breyttri tækni.