25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2756 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

254. mál, endurskoðun fjarskiptalaga

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég sé mig knúna til þess að vísa því algjörlega á bug og andmæla því harðlega sem hv. 5. landsk. þm. fullyrðir, að ég hafi farið með ósannindi í ræðu minni um útvarpslagafrv., um kaflann þar sem hv. þm. vék að boðveitum. Hv. þm. las sjálfur upp orðréttan kaflann og í þeim kafla felst alls ekki fullyrðing um að nefnd hafi verið skipuð. Hann greinir sjálfur frá því að hann hafi gripið fram í og spurt hvort tiltekin nefnd hafi verið skipuð og þáv. menntmrh., þ.e..sú sem hér stendur, hafi þá sagt: Það má ég segja, annars fór hv. samgrh. utan í morgun. - Hins vegar vissi ég að það var unnið að skoðun á þessum lögum og það er ekki hægt að setja reglugerð á grundvelli laga án þess að skoða þau viðkomandi lög og í því er auðvitað fólgin athugun þessa máls og þegar sagt er að nefnd sem vinnur að máli muni gera þetta og þetta, eða geri þetta og þetta, eins og þarna stendur, er einfaldlega verið að nota þá íslensku málvenju sem mælt var sérstaklega fyrir í seinasta þætti Ríkisútvarpsins um íslenskt mál. Íslenskufræðingurinn mótmælti harðlega notkun sagnorðsins „að munu“. Hann telur að það sé alveg óþarft í íslensku máli að segja ævinlega: þetta mun gert o.s.frv., nefnd mun vinna í stað þegar nefnd vinnur að, það getur verið hvort heldur er nútíð eða framtíð. En það lá ljóst fyrir að það var verið að vinna að reglum á grundvelli þessara laga og að skoðun samgrh. hafði margoft komið fram á eignarhaldi boðveitna eins og raunar hér var ítrekað.