25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2756 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

254. mál, endurskoðun fjarskiptalaga

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Það er illt fyrir hæstv. núv. heilbrmrh. að geta ekki breytt því sem stendur í þingtíðindum frá í fyrra, en ég vil bara vekja athygli á því hér að ég vitnaði til svars hennar og geri það enn á ný, með leyfi forseta:

„Við höfum æskt þess, sjálfstæðismenn, við hann að hin nýja nefnd sem vinnur að endurskoðun nýju fjarskiptalaganna taki þetta efni sérstaklega til meðferðar.“

Þetta tekur auðvitað af öll tvímæli. Ég hef svo sem ekki nennu til að vera að elta ólar við þetta frekar. (Heilbrmrh.: Vill ekki hv. þm. lesa áfram.) Jú, jú, ég er búinn að lesa það. Spurt var: „Hefur sú nefnd verið skipuð?" „Það má ég segja . . ., " segir hæstv. ráðherra. (Heilbrmrh.: Er þetta fullyrðing?)

Ég dró það mjög í efa í fyrra að þessi nefnd hefði verið skipuð, en þá var hinu gagnstæða haldið mjög stíft fram eins og hér kemur fram í þingtíðindunum. En ég tek alveg undir með hæstv. samgrh. að það má vissulega færa að því rök að ákvæði um boðveitur eigi heima í fjarskiptalögum. Aðalatriðið er að reglur verði settar um þessi mál og það var það sem við lögðum megináherslu á í fyrra en þá var ævinlega sagt að það væri verið að endurskoða fjarskiptalögin. Að vísu sagði hæstv. samgrh. það ekki vegna þess að hann tók ekki þátt í þessum umræðum. En þá var það ævinlega sagt að það væri verið að endurskoða þessi lög og sjálfsagt má finna fleiri dæmi um það í þingtíðindunum.