25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2758 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

251. mál, stofnun húsfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég leitast við að svara þessari fsp. Eins og öllum er kunnugt var Byggingarfélag verkamanna í Reykjavík stofnað 5. júlí 1939. Frá stofnun þess til ársins 1971 byggði félagið 526 íbúðir í 15 sjálfstæðum byggingarflokkum skv. sundurgreiningu sem hægt er að leggja fram. Byggingarflokkarnir eru sem sé 15. Hver byggingarflokkur fékk sjálfstætt lán til byggingarframkvæmda úr Byggingarsjóði verkamanna og hefur frá upphafi verið rekinn sem sjálfstæð rekstrarleg eining, óháð fjölda húsa í byggingarflokknum. Á sama hátt er hver byggingarflokkur sjálfstæð viðhaldsleg eining þar sem íbúðareigendur greiða hlutfallslega í viðhaldssjóð eftir stærðarhlutföllum íbúðanna. Greiðslur til viðhalds eru í samræmi við viðhaldsþörf hverju sinni skv. beiðnum íbúðareigenda og mati viðhaldsfulltrúa félagsins.

Þegar ný lög um verkamannabústaði tóku gildi var ákveðið að Byggingarfélag verkamanna í Reykjavík fengi að halda áfram starfsemi sinni og yrði sérliður eins og hér hefur verið skýrt frá, undir 66. gr. núgildandi laga. Hlutverk félagsins breyttist mjög þannig að það er í raun að innheimta vexti og afborganir af eldri lánum og að sjá um viðhald sameiginlega á hverjum byggingarflokki fyrir sig.

Þegar reglugerðin var sett um nýju lögin var það gert með hliðsjón af þessu, að eftir því sem kom fram hjá stjórn Byggingarfélags verkamanna virtist vera útilokað að aðskilja þetta í einingar þannig að reglugerðin var sett fyrir hvern byggingarflokk fyrir sig. Hins vegar var ekkert því til fyrirstöðu að stofna sérhúsfélag fyrir hvert hús ef um það næðist samkomulag. Og það hefur sem sagt verið í vinnslu síðan þ.e. að stjórn Byggingarfélags verkamanna, sem stýrir þessu félagi skv. lögum og ákveðnum félagssamþykktum sem voru síðast gefnar út og staðfestar 28. nóv. 1984, heldur þannig á þessu máli að ekki er sundurliðaður kostnaður fyrir viðhald hvers húss, eða hverrar íbúðar, heldur í einu lagi fyrir hvern byggingarflokk fyrir sig. Þetta þýðir það að til þess að hvert hús geti fengið þá meðferð sem óskað er eftir þarf að gera þetta sérstaklega upp og um það hefur staðið ágreiningur milli stjórnar og ýmissa félaga en þessi breyting þó aldrei fengist staðfest á aðalfundum félagsins, hvað þetta snertir.

Til þess að gera langt mál stutt er hlutverkið alveg augljóst. Það er í 11. gr.:

„Stjórn félagsins skal sjá um allt ytra viðhald húsa ásamt lögnum í jörðu sem lagðar voru á vegum félagsins. Komi í ljós að viðhaldsþörf sé vegna gáleysis eða kæruleysis íbúa getur stjórn félagsins gert þeim að endurgreiða viðhaldskostnaðinn í viðhaldssjóð viðkomandi byggingarflokks. Íbúðareigendum innan sama byggingarflokks er heimilt að taka sameiginlegt viðhald flokksins í sínar hendur í samræmi við ákvæði laga um Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1. júlí 1984. Kostnaður við allt sameiginlegt viðhald sem stjórn félagsins annast framkvæmdir á skal lagður á viðkomandi byggingarflokk í heild en síðan jafnað niður á íbúðareigendur eftir eignarhlutföllum þeirra. Stjórninni er heimilt að auka þátttöku viðhaldssjóðs í ýmsum sameiginlegum kostnaði telji hún það hagkvæmt eða um það beinar skriflegar óskir meiri hluta íbúðareigenda hvers byggingarflokks.“

Það er þess vegna ljóst að þetta er innanfélagsvandamál sem verður að leysa og í samræmi við það sem hv. 8. þm. Reykv. las hér upp áðan hef ég haldið fundi, síðast núna í janúar, með þessum aðilum ásamt með stjórn Byggingarfélags verkamanna í Reykjavík, og reynt að leysa þennan ágreining. Ég hef falið stjórninni, stjórn Byggingarfélags verkamanna, að gera upp hvern byggingarflokk fyrir sig þannig að það komi greinilega í ljós hvert viðhald hefur verið á hverri einingu og hvernig það stendur gagnvart þessum svokallaða hússjóði eða viðhaldssjóði. Það er gert ráð fyrir að hraða þessu eftir föngum og skv. lögum hefur ráðuneytið heimild til þess að láta eftirlitsmenn fara niður í þetta mál og strax og þessu lýkur, sem ég vona að verði alla vega fyrir sumarið, verður gengið í það að semja nýja reglugerð þannig að hver eining geti myndað sérstakt húsfélag eins og virðist vera mikill vilji fyrir í félaginu þó ekki sé samt algjör einhugur um það eins og það hefur komið fram í fundargerðum. Það er unnið að þessu máli eftir föngum.