30.10.1985
Efri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

75. mál, umferðarlög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta frv. til umferðarlaga til meðferðar og því er ekki ástæða til að fjalla um það nú í smáatriðum. Ég get þó ekki látið hjá líða að koma inn í þessa umræðu við þetta tækifæri þó að það verði e.t.v. að einhverju leyti almennt um umferðarmálin.

Ég fagna því heils hugar að frv. kemur nú svo snemma fram, enda varla ástæða til að draga framlagningu þess þar sem hér er um að ræða endurflutning sama frv. frá því í febrúar s.l. eins og reyndar kom fram í máli hæstv. ráðh.

Ég tek undir það og legg áherslu á þýðingu þess að málið verði afgreitt á þessu þingi. Væntanlega flýtir það fyrir að frv. var sent til umsagnar í febrúar s.l. og vonandi eru allar þær umsagnir handbærar. Fram kom í máli hæstv. ráðh. að e.t.v. hefði verið ástæða til að breyta einhverju í frv. vegna þeirra ábendinga sem þar hefðu komið fram en ákveðið var að gera slíkt ekki. Ég skal ekki leggja dóm á það en nefndin kemur væntanlega til með að skoða allar þessar umsagnir rækilega og fara ofan í þau atriði sem þar er bent á.

Ég hef raunar ekki áhyggjur af því að þetta mál komist ekki í gegnum þessa hv. deild. Ég óttast fremur að það verði erfiðara í hv. Nd. sú er a.m.k. reynslan undanfarin þing að frumvörp, sem hafa verið flutt hér í hv. Ed. um úrbætur á umferðarlögunum og hafa a.m.k. tvisvar, ef ekki oftar, verið afgreidd úr Ed. til Nd., hafa ýmist verið svæfð þar - er ég þá með í huga ljósafrv. svonefnda og þarf víst ekki að tíunda það fyrir hv. þdm. hvað þar er átt við, svo ítarlega höfum við rætt það frv. hér í þessari hv. deild, enda samþykkt samhljóða í deildinni á síðasta þingi - eða felld eins og fór fyrir frv. um sektarákvæðin varðandi vanrækslu á notkun bílbelta, en það var, eins og menn væntanlega muna, fellt á jöfnum atkvæðum í Nd. á s.l. vori. Þess verður að vænta að það takist að afgreiða þetta frv. farsællega á þessu þingi og það ber vissulega að vinna ötullega að því.

Ég vil nefna nokkur atriði sem ég tel að verði að flytja brtt. við og vænti samvinnu í allshn. um það. Það er m.a. varðandi ljósatímann. Í stað þess að í frv. er gert ráð fyrir að hann verði lögleiddur allan sólarhringinn frá 1. okt. til 1. apríl, þá verði sá tími miðaður við 1. sept. til 1. maí. Eru þá höfð í huga þau yfir 40 þús. börn sem hefja skólagöngu 1. sept. á haustin. En þetta er samhljóða frv. sem við samþykktum hér í Ed. á s.l. þingi og sofnaði í allshn. Nd. eins og ég nefndi áðan. Í því frv. var einnig ákvæðið um skyldu ökumanna gagnvart skólabifreiðum sem við höfum rætt hér. Fer ég ekki frekar út í þá sálma því að þetta ákvæði er góðu heilli í þessu frv.

Það eru mörg atriði frv. sem mætti nefna og eru til bóta, svo sem vernd barna og fatlaðra í umferðinni. Í heildina er ástæða til að fagna því að sérstök áhersla er lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir með þessu frv. Ég bendi þó aftur á eitt atriði sem vantar, þ.e. lögbinding hvíta stafsins sem blindir leggja mikla áherslu á. Það er að vísu reglugerðarákvæði sem var sett af Auði Auðuns þáv. dómsmrh., en það vantar að lögleiða þetta atriði.

Þá vil ég nefna sérstaka slysarannsóknarnefnd sem hafi það hlutverk að rannsaka orsakir alvarlegra slysa í umferðinni á svipuðum grundvelli og rannsóknarnefndir flug- og sjóslysa. Þá þarf einnig að athuga nánar skipan Umferðarráðs.

Ég vænti þess að það verði góð samstaða - enda á ég ekki von á öðru - í allshn. um að flytja brtt. við frv. um þessi tilteknu atriði sem ég hef nefnt og sjálfsagt eiga þau eftir að verða fleiri áður en upp er staðið. En meginmálið er að frv. til umferðarlaga, sem samþykkt verður, verði vel aðgengilegt almenningi og einnig að vel verði staðið að því að kynna það almenningi áður en það tekur gildi.

Ég tek undir það, sem hæstv. ráðh. nefndi, að gildistaka laganna, sem er miðuð við 1. júní n.k., er trúlega, eins og nú er komið, of skammur aðlögunartími, enda var miðað við að lögin hefðu verið afgreidd á seinasta þingi og þá hefði þetta verið eins árs aðlögunartími. Eins og hann nefndi réttilega þarf að setja ýmis atriði í reglugerð vegna breytinga á þessum lögum. Mig langar að skjóta hér örfáum atriðum inn í áheyrn hæstv. ráðh. varðandi það. Þá hef ég í huga ljósabúnað bifreiða. Það ætti að athuga gaumgæfilega hvort ekki væri nauðsynlegt að setja í reglugerð að allar bifreiðir, sem í fyrsta lagi verði fluttar til landsins eftirleiðis, verði þannig útbúnar að það kvikni á ljósunum um leið og bifreiðin er ræst og einnig að athuga hvort jafnvel ætti að gera átak í því að slíkum útbúnaði verði komið í allar bifreiðir. Mér skilst að ekki séu mikil vandkvæði á að gera það en auðvitað einhver kostnaður sem mætti þá athuga hvernig best væri að standa að svo að hann komi sem léttast niður á eigendum bifreiðanna.

Óhætt er að segja að mikið og gott starf hefur verið unnið af ýmsum í þjóðfélaginu til að vekja vegfarendur til umhugsunar um umferðarmálin. Þar skal fyrst nefna Umferðarráð sem hefur það hlutverk skv. lögum. Þar má minna á það góða starf sem unnið er með umferðarskólanum Ungir vegfarendur og einnig allt það fræðslustarf sem Umferðarráð hefur með höndum. Þá er vissulega ástæða til að nefna þá aðila sem best þekkja slysin og afleiðingar þeirra, umferðarlæknisfræðifélagið og landlækni í fararbroddi lækna varðandi þessi mál.

Umferðarráði er ætlað skv. lögum að sinna fræðslu- og áróðursstarfi, þ.e. fyrirbyggjandi starfi. Því miður virðast menn ekki gera sér nægilega ljóst eða viðurkenna þýðingu þessa forvarnarstarfs ef dæma má af því takmarkaða fjármagni sem Umferðarráði er skammtað á hverju ári. Það er fróðlegt að sjá það í skýrslu sem nú hefur verið dreift hér til þm. Á síðustu bls. hennar kemur fram í töflu hlutfall ríkisframlags til Umferðarráðs af tekjum ríkisins af bílum. Þegar best lét - það var á bilinu 1975-1976 - var þetta framlag 1,70 kr. af hverjum 1000 kr. af tekjum ríkisins af bílum en er nú komið niður í 1 kr. eða 1 promill. Það segir sig sjálft að það ætti að vera búið að stórauka þetta hlutfall ef Umferðarráð ætti að geta sinnt því starfi sem því er ætlað lögum samkvæmt.

Í þessu sambandi má kannske benda á að í fjárlagatillögum Umferðarráðs fyrir árið 1986 var farið fram á 10,9 millj. kr. en ég held að ég fari rétt með að því séu ætlaðar 5,7 millj. Af þessum 10,9 millj. voru 3 millj. ætlaðar vegna gildistöku laganna og þeirrar kynningarstarfsemi sem hefði þurft að fylgja í kjölfar lagasetningarinnar. Þetta ættu menn að hugleiða. Það er vanmetið hvaða þýðingu þetta hefur fyrir - ég vil leyfa mér að segja - íslenska þjóðarbúið. Fræðslu- og áróðursstarf þarf að vera markvisst og skipulagt og það þarf að vera skipulagt til langs tíma ef það á að bera árangur.

Umferðarvikan hér í Reykjavík á haustdögum var virðingarvert átak og til mikils sóma þeim sem að stóðu. En það kom greinilega í ljós að slík vika dugar skammt vegna þess að framhaldið vantar. Við Íslendingar þurfum að endurhæfa okkur frá grunni. Það þarf ekki hugarfarsbreytingu í sambandi við umferðarmálin. Það þarf hugarfarsbyltingu í þeim efnum.

Fram hefur komið í fjölmiðlum nú að undanförnu að yfir Íslendingum vofi nýr sjúkdómur sem menn óttast eins og svarta dauða. Áunnin ónæmistæring hefur þessi sjúkdómur verið nefndur og allir eru sammála um að allt skuli gert til að fyrirbyggja að sjúkdómurinn breiðist hér út og við getum vænst þess að einhverjir eigi eftir að deyja úr þessum sjúkdómi hér á landi á næstu árum. En varðandi umferðarslysin er æskufólkið stærsti áhættuhópurinn og við vitum að ef við tökum dæmi t.d. í skóla, þar sem eru 500 piltar og 500 stúlkur, má búast við að árlega slasist 20-25 af þessum 500 piltum og 10-12 stúlknanna, sum lífshættulega og mörg varanlega bækluð. Það er því ekkert hjóm að tala um þessi mál af alvöru. Við megum ekki missa þetta unga fólk, ekki heldur í umferðarslysum, því að umferðarslysin hér á landi eru ekkert annað en farsótt og það verður að bregðast við þeim samkvæmt því. Okkur tókst að uppræta berklaveikina á sínum tíma með samstilltu átaki. Umferðarslysin eru e.t.v. sú áunna farsótt sem er auðveldast að uppræta með samstilltu átaki. Hér er ekki falin veira heldur er hún öllum augljós og verður upprætt með samstilltu átaki í aðgát og tillitssemi.

Ég hef sett niður á blað hvað við gætum sparað þjóðfélaginu með því að gera samstillt átak um fækkun umferðarslysa, ef við settum okkur ákveðið markmið, t.d. 10% á ári, með bættri umferðarmenningu og ýmsum fyrirbyggjandi aðgerðum. Það hefur verið upplýst að umferðarslysin kosti þjóðfélagið árlega a.m.k. 1,2 milljarða kr. Ef við lækkum þessa tölu um 10% á ári, við skulum segja í næstu sjö ár, mundi það vera fyrsta árið 120 millj. kr. sparnaður, næsta ár 228 o.s.frv. þangað til sjöunda árið væri það 725,9 millj. Við getum talað um að þessi sparnaður væri brúttó 2,8 milljarðar á 7 árum. Þennan sparnað gætum við keypt fyrir 315 millj. ef við notuðum svipaða upphæð og var notuð í fræðslustarfsemi þegar breytt var yfir í hægri umferðina, þ.e. 40 millj. á ári, það þýðir 315 millj. í þessi sjö ár. Þessar tölur miðast við verðlagið í dag. Ég tek það fram að þetta eru ekki vísindalegir útreikningar. En þetta er sett fram til að reyna að vekja menn til umhugsunar um þýðingu þess að þarna er bæði um að ræða peninga og svo þurfum við ekki síður að hugsa um þjáninguna og sorgina sem oft fylgir í kjölfar slysanna.

Ég ætla, herra forseti, ekki að hafa þessi orð öllu fleiri við þessa umræðu. Ég gat ekki látið hjá líða að nota þetta tækifæri til að fjalla um þessi mál sem mér finnst stjórnvöld gefa allt of lítinn gaum og kannske við almennt í þessu litla þjóðfélagi okkar sem er svo fámennt og hver einstaklingur er okkur svo dýrmætur.